Landamæravarnir og útlendingamál eru orðin meðal þeirra málaflokka sem hvað mestu ráða um úrslit kosninga á Vesturlöndum. Þetta hefur gerst hratt en á sér þó alllangan aðdraganda. Í Evrópu réð mestu að þáverandi kanslari Þýskalands, Angela Merkel, leiðtogi kristilegra demókrata, leyfði milljón flóttamönnum að streyma inn í Þýskaland og sagði af því tilefni: Við ráðum við þetta. Níu árum síðar má glöggt sjá í kosningum í þremur af fylkjum Þýskalands að kjósendur telja ekki að Þjóðverjar hafi ráðið við þann mikla straum sem hófst með mistökum Merkel og hefur haldið áfram síðan.
Svipaða þróun má sjá víðast hvar í Evrópu þó að með nokkuð ólíkum hætti sé. Nýir flokkar sem eru óhræddir að bjóða upp á lausn á þessum vanda hafa náð miklum árangri á undanförnum árum en þeir sem á fleti eru fyrir og halda sig við stefnuna um opin landamæri, misopin þó, fá að finna fyrir óánægju kjósenda.
Þetta hefur meðal annars sést á Norðurlöndum, þeim löndum sem við horfum gjarnan til um lagasetningu og samstarf. Í Danmörku brugðust hefðbundnu flokkarnir við vandanum, ekki síst Sósíaldemókratar, sem nutu þess í kosningunum fyrir tveimur árum. Í Svíþjóð hafa viðbrögðin verið minni og vandinn í útlendingamálum meiri og þar óx þeim flokki mjög ásmegin sem talaði með eindregnustum hætti í þessum málaflokki.
Í Bandaríkjunum er gjörólíkt flokkamynstur en þar er einnig greinilegt í kosningunum sem fram undan eru að landamærin munu hafa verulega þýðingu og ráða mögulega úrslitum. Nýr frambjóðandi Demókrataflokksins, Kamala Harris, hafði til þessa lítið sést við landamærin á kjörtímabilinu þó að henni hefði verið falið að sinna þeim málaflokki sérstaklega. Nú vill hún reyndar ekki kannast við að hafa haft með þessi mál að gera, sem er skiljanlegt því að samanburðurinn á þessu kjörtímabili Bidens og Harris og kjörtímabili mótframbjóðandans og fyrrverandi forsetans Trumps er Harris afar óhagstæður.
Straumur flóttamanna, ef hægt er að tala um flóttamenn í því sambandi, norður yfir suðurlandamæri Bandaríkjanna hefur á þessu kjörtímabili verið slíkur að talið er að yfir tíu milljónir hafi komið inn í Bandaríkin á þennan hátt. Upplýsingar um þetta eru þó ónákvæmar þar sem stjórn landamæranna hefur farið algerlega úr böndum. Til samanburðar fóru rúmar þrjár milljónir þessa leið á kjörtímabili Trumps.
Skýringin á þessum stríða straumi í tíð Bidens og Harris er einkum að eftir síðustu forsetakosningar voru snarlega afnumdar reglur sem Trump hafði sett um að umsækjendur um vernd skyldu halda sig í Mexíkó og að hægt væri að vísa fólki úr landi áður en það sækti um vernd.
Aðgerðir af þessu tagi, sem snúast um að nýta landamærin til að verja landið gegn slíkum ágangi, eru lykilatriði í að ná árangri í málaflokknum. Þessu hafa stjórnvöld í Þýskalandi að nokkru leyti áttað sig á eftir fyrrnefndar fylkiskosningar og hafa í raun tekið Schengen-landamærasamstarfið úr sambandi tímabundið, en ganga þó ekki nægilega langt að mati Kristilega demókrataflokksins, sem undir nýrri forystu hefur snúið algerlega við blaðinu frá mistökum Merkel.
Ísland hefur síður en svo farið varhluta af vandanum sem tengist útlendingamálum. Straumurinn hingað hefur verið meiri en víðast hvar, kostnaðurinn hefur farið langt úr öllu hófi og álagið á velferðarkerfi, skóla og annað sem hér hefur verið byggt upp til að tryggja lífskjör landsmanna er orðið óbærilegt.
Núverandi stjórnvöld hafa tekið skref til að vinna bug á vandanum og hafa náð nokkrum árangri með nýjustu breytingum. Þó er langt í land að tekist hafi að koma málum í viðunandi horf, til að mynda með lokuðum búsetuúrræðum og mun hraðari afgreiðslu þeirra sem hingað koma. Bæði forsætisráðherra og dómsmálaráðherra hafa boðað frekari aðgerðir í þessum efnum og dómsmálaráðherra meðal annars boðað frumvörp þess efnis nú á haustþingi. Þá bregður svo við að verðandi formaður eins stjórnarflokksins, Vinstri grænna, segir nóg að gert. Flokkurinn styðji ekki frekari breytingar í þessum efnum.
Þetta er stefnubreyting frá því sem núverandi formaður hefur gefið til kynna, enda hefur legið fyrir að minnsta kosti frá því að breyting varð á ríkisstjórninni að frekari aðgerða væri þörf.
Ný forysta Vinstri grænna kann að telja að flokknum henti að reyna að lappa upp á fylgið með ábyrgðarlausri afstöðu í landamæra- og útlendingamálum. Slíkt muni höfða til nægilega margra til að flokkurinn haldi í þingmenn sína. Í ljósi þróunarinnar erlendis, og viðhorfs vaxandi fjölda Íslendinga, hljóta aðrir flokkar, innan stjórnar sem utan, einnig að huga að því hvernig almenningur bregst við ef þeir sem nú sitja á þingi bregðast í þessu mikilvæga verkefni. Það er ekki víst að þingmönnum, eða flokkum sem eiga menn á þingi, verði tekið fagnandi í næstu kosningum, hvenær sem þær fara fram, hafi þeir látið undir höfuð leggjast að taka á þessu brýna máli.