Hólmfríður María Ragnhildardóttir
hmr@mbl.is
Nú þegar tæpir tíu mánuðir eru liðnir frá því að niðurstöður PISA-könnunarinnar árið 2022 vörpuðu enn meira ljósi á alvarlega stöðu íslenska menntakerfisins ætla stjórnvöld loks að láta verða af því að kynna viðbrögð sín. Felast þau í drögum að svokallaðri 2. aðgerðaáætlun fyrir árin 2024 til 2027, sem er hluti af innleiðingu menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030.
Drögin verða kynnt í dag á ráðstefnu sem mennta- og barnamálaráðuneytið hefur boðað til, sem nefnist menntaþing og er haldið á Hilton Reykjavík Nordica. Fullyrt er í tilkynningu að þar verði meðal annars brugðist við niðurstöðum PISA-könnunarinnar.
Þar segir einnig að markmiðið með aðgerðaáætluninni sé að mæta sérstaklega áskorunum sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir og sjást m.a. í niðurstöðum PISA-könnunarinnar árið 2022. Þar lækkaði Ísland mest allra OECD-ríkja og sýndu niðurstöðurnar meðal annars að 40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi.
Næstneðst Evrópuríkjanna
Ef horft er á heildarniðurstöður könnunarinnar sést að Ísland er í sjötta neðsta sæti allra OECD-ríkjanna og næstneðst Evrópuríkja.
Í tilkynningu stjórnvalda um menntaþingið er enn fremur fullyrt að íslensk stjórnvöld hafi ráðist í viðamiklar breytingar á menntakerfinu á undanförnum árum.
„Þær snúa m.a. að auknum stuðningi við kennara og skóla, aukinni skólaþróun, endurskoðun útgáfu námsgagna, bættri yfirsýn og tölfræði yfir nemendur og móttöku barna af erlendum uppruna með nýja stofnun á sviði menntamála, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, í broddi fylkingar,“ segir þar.
Verkefnið er þó sagt viðamikið og flókið og því sé hvergi nærri lokið. Því sé afar mikilvægt að „bregðast af krafti við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir.“
Frestuðu og létu ekki vita
Í tilkynningu ráðuneytisins 18. júní var fullyrt að ráðuneytið ynni að aðgerðaáætlun til að bregðast við niðurstöðum PISA í samstarfi við breiðan hóp hagsmunaaðila.
„Aðgerðaáætlunin verður kynnt til samráðs á föstudag [21. júní] og aðgerðunum hrint í framkvæmd í innleiðingu 2. áfanga menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 sem kynntur verður í haust,“ kom fram í sömu tilkynningu. Sá föstudagur kom og fór án þess að nokkuð heyrðist frá ráðuneytinu.
Í svari við fyrirspurn mbl.is í júlí kom loks fram að ráðuneytið hefði frestað kynningunni fram á haust. Nú í dag verða drög að þeirri aðgerðaáætlun kynnt, eins og áður sagði.