Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs, hefur verið valinn heiðurslistamaður bæjarfélagsins af lista- og menningarráði Kópavogs. Elísabet Berglind Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður lista- og menningarráðs, afhenti Össuri viðurkenningarskjal og blóm af þessu tilefni við athöfn sl. föstudag.
Össur hefur verið skólastjóri Skólahljómsveitarinnar frá árinu 1993 en hefur starfað þar sem kennari frá árinu 1987. Þá hófst tónlistarferill hans í skólahljómsveitinni þegar hann var 11 ára gamall.
„Mér finnst svo mikilvægt að kynna börnum alls konar tónlist, bæði nýja og gamla tónlist, gæðatónlist sama hvaða tónlistarstíl við erum að tala um. Það er gaman að koma saman í hljómsveit og búa til tónlist og bæði upplífgandi og gefandi að finna góðan samhljóm og vita að maður á sinn þátt í að framkalla þennan galdur,“ er haft eftir Össuri í tilkynningu frá Kópavogsbæ.