Gústaf Adolf Jakobsson fæddist í Vogum á Vatnsleysuströnd 5. júní 1932. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 12. september 2024.

Foreldrar hans voru Jakob Adolf Sigurðsson, f. 29.8. 1901, d. 20.9. 1969, og Margrét Kristjánsdóttir, f. 12.3. 1899, d. 15.10. 1968.

Gústaf átti sex systkin og var hann sá fimmti röðinni. Systkini hans voru:

Sigríður Vilborg, f. 1923, d. 2012, María, f. 1927, d. 1996, Kristín, f. 1927, d. 2001, Birna Vilborg, f. 1929, d. 2017, Margrét, f. 1940, d. 2022, og Björn Hafstein, f. 1946, d. 2019.

Eigikona Gústafs er Guðrún Ragnarsdóttir. Þau giftust 26. júní 1954.

Börn þeirra eru Margrét, f. 1954, Elín Hrönn, f. 1957, og Snorri, f. 1963.

Hjónin eiga sjö barnabörn og 11 barnabarnabörn.

Gústaf fæddist í Sólheimum á Vatnsleysuströnd og ólst þar upp fyrstu 14 árin. Flutti svo ásamt foreldrum sínum á Akranes og vann þar við fiskvinnslu og sjómennsku, síldveiðar og hvalveiðar. Þar kynntist hann eiginkonu sinni og fyrsta barn þeirra hjóna fæddist á Akranesi. 1955 futtust þau í Voga á Vatnsleysuströnd og síðar í Keflavík og starfaði hann þar sem viðgerðamaður hjá verktökum. Árið 1966 hóf hann störf hjá Sementsverksmiðju ríkisins sem bílstjóri og vann þar út starfsævina. Frá 1967 bjuggu þau hjónin í Reykjavík.

Útför hans fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 30. september 2024, klukkan 13.

Þá er komið að kveðjustund. Gústi tengdapabbi lést 92 ára að aldri eftir rúm sex ár á Skógarbæ, Hrafnistu, hjá því yndislega starfsfólki sem annaðist hann þar.

Ég kom í ætt Gústa og Rúnu þegar ég fór að slá mér upp með Margréti. Ég var sjómaður á þessum tíma og var það ekki verra því Gústi var á hvalbátunum þegar hann var ungur. Gústi vann hjá Sementsverksmiðjunni við að aka með sement í allar virkjanir og voru vinnudagarnir oftast mjög langir.

Áhugamál Gústa voru hestar og átti hann hesthús upp í fjárborg, hann átti líka kindur. Ekki má gleyma sumarbústaðnum Sólheimum þar sem Gústi og Rúna undu sér vel og var gott að koma í sveitina og voru barnabörnin ávallt velkomin að vera hjá þeim.

Vil ég þakka Gústa fyrir velvild í minn garð í þessi 45 ár.

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Logi Björgvinsson

Nú er komið að kveðjustund, elsku Gústi afi. Viljum við systkinin þakka þér fyrir allar þær samverustundir sem við áttum og minningarnar sem við höfum búið til með þér og ömmu. Við minnumst tímanna sem við vorum saman uppi í hesthúsi í Fjárborgum þar sem þú og Björgvin afi okkar voruð með hesta, reiðtúranna þar og fyrir austan. Góðu stundanna á heimili ykkar í Hléskógum sem var alltaf opið og gott að koma. Sveitasælunnar í Sólheimum sem þið amma byggðuð upp og var ykkar sælureitur. Þegar þú og amma leyfðuð okkur systkinum og mökum að elta ræktunardrauma okkar og fengum við að búa til kartöflugarð. Ykkur fannst bara gaman að fylgjast með okkur í þessu brasi. Kom nú ekki mikil uppskera þetta eina sumar sem við vorum kartöflubændur. Langömmubörnin fengu að eyða miklum tíma með ykkur í Sólheimum og erum við ávallt þakklát fyrir hvað þið amma voruð tilbúin að fá þau alltaf til ykkar í vikudvöl á sumrin. Minnast þau í spjalli við okkur þegar þau fóru upp í gám með afa langa að sækja verkfæri eða kartöflur. Þegar þau fengu að tína egg með ömmu löngu á morgnana og kíkja svo upp í gróðurhús að ná sér í jarðarber.

Hvíl í friði elsku besti afi okkar, minning þín er ljós í lífi okkar.

Þótt döpur sé nú sálin,

þótt mörg hér renni tárin,

mikla hlýju enn ég finn

þú verður alltaf afi minn.

(Höf. ók.)

Guðrún Hrönn Logadóttir og Guðni Rúnar Logason.

Fallinn er frá kær mágur okkar, Gústaf Adolf Jakobsson.

Gústi kom snemma inn í líf okkar þegar Rúna systir og Gústi hófu sambúð á neðri hæðinni á Heiðarbraut 17 á Akranesi. Á efri hæðinni bjuggu foreldrar okkar og við fimm yngri systkin. Innangengt var milli hæða í húsinu svo að ósjaldan skutust börnin niður í heimsókn til unga parsins. Gústi fékk okkur öll þarna í kaupbæti, lífsglöð og ágætlega ærslafengin. Hann hafði orð á því seinna að við hefðum líka alltaf verið eins og litlu systkin hans. Enda var Gústi alla tíð mikil barnagæla. Börnin fundu vel hjartahlýju hans, sem hann sýndi með nærgætnu viðmóti og hugulsemi.

Gústi var Suðurnesjamaður. Hann fæddist í Sólheimum í Vogum, Vatnsleysuströnd þar sem hann óx úr grasi.

Gústi vann ungur maður hjá Hvalstöðinni en mestan hluta starfsævinnar vann hann við akstur. M.a. ók hann fyrir Hraðfrystihús Jóns Ben. í nokkur ár og vann um tíma við bifreiðaviðgerðir hjá bandaríska hernum á Miðnesheiði. Lengst af keyrði Gústi sementsflutningabíla hjá Sementsverksmiðjunni.

Það er auðvelt að rifja upp mannkosti Gústa. Hann á sannarlega skilið nafnbótina öðlingur. Hann var prúðmenni og tilbúinn að hjálpa til við bæði stórt og smátt. Hann hafði lunkinn húmor, hláturinn kankvís en aldrei hávær. Hann var trúr sínu starfi, vinnusamur og strangheiðarlegur. Gústi var snyrtimenni, afskaplega aðgætinn, allt skyldi vera löglegt og rétt að málum staðið. Hann var reglufastur og var umhugað um öryggi allra nálægt sér. Gæðastjórnun virtist honum í blóð borin, löngu áður en það hugtak varð til í íslensku.

Gústi átti sér ýmis hugðarefni. Hann spilaði á harmonikku. Stundum var glatt á hjalla þegar hann tók lagið með okkur en hann hafði einkar fallega söngrödd. Gústi átti lengst af nokkur hross og sömuleiðis kindur sem voru til húsa í Fjárborgum. Svo átti hann um skeið báta sem hann m.a. reri til fiskjar. Aflann gaf hann vinum og ættingjum.

Við systkinin eigum góðar ferðaminningar með Rúnu og Gústa, bæði innanlands og erlendis. Í hálendisferðum var gott að ferðast undir traustri og varkárri leiðsögn Gústa. Betri ferðafélaga var ekki hægt að hugsa sér en Rúnu og Gústa.

Rúna og Gústi voru einstaklega samhent hjón og heyrðust þau aldrei halla orði hvort gegn öðru. Bæði voru þau dugleg og ráðdeildarsöm og lögðu hart að sér til að eignast eigið húsnæði. Þau áttu heima allmörg ár í Keflavík en lengst af bjuggu þau í Seljahverfi þar sem þau byggðu sér reisulegt hús.

Heimili Rúnu og Gústa stóð okkur yngri systkinunum ætíð opið, til lengri og skemmri tíma. Börnin þeirra urðu þrjú: Magga, Ellý og Snorri. Við elskuðum að vera nálægt litlum frændsystkinum okkar og leika við þau enda heimsóttum við oft fjölskylduna bæði í Vogana og til Keflavíkur.

Elsku Rúna systir. Nú þegar þinn trausti Gústi hefur fengið hvíldina sendum við þér og allri stórfjölskyldunni okkar innilegustu samúð.

Hrafnhildur, Edda Björk, Jenna Kristín, Bjarni og Ingi Bogi.