Gleði Jökull Andrésson markvörður og Aron Elí Sævarsson fyrirliði fremstir í flokki í fögnuði Aftureldingar.
Gleði Jökull Andrésson markvörður og Aron Elí Sævarsson fyrirliði fremstir í flokki í fögnuði Aftureldingar. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
Afturelding leikur í efstu deild karla í fótbolta árið 2025, í fyrsta skipti í sögu félagsins, eftir sigur á Keflavík, 1:0, í úrslitaleik umspils 1. deildarinnar á Laugardalsvellinum að viðstöddum 2.500 áhorfendum á laugardaginn

Fótboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Afturelding leikur í efstu deild karla í fótbolta árið 2025, í fyrsta skipti í sögu félagsins, eftir sigur á Keflavík, 1:0, í úrslitaleik umspils 1. deildarinnar á Laugardalsvellinum að viðstöddum 2.500 áhorfendum á laugardaginn.

Sigurpáll Melberg Pálsson skoraði sigurmarkið á 78. mínútu og Mosfellingar sneru blaðinu við frá því fyrra þegar þeir töpuðu fyrir Vestra í sama úrslitaleik á sama stað.

Afturelding hefur leikið á Íslandsmótinu samfleytt frá 1973 og var síðast í fjórðu og neðstu deild árið 1999. Liðið lék í fyrsta skipti í 1. deild árið 2002 og komst þangað á ný eftir nokkurt hlé árið 2019. Besta árangrinum náði liðið í fyrra þegar það endaði í öðru sæti deildarinnar og fékk þá sjö stigum meira en í ár þegar það hafnaði í fjórða sæti.

Að þessu sinni var hins vegar mun meiri stígandi í leik liðsins þegar leið á tímabilið, en í fyrra þegar það var efst í deildinni lengst af og dalaði á lokasprettinum.

Magnús Már Einarsson, 35 ára gamall Mosfellingur, lauk á laugardag sínu fimmta tímabili sem þjálfari liðsins en það hefur tekið stöðugum framförum undir hans stjórn frá árinu 2020.

Þrátt fyrir að Magnús hafi stýrt liðinu í fimm ár er útlit fyrir að hann verði yngsti þjálfari Bestu deildarinnar á næsta tímabili.

Margir leikmenn sem eru uppaldir hjá Aftureldingu leika með öðrum félögum í Bestu deildinni og fróðlegt verður að sjá hvort einhverjir þeirra snúa aftur á heimaslóðirnar fyrir næsta keppnistímabil.

Höf.: Víðir Sigurðsson