Sigurdís Björk Baldursdóttir, Dísa, fæddist á Torfastöðum í Fljótshlíð 13. maí 1948. Hún lést 8. september 2024.

Móðir hennar var Anna Sigríður Sigurjónsdóttir frá Oddakoti í Austur-Landeyjum. Faðir hennar var Baldur Árnason frá Ölvisholtshjáleigu í Holtum.

Dísa var næstelst fimm eftirlifandi systkina. Þau eru Ólafur Birgir, f. 14. mars 1947, Árni, f. 7. mars 1950, Marsibil, f. 31. ág. 1952, og Jóhann, f. 27. sept. 1954.

Dísa ólst upp á Torfastöðum og lauk barnaskólaprófi og fór að vinna við þjónustu- og umönnunarstörf.

Dísa kynntist Örlygi Antonssyni, f. 19. maí 1947 í Reykjavík. Þau eignuðust Baldur, f. 2. janúar 1966. Baldur er kvæntur Guðbjörgu Haraldsdóttur. Börn eru Rúnar Máni, Arnór og Hrafnkell. Þau eiga fjögur barnabörn. Dísa og Örlygur skildu áður en Baldur fæddist. Dísa bjó í foreldrahúsum með Baldur, þar sem hann ólst svo upp.

Dísa hóf búskap með Jóni Sigurjónssyni frá Galtalæk í Landsveit, f. 14. mars 1946, og var heimili þeirra að Vestri-Torfastöðum í Fljótshlíð. Börn þeirra eru: 1) Ólína, f. 29. feb. 1968. Maki Valdimar Óskarsson. Börn eru Sædís Hrafn, Kristbjörn Askur, Sonja Dröfn, Bjartur Hrafn, Telekía, Friðbjörn Þór, Sólveig og Albert Óskar. Þau eiga fjögur barnabörn. 2) Margrét Sigríður, f. 22. nóv. 1970. Maki Svavar Þór Lárusson. Börn eru Sindri Már, Gunnlaugur Friðberg, Hekla Margrét, Jóhann Þór, Ester Ósk, Ari Trausti og Ísak Örn. Þau eiga tvö barnabörn. 3) Sigurjón, f. 17. jan. 1976. Maki Soffía Ásgeirs Óskarsdóttir. Börn eru Kristín Alma, Vilborg, Sigríður Soffía, Ingibjörg, Eyjólfur og Tristan Þór. Þau eiga þrjú barnabörn. 4) Kristín Gunnarsdóttir, f. 7. des. 1976. Maki Bjarki Már Jónsson. Börn eru Silja Embla, Birgir Þór, Jóhanna Björg og Kristján Valur. Þau eiga fimm barnabörn.

Dísa og Jón bjuggu á Torfastöðum frá 1966 til 1984. Þau skildu. Á þeim tíma annaðist Dísa barnauppeldi og heimilisstörf í nánu samneyti við foreldra sína og yngri systkin. Dísa vann á haustin í Sláturhúsinu að Djúpadal í Hvolhreppi.

Dísa fluttist að Lynghaga í Hvolhreppi 1984 og hóf búskap með Gunnari Fr. Sigurþórssyni frá Þórunúpi í Hvolhreppi, f. 21. ág. 1936, d. 25. ág. 2024. Með Dísu fluttu Ólína, Margrét, Sigurjón og Kristín.

Dísa og Gunnar bjuggu í Lynghaga frá 1984 til 1992, þar til þau fluttust með Kristínu eina að Miðkrika 1 í Hvolhreppi, þar sem þau bjuggu til dauðadags. Kristín varð kjördóttir Gunnars.

Dísa starfaði í kjötvinnslu SS á Hvolsvelli frá 1992 til 2010. Vann við ræstingar í Hvolsskóla til ársins 2015 og settist þá í helgan stein.

Dísa naut hannyrða, sköpunar og lista og sótti í félagsskap tengdan hannyrðum. Dísa var víðlesin, safnaði bókum, var stálminnug og átti auðvelt með að rifja upp samtöl, atburði og atriði úr bókum og liðnum viðburðum orðrétt.

Dísa og Gunnar voru samrýnd hjón, gættu hvort annars og nutu þess að ferðast saman um Ísland. Þegar alzheimers-sjúkdómurinn sótti á Gunnar varð það mikið áfall fyrir Sigurdísi og lifði hún mann sinn í tvær vikur.

Jarðarför Dísu fer fram frá Breiðabólstaðarkirkju í dag, 30. september 2024.

Eftir orðastað við yfirboðarann, sem gengið hafði á braut með pottlok á hausnum eftir að hafa náð árangri sínum, runnu dropar á laufin sem spruttu úr blómapottum í gluggakistunni í stofunni í litla bænum með gulu veggjunum, græna þakinu og krakkamergðinni í Vesturbænum á Torfastöðum í Fljótshlíð.

Droparnir féllu ekki einungis úr könnunni sem hún nýtti bæði til þessa verks og að hella upp á kaffi, og þá með grisjupoka saumaðan af henni sjálfri, heldur líka niður kinnar hennar. Milli fingra hægri handar liðaðist reykur sem átti uppruna úr kameldýrapakka. Einu sinni hafði innihald úr slíkum pakka verið rannsakað án niðurstöðu og mulið niður til að finna út í hverju gæðin væru fólgin, með tilheyrandi óvinsældum.

Þegar hún hafði skynjað smávaxna áhorfendur og afkomendur, klædda í vélprjónaðar peysur saumaðar úr afklippum, þerrað vanga sinn með höndinni með armbandsúri sem ávallt var með skífuna púlsmegin á úlnliðnum, beindi hún athyglinni að sjálfri sér og sagði stundarhátt: „Hvað skyldu ljósálfarnir núna vera að gera, sjáið þið þá í kalanum eða vínviðnum?“

Mamma ól okkur við barnatrú sem deildist jafnt á trúariðkun í kirkjunum tveimur í Fljótshlíðinni og á ljósálfa og huldufólk. Huldir vættir þjóðsagna og fortíðar voru armslengd í burtu.

Síðar, þá höfum við krakkarnir úr Vesturbænum áttað okkur á því að hvað sem á dynur er hægt að leita frelsis úr hvaða erfiðleikum sem er með því einu að horfa á fegurð skapaða af náttúrunnar hendi eða fegurð í handverki, frásögn eða kveðskap.

Þetta frávarp, frá eigin erfiðleikum og í fegurð hlutanna, dugði mömmu þó einungis að ákveðnu marki. Því ávallt bar hún brynju áfalla og sárinda líkt og varnarskjöld sem verndaði hjarta hennar og innstu persónu. Þessi brynja gerði það að verkum að hún svaraði í vörn áður en spurningar voru bornar upp og hafnaði tilboðum áður en þau voru borin á borð. Þessi varnarskjöldur gerði að verkum að erfitt var að komast að vonum hjartans, sem þráði að tölta formlegan menntaveg en endaði síðasta slagið sjálfmenntað og víðlesið.

Mamma vildi okkur og öðrum sannarlega vel, þótti gaman að gleðja og kenndi okkur að leggja öðrum lið án þess að innheimta hrós fyrir greiðvikni. Það myndi koma síðar, eða ekki.

Við Dísubörn áttum óhefðbundið samband við móðir okkar og fórum hvert og eitt þá leið að sækja okkur fleiri en eina fyrirmynd á uppvaxtarárum. Á þeirri vegferð lærðum við á lengri tíma að meta og skynja hvernig lífið hafði farið með mömmu og hvernig hennar styrkur og úthald gerði að verkum að hún bjó sér fallegt heimili síðustu fjóra áratugi ævi sinnar, þar sem hún safnaði í minningabanka og sankaði að sér handverki sem hún mat að verðleikum. Mamma kenndi okkur að gera mikið úr mögru.

Við fráfall mömmu höfum við systkinin og makar þétt raðirnar og rætt meira saman en mörg undanfarin ár. Megi svo vera um ókomna tíð!

Hvíl í friði elsku mamma.

Álfadísa áfram leiðir,

ákall betri stunda.

Friður Drottins faðminn breiðir,

fegurð ættar funda.

(Sigurjón Jónsson)

Sigurjón Jónsson.