Á fimmtudag verður í Skaftafelli í Öræfum og á Hala í Suðursveit haldin opnun á verkefninu Jöklasýn sem er samstarf Jöklarannsóknafélags Íslands og ljósmyndarans James Balogs. Valdir hafa verið staðir og sjónarhorn til að skrásetja breytingar á jöklum landsins með þátttöku almennings og vísindafólks.
Markmið þessa er að safna í aðgengilegan gagnabanka ljósmyndum um breytingar á íslenskum jöklum næstu 100 árin og miðla þeim upplýsingum áfram. Hugmyndafræðin er að gögnin sem þarna verða til skapi sjónræna arfleifð og séu viðbót við hefðbundnar jökulsporðamælingar.
Stór áfangi náðist í sumar þegar tvær hringsjár voru settar upp við sunnanverðan Vatnajökul. Önnur sjónskífan er á Sjónarnípu á Skaftafellsheiði með útsýni yfir Skaftafellsjökul. Hin er nærri Skálafellsjökli.
Hringsjárnar eru með einföldu yfirlitskorti af jöklunum og útlínum hans á mismunandi tímum. Einnig festingu sem sími er lagður í, þannig að sama sjónarhorn fáist jafnan við myndatöku. Þátttakendur senda myndirnar í sérstaka gátt og svo í gagnabankann sem að framan er lýst.
Einnig voru sett upp skilti með samanburðarmyndum af viðkomandi jökli og leiðbeiningum um þátttöku. Þá hafa verið settir upp einfaldir sérsmíðaðir þrífætur sem hægt er að festa myndavél á og taka síðan ljósmynd frá sama sjónarhorni á nokkrum völdum og góðum stöðum. sbs@mbl.is