Guðmundur Karl Jónsson
Í utanverðum Skagafirði hafa heimamenn í Fljótum árangurslaust ítrekað kröfuna um jarðgöng undir Siglufjarðarskarð og lýst áhyggjum sínum af slysahættunni vegna jarðsigs á veginum í Almenningum og Mánárskriðum. Áður ítrekuðu vonsviknir Fljótamenn þessa kröfu sína, um að gerð yrðu tvíbreið jarðgöng úr Skarðsdal sunnan Siglufjarðar sem kæmu inn í Skagafjörð, í beinu framhaldi af Héðinsfjarðargöngum. Í dag er vegalengdin milli Fljóta og Siglufjarðar 25 km. Með 4,7 km löngum veggöngum styttist hún um 15 km. Á 6. áratug 20. aldar, áður en ákvörðun var tekin um gerð einbreiðu Strákaganganna og lagningu nýs vegar um Mánárskriður og Almenninga, kom fram hugmynd um gerð jarðganga milli Hólsdals í Siglufirði og Nautadals í Fljótum. Tillögu Vegagerðarinnar um að taka þaðan veggöng inn í Hólsdal í Siglufirði hafa Fljótamenn andmælt. Enginn veit hvar snjóflóðahættur leynast, hvort sem þessi göng milli Siglufjarðar og Fljóta yrðu tekin úr Nautadal, yfir í Hólsdal eða frá Hraunum við Miklavatn inn í Skarðsdal.
Biðlistar eftir jarðgöngum sem eru langir styttast aldrei vegna ósamkomulags um hvaða samgöngumannvirki skuli vera efst á blaði. Daglega eykst hættan á dauðaslysum sem 80 cm jarðsig á núverandi vegi vestan einbreiðu Strákaganganna skapar, á meðan Vegagerðin vill ekkert aðhafast. Næstu áratugina er ólíklegt að brugðist verði við þessu vandamáli þegar allar tilraunir til að fjármagna Vaðlaheiðargöng, með innheimtu veggjalda á hvern bíl, heppnast aldrei. Í kjölfarið fær ríkissjóður skellinn, þegar brýnustu samgöngubæturnar á hringveginum verða afskrifaðar vegna fjárskorts. Best væri fyrir vegamálastjóra að snúa sér frekar að hættuástandinu á viðhaldsfrekum Siglufjarðarvegi og núverandi vegi sunnan Múlaganganna, sem er engu betri, í stað þess að koma með fjarstæðukennda hugmynd um að setja Svínvetningabraut í Húnaþingi eystra og Axarveg á Austurlandi í einkaframkvæmd. Í fámennum landshlutum utan höfuðborgarsvæðisins er útilokað að veggjald á hvert ökutæki geti fjármagnað slík samgöngumannvirki.
Fyrrverandi þingmenn Norðurlands eystra og vestra, sem ítrekuðu andstöðu sína gegn Fáskrúðsfjarðargöngum í febrúar 1999, áttu frekar að kynna sér þörfina á tvíbreiðum veggöngum undir Siglufjarðarskarð, til að losa íbúa Fjallabyggðar og Fljóta við þetta hættuástand vestan einbreiðu slysagildrunnar. Af sínum fyrri mistökum hafa Vegagerðin og fyrrverandi þingmenn Norðlendinga ekkert lært, eftir að öllum hugmyndum um að Múlagöngin yrðu grafin 1-2 km norðan Dalvíkur var vísað norður og niður. Líkurnar á því að einangrun Fjallabyggðar við Norðvestur- og Norðausturkjördæmin verði stöðvuð, áður en aurskriður sópa vegunum vestan Strákaganga og sunnan Múlaganganna niður í fjörurnar, eru einn á móti milljón. Engin spurning er hvort nyrsta sveitarfélagið á Eyjafjarðarsvæðinu einangrist við bæði kjördæmin, aðeins hvenær.
Ég spyr: Stóð vilji fyrrverandi yfirmanns samgöngumála Kristjáns L. Möller til þess að brugðist yrði strax við áhyggjum Fljótamanna og íbúa Fjallabyggðar, sem vilja hið snarasta losna við slysahættuna í Almenningum, Mánárskriðum, og á veginum milli Dalvíkur og Múlaganga?
Önnur spurning: Taldi Kristján Lárus það verjandi að kjósendur hans í Fjallabyggð gætu aðeins yfir sumarmánuðina keyrt til Akureyrar, í gegnum Skagafjörð og Öxnadal, þegar fært er um Lágheiði, sem lokast strax á haustmánuðum vegna illviðris og snjóþyngsla? Þá einangrast íbúar Fjallabyggðar alla vetrarmánuðina, án þess að talað sé um að taka aftur upp flugferðir til Siglufjarðar, frá Akureyrar- og Reykjavíkurflugvelli. Óhjákvæmilegt er að ríkisstjórnin taki strax á þessu vandamáli sem öllum þingmönnum Norðlendinga ber að fylgja eftir í samgöngunefnd. Viðunandi lausn á samgöngumálum Fljóta og Fjallabyggðar finnst aldrei án þess að skrifað verði strax dánarvottorð á Siglufjarðarveg og Strákagöng, fyrir fullt og allt. Öllu máli skiptir að Múlagöngin og vegurinn norðan Dalvíkur fái strax sömu örlög. Þessar slysagildrur skulu víkja fyrir tvíbreiðum jarðgöngum undir Siglufjarðarskarð og sunnan Múlaganganna. Stöðvum einangrun Fjallabyggðar áður en það er of seint.
Höfundur er fv. farandverkamaður.