Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Það náðist bara ein hrefna núna og við erum hættir í bili,“ segir Sverrir D. Halldórsson leiðangursstjóri Hafrannsóknastofnunar í samtali við Morgunblaðið, en hann fór fyrir þriggja manna hópi sem hafði það verkefni að merkja hrefnur í Eyjafirði. Um er að ræða tilraun sem er afrakstur þróunarverkefnis innan vébanda Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, NAMMCO.
Markmiðið er að þróa smærri gervitunglamerki sem henta til merkinga á hraðsyndari hvalategundum eins og hrefnu, langreyði og grindhvölum sem hafa reynst vísindamönnum þungar í skauti þegar að merkingum kemur, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar.
Segir þar að verkefnið sé mikilvægt til að bæta aðferðir við öflun þekkingar um ferðir og atferli þessara tegunda.
Til þess að sinna þessu leigði stofnunin bátinn Tryggva Sveins EA-49 sem er vel útbúinn til slíkra merkinga enda oft verið notaður áður í þeim tilgangi.
„Það er ekkert auðvelt að elta þær, hrefnur eru óútreiknanlegar og ekki mjög stefnuvissar á ferðalaginu. Það þarf þolinmæði til að komast að þeim,“ segir Sverrir.
Sérstök loftbyssa er notuð til merkinganna og sendir hún skeyti sem festist í hrefnunni. Það sendir síðan merki um staðsetningu dýrsins í gervitungl og er þannig hægt að fylgjast með ferðum þess. Hrefnan sem tókst að merkja var skammt sunnan Hjalteyrar um miðjan þennan mánuð. Þegar dýrið hafði sagt skilið við Eyjafjörð tók það stefnuna austur og var tveimur dögum eftir merkingu komið austast í Öxarfjörð, þar sem hrefnan hefur haldið sig að mestu síðan.