Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Fyrir dyrum standa endurbætur á Þingvallavegi um Mosfellsdal. Íbúar í dalnum hafa margoft kvartað yfir hraðakstri á þessum kafla og krafist úrbóta. Þarna hafa orðið alvarleg slys og sumarið 2018 varð banaslys á kaflanum. Íbúar í dalnum eru vel á þriðja hundrað.
Vegagerðin, Mosfellsbær og Hitaveita Mosfellsbæjar hafa boðið út for- og verkhönnun á breytingum á Þingvallavegi um Mosfellsdal. Kaflinn er um tveir kílómetrar að lengd og nær frá Norðurreykjaá við Hlaðgerðarkotsveg að Gljúfrasteini.
Innifalið í verkinu er vega- og gatnahönnun, vegamótahönnun, hönnun undirganga, stíga, vatnsveitulagnar, hitaveitulagnar og afvötnun. Afvötnun á vegagerðarmáli er hugtak sem nær utan um það hvernig vatn fer af vegi, annaðhvort með þverhalla á veginum og/eða ræsum.
Val bjóðanda fer fram á grundvelli hæfismats og á grundvelli matsþátta og verðs. Ber bjóðanda að leggja fram tilboð sitt í tveimur hlutum, þ.e. upplýsingar um hæfni bjóðanda og verðtilboð. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en maí 2025.
Morgunblaðið fékk þær upplýsingar hjá Vegagerðinni að framkvæmdirnar feli í sér að gera tvö hringtorg sem eru ekki til staðar í dag. Ekki verði átt við Þingvallaveg nema í kringum nýju vegamótin.
Áfram 1+1-vegur
Vegurinn verður áfram einbreiður (eða 1+1) líkt og hann er í dag. Á framkvæmdatíma verða því gerðar hjáleiðir í tengslum við gatnamótin en ekki er verið að eiga við eða breyta Þingvallavegi nema við þau.
Tilkoma hringtorga muni draga úr umferðarhraða á veginum sem er gert til að koma til móts við kvartanir frá íbúum í Dalnum.
Árið 2018 stóðu Mosfellsbær og Vegagerðin að gerð deiliskipulags fyrir Þingvallaveg í Mosfellsdal og næsta umhverfi hans.
Hraðakstur hafi verið mikið vandamál á þessum vegarkafla og með þeim framkvæmdum sem stefnt er að eigi að draga úr hraðakstri.
Fram kom í greinargerð með deiliskipulagstillögunni á sínum tíma að hraðamælingar frá árinu 2009 gefi til kynna að 77% ökumanna aki yfir leyfilegum hámarkshraða, sem er 70 km/klst. Meðalhraði mældist 78 km/klst.
Kaflinn sem deiliskipulagið nær til er 3,8 kílómetra langur og þar eru 17 vegtengingar. Malbikaður stígur fyrir hjólandi og gangandi er sunnan megin við veginn.
Hið nýja deiliskipulag gerði ráð fyrir byggingu tveggja hringtorga á Þingvallaveginum, annars vegar við gatnamót Helgadalsvegar, tenging við Laxnes, og hins vegar við Æsustaðaveg og Mosfellsveg.