60 ára Trausti fæddist í Eyrarhvammi í Mosfellssveit og ólst þar upp. Eftir sveinspróf í rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1986 lá leiðin í Tækniskólann (gamla) og þaðan til Óðinsvéa í Danmörku þar sem Trausti útskrifaðist sem rafmagnstæknifræðingur 1992

60 ára Trausti fæddist í Eyrarhvammi í Mosfellssveit og ólst þar upp. Eftir sveinspróf í rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1986 lá leiðin í Tækniskólann (gamla) og þaðan til Óðinsvéa í Danmörku þar sem Trausti útskrifaðist sem rafmagnstæknifræðingur 1992. „Afskipti mín af félagsstörfum hófust þegar ég settist í stjórn Iðnnemasambandsins sem var mjög virkt á þessum tíma og barátta var um námsíbúðir sem áttu eftir að rísa áratugum síðar.“ Síðar varð Trausti gjaldkeri í stjórn Bandalags íslenskra sérskólanema, BÍSN.

Trausti er kennari og deildarstjóri rafiðnaðardeildarinnar við Fjölbrautaskóla Vesturlands og sinnir jafnframt kennslu fyrir verðandi iðnmeistara. „Félagsmálin héldu áfram að elta mig eftir að á Akranes var komið. Ég hef elt börnin mín í íþróttirnar og hef verið bæði í stjórn Badmintonfélags Akraness og Sundfélags Akraness þar sem ég var formaður í tólf ár.“ Í dag er Trausti í stjórn Íþróttabandalags Akraness, ÍA. Þá hefur hann lengi spilað í lúðrahljómsveitum bæði á sínum æskuárum í Mosfellssveit og á Akranesi. Í nokkur ár spilaði hann með brasssextettinum Heitum vörum.

Í frístundum hafa Trausti og fjölskylda hans notið sín í ferðalögum en þau hafa verið dugleg að ferðast um landið, bæði akandi og gangandi. „Yfir vetrartímann taka skíðin völdin en á Siglufirði á fjölskyldan frístundahús með góðum vinum og er Tröllaskaginn endalaust ævintýrasvæði fyrir skíðafólk. Ekkert jafnast á við að ganga eftir Héðinsfjarðarvatni þegar snjór liggur yfir í þeim fagra fjallasal. Sömu sögu er að segja frá Lágheiðinni. Svo má ekki kjafta frá besta skíðasvæði landsins sem er í Skarðsdal við Siglufjörð, hvort sem skíðað er utanbrautar eða á troðnum brautum. Skíðaferðir erlendis eru einnig árlegur viðburður. Í sumar tók golfíþróttin völdin og erum við hjónin helsjúk í golf eftir sumarið. Rjúpnaveiði stunda ég einnig.“

Fjölskylda Trausti er giftur Sigríði Ragnarsdóttur, f. 1965, kennara. Börn þeirra eru Hrafn, f. 1992, Steinunn, f. 1994, og Brynhildur, f. 2001. Foreldrar Trausta: Steinunn Katrín Theodórsdóttir, f. 1932, d. 2020, meinatæknir á Reykjalundi, og Gylfi Pálsson, f. 1933, fv. skólastjóri í Gagnfræðaskólanum auk þess sem hann var lengi þýðandi og þulur hjá Sjónvarpinu.