Tónlistin Mozart litli með föður og systur.
Tónlistin Mozart litli með föður og systur. — Mynd/Wikipedia
Mozart: Rise of a Genius er heimildarþáttur sem BBC 2 sýnir á mánudagskvöldum. Þar er ævi Mozarts rakin. Allt er óskaplega vel gert þannig að áhorfið er unaður. Litli drengurinn sem lék undrabarnið Mozart í fyrsta þætti var til dæmis svo mikið krútt að mann langaði til að ættleiða hann

Kolbrún Bergþórsdóttir

Mozart: Rise of a Genius er heimildarþáttur sem BBC 2 sýnir á mánudagskvöldum. Þar er ævi Mozarts rakin. Allt er óskaplega vel gert þannig að áhorfið er unaður. Litli drengurinn sem lék undrabarnið Mozart í fyrsta þætti var til dæmis svo mikið krútt að mann langaði til að ættleiða hann.

Auk leikinna atriða og tónlistaratriða eru í þáttunum innslög þar sem þekktir einstaklingar tala um Mozart og áhrif hans á sig. Þar á meðal er snillingurinn Stephen Fry og hinn tilfinngaríki leikari Richard E. Grant.

Reglulega er áhorfandanum sagt að Mozart hafi verið gallagripur. Hvað með það? hugsar maður. Ekki ætlast maður til að fólk sé fullkomið, svo er heldur ekkert gaman að slíkum einstaklingum.

Hápunktur þáttanna fram að þessu var þegar brot úr öðrum þætti í píanókonsert nr. 21 eftir Mozart var leikið og um leið var fókuserað á andlit og svipbrigði álitsgjafanna. Allir urðu þeir svo lotningarfullir að engu var líkara en þeim hefði borist boðskapur frá himnum.

Í þáttunum er lesið úr bréfum föður Mozarts til sonar síns. Kuldinn í þeim er nístandi og sumt beinlínis andstyggilegt í garð sonar sem gaf mannkyninu svo mikið.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir