„Að ungmenni leggi símann oftar frá sér er mikilvægt. Samvera skiptir máli og þá er tilvalið að grípa í spil,“ segir Halla Svanhvít Heimisdóttir, íþrótta- og lýðheilsufræðingur við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ (FMos). Óhófleg notkun ungs fólks á símum og snjalltækjum þykir vinna gegn heilsu og félagslegri virkni. Málefni þetta hefur verið ofarlega á baugi að undanförnu og aðgerða er talin þörf.
„Að vinna að heilbrigðum lífsstíl og farsælu lífi er mér hjartans mál,“ segir Halla. Í FMos er mikið lagt upp úr því að í frímínútum og á öðrum lausum stundum bjóðist nemendum afþreying svo sem spil, í stað þess að hver sitji í sínu horni með símann. Þetta hefur mælst vel fyrir. Því var hrundið af stað að frumkvæði Höllu verkefni og keypt borðspil sem margir ættu að þekkja eða vera fljótir að læra reglurnar; það er lúdó, mylla, slönguspil og tafl. Þetta framtak naut stuðnings frá verkefninu Mosfellsbær – heilsueflandi samfélag.
„Núna eftir helgina ætlum við með spil á staði þar sem þau ættu að koma í góðar þarfir, svo sem í grunnskólana hér í Mosfellsbæ, félagsmiðstöðvar, bókasafnið, íþróttahús og sundlaugar, listaskólann, heilsugæslustöðina og á þá matsölustaði bæjarins sem gefa sig út fyrir að vera fjölskylduvænir,“ segir Halla sem á dögunum átti gæðastund með nokkrum hressum krökkum þar sem spilað var og spjallað af gleði.
„Símanoktun í óhófi getur haft áhrif á kvíða, aukið á einmanaleika og skapað neikvæð áhrif á sjálfsmynd fólks. Samvera með því að spila í frímínútum í skólanum, með foreldrunum eftir íþróttaæfingu eða við önnur slík tilefni er alveg er frábær. Vonandi eflir framtak okkar slíkt,“ segir Halla að síðustu. sbs@mbl.is