Besta deildin
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Hið magnaða einvígi Víkings og Breiðabliks um Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta náði nýjum hæðum í gærkvöld þegar Tarik Ibrahimagic skaut Víkingum aftur á topp Bestu deildarinnar með sigurmarki gegn Val, í blálok uppbótartímans á Hlíðarenda, 3:2.
Breiðablik knúði fyrr um daginn fram sigur á FH í Kaplakrika, 1:0, með marki Kristins Jónssonar beint úr hornspyrnu. Sjöundi sigur Blika í röð og sá ellefti í röð án taps.
Allt stefndi í að Blikar næðu þar með forskoti á Víking, sérstaklega eftirað Valsmenn komust í 2:1 gegn Víkingi með marki Birkis Más Sævarssonar í síðari hálfleiknum í gærkvöld.
En hinn danski Tarik, sem kom til Víkings frá Vestra í ágúst, jafnaði með fallegu skoti, 2:2, og skoraði svo sigurmarkið á glæsilegan hátt. Fimmti sigur Víkinganna í röð í deildinni.
Hreinn úrslitaleikur Víkings og Breiðabliks í lokaumferðinni er svo sannarlega enn á dagskránni, nema annað hvort liðanna hiksti verulega í næstu tveimur leikjum.
Tap Vals gerir slag Stjörnunnar og ÍA í kvöld enn mikilvægari en nú eru þessi þrjú lið í baráttu um þriðja sætið og keppnisrétt í undankeppni Sambandsdeildar.
Dýrmætt sigurmark Andra
Andri Rúnar Bjarnason, framherjinn reyndi, tryggði Vestra dýrmætan sigur á HK, 2:1, með marki skömmu fyrir leikslok á Ísafirði.
Vestri fór þar með upp fyrir HK og úr fallsæti en segja má að þetta hafi verið fyrsti af þremur úrslitaleikjum innbyrðis milli Vestra, HK og Fylkis um eitt sæti í deildinni á næsta ári.
HK hefur enn aðeins fengið eitt stig í fimm leikjum gegn hinum botnliðunum, Vestra og Fylki.
Fylkir er kominn með bakið upp við vegg eftir tap gegn KA á heimavelli í gær, 3:1. Fylkir er nú fimm stigum á eftir Vestra og fjórum á eftir HK og á eftir að mæta báðum liðum. HK og Fylkir mætast á sunnudaginn kemur.
Hallgrímur Mar Steingrímsson kom inn á hjá KA, skoraði annað mark liðsins úr vítaspyrnu og lagði upp mark fyrir Viðar Örn Kjartansson, sem áður hafði krækt í vítaspyrnuna. Steinþór Már Auðunsson markvörður KA varði síðustu spyrnu leiksins, vítaspyrnu frá Arnóri Breka Ásþórssyni.
Veisla í Vesturbænum
KR-ingar fóru ótrúlega létt með heillum horfna Framara og gjörsigruðu þá 7:1 á Meistaravöllum þar sem Benoný Breki Andrésson skoraði þrennu á fyrstu 35 mínútunum og fjögur mörk alls.
Aron Þórður Albertsson og Jóhannes Kristinn Bjarnason lögðu upp tvö mörk hvor og Atli Sigurjónsson var með mark og stoðsendingu.
KR-ingar eru þar með langt komnir með að forða sér af hættusvæðinu en eru þó ekki sloppnir þar sem fjögur stig skilja þá og HK að. En það er ljóst að einn sigur enn í síðustu þremur leikjunum verður nóg fyrir Vesturbæinga.