Valdimar Ólafsson, alltaf kallaður Valdi, var fæddur í Reykjavík 24. október 1958. Hann lést á Lungnadeild Landspítalans 17. september 2024.

Foreldrar Valda voru Kristjana Jónsdóttir, f. 28. febrúar 1920, d. 8. janúar 2020, og Ólafur Breiðfjörð Finnbogason, f. 14 desember 1918, d. 21. maí 2010. Valdi átti fjóra bræður, Jón, Finnboga, Björn og Ólaf Hauk. Ólafur er einn núlifandi af þeim bræðrum.

Valdi giftist eftirlifandi eiginkonu sinni Margréti Steinunni Bragadóttur, f. 13. júní 1961, þann 1. júlí 2006. Sonur þeirra er Björn Breiðfjörð Valdimarsson, f. 24. febrúar 1995. Foreldrar Margrétar voru Helga Kristín Kristvaldsdóttir, f. 10. febrúar 1931, d. 5. febrúar 2015, og Bragi Húnfjörð, f. 3. maí 1926, d. 30 nóvember 1991.

Valdi kom víða við í atvinnulífinu. Hann byrjaði á sjónum 18 ára hjá Hafskip, vann líka hjá Jöklum hf. Hann vann hjá Hagkaupum á Seltjarnarnesi í mörg ár. Síðasta starf Valda var hjá Gróttu, knattspyrnudeild, sem vallarstjóri á Vivaldivellinum.

Útför Valda fer fram frá Seltjarnaneskirkju í dag, 30. september 2024, klukkan 13.

Að eiga góðan vin er dýrmætt og það áttum við í Valda, hann var líka mágur og svili. Mín fyrstu kynni af Valda voru þegar við systur unnum með Óla bróður hans. Óli bauð okkur heim til sín þar sem við hittum Valda fyrst. Þegar við systur komum út þá segi ég við Steinu að Valdi verði hennar eiginmaður, hún hélt nú ekki. Það tók þau líka fimm ár að ná saman og byrja búskap árið 1986.

Á sama tíma eru Valdi og Geir að vinna saman á Hofsjökli. Þannig að leiðir okkar fjögurra hafa legið saman í 38 ár. Valdi vildi allt fyrir alla gera, það fengu börnin okkar að upplifa og njóta. Valdi og Steina voru eins og foreldrar þeirra nr. 2 og þegar barnabörnin komu þá fengu þau nöfnin Valdi afi og Steina amma.

Þegar Bjössi þeirra fæddist 1995 var það mikil gæfa fyrir þau, Valdi sá ekki sólina fyrir honum og gerði allt fyrir hann. Valdi var einstaklega ljúfur, hjálpsamur og vinur vina sinna. Þegar Valdi fór í Costco eða Góða hirðirinn þá kom hann alltaf færandi hendi, ótrúlegt hvað það hitti oft í mark. Áttum dásamlegar stundir með Valda og Steinu uppi í sumarbústað, hvort sem það var í Hagkaupbústað, vestur í Stykkishólmi, Hestlandi eða síðustu árin í okkar eigin bústað. Þar naut Valdi sín, úti í náttúrunni, heita pottinum eða í gufubaði. Þó Valdi vildi ekki mikinn íburð, þá vildi hann hafa fínt í kringum sig. Hann elskaði góðan mat og elskaði að elda fyrir fólkið sitt og þá var ekkert til sparað. Valdi var mjög félagslyndur en vildi samt ekkert umstang sem sneri að honum, hélt aldrei upp á afmælið sitt. Þegar hann var sextugur þá fórum við Geir með þeim til Glasgow og Edinborgar og er sú ferð ógleymanleg í alla staði, hví hann naut sín innilega. Fyrir tveimur árum veikist Valdi okkar með af lungnakrabbameini, var það mikið áfall fyrir okkur öll. Því miður þurfti Valdi okkar að lúta í lægra hald fyrir þessum sjúkdómi. Elsku Valdi, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur, þín verður sárt saknað.

Meðan sólin signir jörð,

sefur þú í englahjörð,

bið ég Guð að gefa þér,

góðan frið í örmum sér.

(Sigurjón A. Sigurjónsson)

Elsku Steina og Bjössi hugurinn okkar er hjá ykkur kæru vinir.

Geir og Hólmfríður (Fríða).

Í dag kveðjum við þig elsku Valdi okkar.

Eftir sitja góðar stundir og minningar sem við áttum með þér. Þegar við hugsum um æskuna okkar þá er ekki annað hægt en að hugsa um þig og Steinu. Okkur finnst við hafa fengið aukasett af foreldrum, þið hafið alltaf hugsað um okkur og börnin okkar, sem ykkar væru.

Þú varst alltaf svo ljúfur og gafst okkur krökkunum svo mikið, bæði gjafir og samveru. Þú hugsaðir svo oft til okkar í búðinni og keyptir uppáhaldsnammið okkar áður en við komum til ykkar, sem sló alltaf í gegn. Ef það er eitthvað sem við gátum treyst á þegar við komum í heimsókn var það að þú áttir alltaf til nammi og bakkelsi. Við vorum alltaf spennt að koma til ykkar og voruð þið alltaf til í að passa okkur. Þegar við vorum lítil var toppurinn á tilverunni að fara í heimsókn á kaffistofuna í Hagkaup til þín. Þar tókstu á móti okkur með bros á vör og gafst okkur djús úr alvörudjúsvél.

Öll ferðalögin sem við fórum í saman standa upp úr og sérstaklega allar ferðirnar í Hólminn og sumarbústaðinn. Þegar foreldrar okkar voru erlendis fengum við vera hjá ykkur, sama hversu lengi það var, og vorum við ekki alltaf á því að fara með mömmu og pabba heim því það var svo gott að vera hjá ykkur.

Í gegnum öll þín veikindi var aðdáunarvert að fylgjast með þér og hve gott hugarfar þú varst með, sama hvað bjátaði á, og þú týndir aldrei voninni. Það var heiður að eiga þig að og mun minningin þín lifa með okkur.

Þín bónusbörn,

Sigurjón, Ragnheiður, Helga Kristín og Margrét Hólmfríðar- og Geirsbörn.

Finnið hvaða samheiti sem er fyrir hjartahlýju, góðmennsku og samkennd og þau lýsa öll Valda Vivalda sem er horfinn frá okkur. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast honum og vinna með honum í vallarhúsi Gróttu á Seltjarnarnesi og varð ríkari fyrir vikið. Hann var einstakur maður, oftast léttur í lund en stundum strangur og maðurinn sem ég seinna meir á öðrum stöðum bar aðra vallarstjóra saman við (trúið mér þeir bliknuðu í samanburðinum). Það var honum að þakka að varla féllu niður æfingar á veturna á Seltjarnarnesi. Skipti ekki máli hversu kalt var eða hversu mikill snjór var. Upp á fjórhjólið, sem gekk undir nafninu Rauða ljónið, hentist hann og skóf snjóinn burt. Og það sem meira var – hann var aldrei með húfu. Jafnvel þótt norðangarrinn nísti í gegnum merg og bein þá sat Valdi með bert höfuðið og brunaði í gegnum skaflana. Einn sá harðasti sem ég hef kynnst. Missir Seltjarnarness sem samfélags er mikill, missir Gróttu er meiri en mestur er missir þeirra sem elskuðu hann.

Elsku Steina og Bjössi. Ykkar besta manns er sárt saknað en minningarnar um hann munu lifa. Ég og Laufey, Magnea, Orri og Emelía sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Óskar Hrafn Þorvaldsson.

„Ég spyr bara Valda,“ er setning sem ég hef sagt ansi oft í gegnum tíðina. Gróttufólk þekkir vel að það var alltaf hægt að leita til Valda með hin og þessi verkefnin og pælingarnar. Hann var ótrúlega bóngóður maður og lét alltaf eins og hlutirnir væru sjálfsagðir – það var alltaf ekkert mál, við græjum það bara, var sagt með bros á vör.

Þau sumur sem ég vann í fótboltaskólanum dvaldi ég meira á Vivaldivellinum en heima hjá mér og við Valdi duttum oft á spjall um allt milli himins og jarðar. Hann hafði gaman af því að segja manni sögur frá yngri árum og það var alltaf stutt í grínið.

Það sem lýsir Valda sérstaklega vel er setning sem hann lét falla í starfsmannakynningu árið 2021: „Skilaboð til foreldra: Krakkarnir eru ekkert til vandræða, þau eru kurteis upp til hópa.“

Þetta lýsir Valda vel – hann tók alltaf vel á móti þeim sem mættu á Vivaldi, ungum sem öldnum. Eitt sinn spurði ung knattspyrnukona í Gróttu Valda hvort hann hefði verið skírður í höfuðið á ViValdivellinum. Henni fannst ekkert eðlilegra, enda er erfitt að ímynda sér Vivaldivöllinn án Valda.

Það var ómetanlegt fyrir félag eins og Gróttu að hafa mann eins og Valda í sínum röðum. Ég var ekki ein um það að eiga erfitt með að venjast því að Valdi væri farinn í veikindaleyfi – þá fyrst fann maður hvað hann var okkur mikilvægur. Ég þreyttist ekki á að segja honum hvað við söknuðum hans þegar hann kom í heimsókn á Vivaldi en hann var alltaf jafn hógvær. Eftir að hann fór í veikindaleyfi kom hann oft út á völl að taka stöðuna, hjálpa til með hitt og þetta og fá sér kaffibolla. Alltaf þegar ég hitti Valda var hann með bros á vör. Ef maður spurði um heilsuna þá var hann einlægur og hreinskilinn en alltaf jákvæður og bjartsýnn.

Valdi var einstakur maður sem ég er þakklát fyrir að hafa kynnst. Meira gæðablóð er erfitt að finna og ég á eftir að sakna hans mikið. Það er erfitt að hugsa til þess að Valdi muni ekki framar sitja í horninu sínu þegar maður mætir á Vivaldi eða vera keyrandi um á fjórhjólinu í allskonar stússi. Hans verður sárt saknað en minningin um einstakan mann lifir áfram.

Elsku Bjössi og Steina, hugur okkar allra er hjá ykkur.

Jórunn María.

Í dag kveðjum við Valdimar Ólafsson, vallarstjóra á Vivaldivellinum, knattspyrnuvelli Gróttu. Það er hálfundarlegt að skrifa eða heyra fullt nafn hans því hann var alltaf kallaður Valdi. Nær undantekningarlaust dugði að vísa til hans sem Valda, enda þekktu allir Valda og vissu um hvern var rætt. Örsjaldan skeytti maður „í vallarhúsinu“ aftan við, Valdi í vallarhúsinu, og þá var öruggt að fólk áttaði sig á um hvern væri talað.

Það er ómetanlegt fyrir íþróttafélög að hafa fólk eins og Valda í hópnum. Hann opnaði húsið fyrir krökkunum á morgnana eða í hádeginu og slökkti svo og læsti í lok dags. Ég man ekki til þess að það hafi truflað hann að dagskráin í húsinu væri óregluleg, stundum byrjað snemma og oft verið lengi fram eftir. Hann var einfaldlega mættur og búinn að opna þegar fyrsti hópur kom til æfinga og læsti á eftir þeim síðasta. Valdi var sérlega bóngóður og hafði ráð við flestum ef ekki öllum þeim vandamálum sem komu upp á vellinum eða inni í húsinu. Við sem komum að rekstri knattspyrnudeildar vorum vön að segja „Valdi reddar þessu“ þegar upp komu verkefni sem við réðum ekki við. Stóð það undantekningarlaust heima, alltaf reddaði Valdi málunum. Nú síðast síðla sumars, þegar Valdi hafði látið af störfum vegna veikinda, vorum við nokkrir í vandræðum með grillið á vellinum. Við hringdum í Valda og spurðum ráða. Hann var fljótur að segja okkur að vandamálið hefði með þrýstijafnarann að gera. Stuttu seinna var hann kominn út á völl með fjóra mismunandi þrýstijafnara í plastboxi sem hann átti heima hjá sér. Málið auðvitað leyst.

Það einkenndi Valda einna helst hvað hann var barngóður. Hann lagði áherslu á að vallarhúsið væri opið fyrir alla iðkendur félagsins, þar væru krakkarnir alltaf velkomnir, þangað væri gott að koma og þar liði þeim vel. Hjá Valda höfðu krakkarnir afdrep, fengu klefa til að skipta um föt, og skjól ef veður var vont. Máttu jafnvel vera með læti. Mig grunar að þá hafi Valdi verið glaðastur, þegar líf var í húsinu. Einu sinni furðaði ég mig á magninu af kakói sem var komið inn á lager og skildi ekki alveg þörfina á því – ekki var það selt í slíku magni á heimaleikjum. Þegar ég spurði Valda út í þetta svaraði hann því til að börnunum þætti svo gott að geta komið inn og fengið kakó þegar kalt væri úti. Fengið eitthvað heitt, eins og fullorða fólkið fengi kaffi. Ég þykist vita að slíkt er ekki á boðstólnum í öðrum íþróttamannvirkjum en þetta þótti Valda sjálfsagt.

Á aðventunni skreytti Valdi salinn í vallarhúsinu og bauð börnunum af leikskólanum í heimsókn í sannkallað jólaland. Steina kona hans hefur starfað sem leikskólakennari á Seltjarnarnesi um árabil og þetta fallega frumkvæði þeirra hjóna er enn einn vitnisburðurinn um þá miklu alúð sem þau hafa lagt í störf sín með börnunum í hverfinu.

Elsku Steina og Bjössi. Við í knattspyrnudeild sendum ykkur hugheilar samúðarkveðjur og minnumst Valda af hlýhug og með söknuði.

Með kveðju frá knattspyrnudeild Gróttu,

Þorsteinn Ingason.

Langar að minnast hans Valda okkar með örfáum orðum. Bjartsýni og léttleiki voru meðal þeirra mannkosta sem einkenndu hann Valda og ég fann góðvildina og vináttuna skína gegn þegar við tókum spjall einu sinni sem oftar. Valdi bar ekki veikindi sín á torg. Hann var gegnheill Gróttumaður sem helgaði sig starfi sínu hjá félaginu sem vallarstjóri á Vivaldi, heimavelli Gróttu.

Hann sinnti því starfi vel – var einkar vel liðinn og var sérstakur vinur og félagi krakkanna sem stunda æfingar hjá Gróttu.

Ég vil sérstaklega þakka vini mínum samfylgdina og votta elsku Steinu og Bjössa ásamt okkur öllum í Gróttusamfélaginu samúð mína.

Þór Sigurgeirsson.