Árið 2015 var samið um svæðisskipulag sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins í samræmi við skipulagslög, en það gildir fram til ársins 2040. Ágætt er að horfa fram í tímann en á aldarfjórðungi getur ýmislegt breyst og raunin hefur verið sú að á aðeins fáum árum hefur staðan á höfuðborgarsvæðinu gjörbreyst með miklu meiri fólksfjölgun en gert hafði verið ráð fyrir.
Nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafa viljað gera breytingar á svæðisskipulaginu og víkka út svokölluð vaxtarmörk til að auka svigrúm til húsnæðisuppbyggingar sem er mjög aðkallandi. Hafa Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði greint frá þessu en um leið að Reykjavíkurborg standi gegn breytingum, enda er ofuráhersla á þéttingu byggðar hjá vinstri meirihlutanum þar.
Nú hefur Berglind Ósk Guðmundsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagt fram frumvarp sem fellir úr gildi neitunarvald eins sveitarfélags í þessum efnum. Berglind vill að aukinn meirihluta þurfi til breytinga, sem þýddi að 5 af 7 sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu gætu náð fram breytingum, í stað þess að 7 af 7 þurfi til.
Í ljósi þvermóðsku meirihlutans í Reykjavík er þetta nauðsynleg breyting.