Fuglafræðingur Jóhann Óli með kíkinn á lofti á Stokkseyri þar sem hann hefur frábært tækifæri til fuglaskoðunar.
Fuglafræðingur Jóhann Óli með kíkinn á lofti á Stokkseyri þar sem hann hefur frábært tækifæri til fuglaskoðunar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Fálki er þjóðarfugl Íslendinga svo víða kemur hann við í sögum fyrri tíðar og var konungsgersemi. Heiðlóan er sennilega vinsælasti fuglinn á meðal Íslendinga og hrafninn sá gáfaðasti, enda sýna vísindarannsóknir fram á snilli og gáfur krumma…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Fálki er þjóðarfugl Íslendinga svo víða kemur hann við í sögum fyrri tíðar og var konungsgersemi. Heiðlóan er sennilega vinsælasti fuglinn á meðal Íslendinga og hrafninn sá gáfaðasti, enda sýna vísindarannsóknir fram á snilli og gáfur krumma sem er af krákukyni,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur. Honum var á dögunum, af umhverfisráðherra, veitt Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti. Viðurkenning þessi var nú veitt í 15. sinn en hún fellur jafnan fólki í skaut, sem hefur á einhvern hátt látið náttúruvernd til sín taka, rétt eins og valkyrjan í Brattholti gerði forðum þegar hún kom í veg fyrir að Gullfoss yrði seldur þeim sem virkja vildu.

Fálkinn var einkennismerki

Starf Jóhanns Óla hefur í tímans rás einkum verið að skrá fuglalíf, taka ljósmyndir og miðla upplýsingum. Þá hefur hann barist ötullega fyrir friðun og endurheimt votlendis og átti stóran þátt í því að Friðland í Flóa skammt frá Eyrarbakka varð að veruleika. Sá vettvangur hefur meðal annars auðveldað almenningi að kynnast fuglum í náttúrulegum heimkynnum.

Danakonungar sóttu fálka til Íslands og létu flytja utan í þúsundavís frá um 1600-1800. Flestir voru gefnir konungum og öðrum höfðingjum víða um heim. „Á dögum sjálfstæðisbaráttunnar var farið að huga að nýju skjaldarmerki og með heimastjórninni fékk Ísland nýtt slíkt þar sem fálkinn var einkennismerki og byggir það á hinni miklu sögu fálkaútflutnings frá landinu öldum saman. Með konungsúrskurði var ákveðið að skjaldarmerki Íslands mætti vera hvítur íslenskur fálki. Æðsta viðurkenning sem forseti Íslands veitir er fálkaorðan,“ segir Jóhann Óli og brosir. Fuglar eru honum hjartans mál.

Stemning fylgir farfuglum

Í verkum myndlistarmanna bregður fuglum gjarnan fyrir, þeir fljúga hátt í bókmenntum og ljóðum og hafa þar stundum táknrænt gildi. Fregnir af komu fyrstu farfuglanna á vorin eru stórmál og einu sinni var dagskrárliður í Ríkisútvarpinu sem hét Fugl dagsins. Þetta var gáta og þau sem vissu svarið máttu velja sér óskalag. Þetta var dagskrárliður sem naut mikilla vinsælda og segir Jóhann Óli þetta staðfesta og segja að fuglar skipti Íslendinga miklu máli. Margir þekkja líka að „fagurt galaði fuglinn sá“ eins og skáldið orti í ljóði um lífið undir bláum sólarsal.

„Á Íslandi er lítið um spendýr og önnur landdýr. Fuglar þurfa því að fylla skarðið. Þeir eru mjög áberandi í íslenskri náttúru og standa hjörtum okkar nær. Fuglar eru líka alls staðar, frá heimskautum að miðbaug, þó mismikið eftir búsvæðum. Hér á norðurhjara er ákveðin stemning sem fylgir farfuglunum, vorið er í nánd með bjartari tíð og blóm í haga eftir myrkur og kulda vetrarins. Þó eru um 30 fuglategundir sem þreyja hér þorrann og góuna,“ segir Jóhann Óli og heldur áfram:

„Mér er sérstaklega minnisstætt þegar þjóðin fylgdist spennt með farflugi álfta sem báru gervihnattasendi og útvarpið flutti daglegar fréttir af þeim. Jafnvel vitnuðu alþingsmenn og ráðherrar til þessara ferðalaga úr ræðustól Alþingis svo merkileg þóttu þau. Og lóan vann vefkosningu Evrópusöngvakeppni fugla sem Eistar héldu vorið 2002, meðfram hinni hefðbundnu tónlistarkeppni í sjónvarpinu. Íslendingar voru duglegir að kjósa sinn fugl.

Tjörn með húsi á bakka

Áhuga sinn á gangverki náttúrunnar segir Jóhann Óli hafa vaknað strax þegar hann var á barnsaldri. Margt hafi haft áhrif á þá lund að fuglar fönguðu hug hans.

„Ég flutti til Stokkseyrar fyrir 23 árum og fannst ég orðinn aðþrengdur þar sem ég bjó í Reykjavík. Þegar ég kom hingað í júní 2001 benti vinur minn mér hér á hús sem hann taldi að væri til sölu. Þetta var Símonarhús, sem stendur við dæl eða litla tjörn og fuglalífið á henni er mikið. Teningnum var kastað og ég keypti húsið eða öllu heldur tjörn með húsi á bakkanum. Þarna var ég líka kominn í nágrenni við Friðlandið í Flóa og síðast en ekki síst hina stórkostlegu fjöru hér á Eyrum. Og á Stokkseyri hef ég fengið frábært tækifæri og aðstöðu til að fylgjast með fuglalífi á Eyrum og þróun þess,“ segir Jóhann Óli og heldur áfram:

„Helsta og mesta breytingin sem ég hef séð á fuglalífinu er tvímælalaust fækkun sjófugla, sem er svo mikil að hrun hefur orðið í sumum stofnum. Stuttnefju hefur fækkað um 80% og skúmur er nær horfinn. Skúmurinn er ásamt lundanum nú í hæsta þrepi íslenska válistans, tegund í bráðri hættu. Hrun í sandsílastofninum kringum 2005 hafði mikil áhrif á flesta sjófuglastofna. Hrunið var af völdum hlýnunar sjávar í kjölfar loftslagsbreytinga. Eitthvað virðist sílið þó vonandi vera að rétta úr kútnum aftur og sumir sjófuglar einnig.“

Viðmælandi bendir á að Íslendingar beri ábyrgð á stórum stofnum mófugla, sumar tegundir þeirra eru hvergi í veröldinni algengari en hér. Um 85% allra mófugla verpa á láglendi landsins og landnotkun þar ræður framtíð mófuglastofna. Hér verpa til dæmis 52% allra heiðlóa í heiminum og 31% spóa. Íslenski jaðrakaninn er sérstök undirtegund sem gæti orðið sérstök tegund á næstu árum.

„Með tilliti til fuglalífs er ég uggandi vegna stórtækra áforma um skógrækt á láglendi. Skógarplötur eru stundum settar niður í grónu landi þar sem mófuglarnir verpa og menn eru jafnvel að ræsa fram mýrar til að rækta. Enn er meira ræst fram af votlendi árlega en er endurheimt. Mófuglarnir vilja ekki verpa í skógi og helst ekki nærri honum. Mýrar eru búsvæðin sem halda lífi í fuglum. Ef þeim er raskað, hvort sem er með virkjunum, vegagerð, vindmyllum eða ótæpilegri skógrækt, þá töpum við fuglunum.“

Uppgjör á ævistarfi

Á RIFF, kvikmyndahátíð í Reykjavík, var í gær, sunnudag, frumsýnd heimildarmyndin Fuglalíf um líf og starf Jóhanns Óla. Víða er komið við í þessari mynd sem Heimir Freyr Hlöðversson leikstýrði og klippti. Þeir Heimir og Jóhann Óli unnu talsvert saman, svo sem við gerð myndefnis um náttúru landsins. Einmitt af slíku vaknaði hugmynd um gerð þessarar myndar – sem fer fyrst í bíó en svo í sjónvarp. Myndin varpar ljósi á líf og starf Jóhanns Óla og er, segja framleiðendur, nokkurs konar uppgjör á ævistarfi hans. Myndin er spegill inn í líf fuglaskoðara sem leggja gjarnan á sig löng ferðalög til þess að sjá nýjar tegundir og ljósmynda.

„Tveggja manna gengi elti mig á röndum. Fáein atriði voru reyndar sviðsett. Efnið sem var tekið upp er mikið og aðeins brot af því fór í myndina; þar sem fuglar koma mjög við sögu enda þótt ég sjálfur sé þar í fókus,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson að síðustu.

Hver er hann?

Jóhann Óli Hilmarsson er fæddur 1954; fuglafræðingur og náttúruljósmyndari. Hann er meðal annars höfundur bókanna Lundinn og Íslenskur fuglavísir. Hann hefur jafnframt skrifað fjölda greina í blöð og tímarit og sinnt ýmsum vísindaverkefnum tengdum fuglum, meðal annars við mat á umhverfisáhrifum.

Síðastliðin 25 ár hefur Jóhann Óli starfað við leiðsögn og kynnt ferðamönnum fugla. Fréttaritari Morgunblaðsins á Stokkseyri, auk þess að eiga innslög í öðrum fjölmiðlum um fugla og fleira.