Einar Freyr Elínarson
Öryggistilfinning er grundvallarþörf einstaklinga, fjölskyldna og samfélaga. Víða um land hafa íbúar þurft að sætta sig við sífelldar skerðingar á þjónustu, sem hefur mikil áhrif á öryggistilfinningu fólks. Þetta má að einhverju leyti rekja til mikillar miðstýringar ríkis á þjónustunni. Í þessari grein mun ég fjalla um ákveðna þætti sem ég tel að skipti sérstaklega miklu máli í þessu samhengi. Það er nefnilega ekki meitlað í stein að íbúar þurfi að búa við lágt þjónustustig og að þeir upplifi sig óörugga – það er pólitískt viðfangsefni og við höfum val um að gera breytingar og ættum að forgangsraða í þessa veru.
Sveitarfélög hafa þegar sýnt að þau geta sinnt stórum verkefnum, eins og rekstri skóla, þjónustu við fatlað fólk og rekstri slökkviliða. Auðvitað má endalaust ræða um fjármögnun verkefnanna og hvernig hún hefur gengið en sú umræða ætti ekki að útiloka frekari umræðu um verkaskiptingu. Í ljósi mikillar fólksfjölgunar víða á landsbyggðinni og aukinna umsvifa í atvinnurekstri er eðlilegt að ræða frekari flutning á verkefnum, til að bæta þjónustuna nær fólki. Hér eru dæmi um svið þar sem sveitarfélögin gætu leikið stærra hlutverk:
Slökkvilið – sveitarfélögin hafa reynsluna
Einhverjum hrýs e.t.v. hugur við því að færa frekari verkefni til sveitarfélaga. Þó að því fylgi vissulega áskoranir eins og bent verður á er eðlilegt að skoða hvernig sveitarfélögum hefur gengið með annars konar öryggisstarfsemi, s.s. rekstur slökkviliða.
Þótt rekstur slökkviliða hafi sjálfsagt gengið misvel hefur þjónustan verið fyrir hendi. Það eru vafalaust tækifæri til að gera betur, en fyrirkomulagið hefur í það minnsta tryggt að slökkvilið séu til staðar. Með því að sveitarfélögin reki slökkvilið hafa þau betri skilning á staðbundnum aðstæðum og geta brugðist hraðar við en stærri miðlæg stjórnsýsla gæti gert.
Þrátt fyrir áskoranir er ólíklegt að margir telji að ríkið gæti rekið slökkvilið betur en sveitarfélögin.
Löggæsla – nálægð eykur öryggi
Það að þurfa að bíða eftir lögreglu er óviðunandi þegar neyðin kallar. Með því að færa hluta af löggæslu til sveitarfélaga mætti bæta viðbragðstíma og veita persónulegri þjónustu. Sveitarfélögin gætu rekið staðbundna lögreglu til að sinna minniháttar verkefnum eins og umferðareftirliti og minniháttar lögbrotum. Nálæg löggæsla getur aukið öryggistilfinningu og traust íbúa til kerfisins.
Að sjálfsögðu eru áskoranir, sérstaklega þegar kemur að fjármögnun og þjálfun. Sveitarfélög þurfa nægjanlegt fjármagn til að byggja upp og reka löggæslu sem stenst kröfur og tryggja þarf að samstarf við ríkislögregluna sé gott og verkaskiptingin skýr. Samt sem áður sýna dæmi frá öðrum löndum að staðbundin löggæsla getur aukið öryggi, sérstaklega þegar lögreglan er hluti af samfélaginu sem hún þjónar.
En aukinn sýnileiki lögreglu er ekki bara lykilatriði í neyðartilvikum. Hann getur einnig haft mikið að segja í forvarnastarfi. Með því að lögreglan sé sýnileg í samfélaginu, t.d. í auknu samstarfi við skóla, verður auðveldara að vinna að forvörnum gegn neyslu, einelti og öðrum samfélagslegum vandamálum. Slíkt samstarf gæti haft mikil áhrif á hegðun ungmenna og skapað traust milli lögreglu og íbúanna.
Verkefnaflutningur á þessu sviði gæti því verið raunhæf leið til að bæta þjónustu og auka öryggi víða um land.
Heilsugæsla – betri aðlögun að þörfum íbúa
Heilsugæsla er mikilvæg grunnþjónusta sem allir íbúar eiga rétt á að njóta, óháð búsetu. Víða er hins vegar algengt að aðgengi að heilsugæslu sé takmarkað og þjónustan nái ekki að fullnægja þörfum íbúa.
Með því að flytja aukna ábyrgð á heilsugæslu til sveitarfélaga gætu íbúar notið þjónustu sem er nánar tengd samfélaginu. Sveitarfélögin þekkja best þarfir íbúa sinna og eru í betri aðstöðu til að mæta þeim á persónulegan og skilvirkan hátt. Til dæmis gætu sveitarfélög haft heimild til að skipuleggja heilsugæslu á staðnum, ráðast í sértækar ráðningar á heilbrigðisstarfsfólki og stýra úrræðum fyrir mismunandi hópa íbúa.
Áskoranirnar við þetta fyrirkomulag eru að sjálfsögðu til staðar. Þær snúa einkum að fjármögnun og aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki. Það þarf að tryggja að sveitarfélög fái nægilegt fjármagn til að reka heilsugæslustöðvar með hæfu starfsfólki. Samvinnan við ríkið þarf einnig að vera öflug, þar sem sveitarfélögin þurfa stuðning ríkisins til að laða að fagfólk í greininni, sem hefur hingað til verið ein helsta áskorunin.
Þrátt fyrir áskoranir hefur reynslan sýnt að sveitarfélög ráða vel við ábyrgðarhlutverk. Eins og hefur t.a.m. verið raunin með skólamál og félagsþjónustu gætu sveitarfélögin sinnt heilsugæslu á staðbundnari hátt og bætt þjónustuna með því að laga hana betur að þörfum íbúa.
Sveitarfélögin geta gert betur
Reynslan sýnir að sveitarfélög eru vel í stakk búin til að taka að sér fleiri verkefni, þar sem þau eru nær íbúunum og geta lagað þjónustu að þörfum þeirra. Með aukinni ábyrgð á löggæslu og heilsugæslu mætti bæta grunnþjónustu og tryggja öryggistilfinningu – lykilþátt í að skapa öflug og samheldin samfélög.
Höfundur er sveitarstjóri Mýrdalshrepps.