Útsýnisstaður Ferðakonur frá Sviss á dögunum á útsýnispallinum sem komið hefur verið upp á vesturbakka Þjórsár við fossinn mikla.
Útsýnisstaður Ferðakonur frá Sviss á dögunum á útsýnispallinum sem komið hefur verið upp á vesturbakka Þjórsár við fossinn mikla. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Því ferðafólki sem kemur hingað að Urriðafossi fjölgar stöðugt. Hér er stöðug umferð alla daga,“ segir Haraldur Einarsson bóndi á Urriðafossi í Flóa. Fossinn er um tvo kílómetra fyrir neðan Þjórsárbrúna á hringveginum og leiðin þangað er skýrt merkt. Náttúruvætti þetta er neðst fossa í Þjórsá, en fallhæðin er þó ekki nema 6 metrar þar sem hæst er.

Umhverfisbætur, svo sem gerð göngustíga og útsýnispalls fyrir tveimur árum, hafa gert Urriðafoss í Flóa að vinsælum áfangastað ferðamannafólks. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur veitt tæplega 20 milljónir króna til úrbóta á þessum stað auk þess sem Flóahreppur hefur kostað nokkru til. Meðal annars hafa verið útbúin bílastæði nærri fossinum þaðan sem er örstutt að þeim palli þar sem vel sést yfir fossinn.

Segja má að frá og með gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 hafi ferðaþjónusta á Íslandi verið í stöðugum vexti. Fólki sem hingað kemur til þess að skoða landið, upplifa og njóta, hefur fjölgað nánast ár frá ári og álagið á mörgum vinsælum áfangastöðum er mikið. Stundum of mikið, er jafnvel sagt.

„Þingvellir, Gullfoss og Geysir eru því sem næst fullsetnir staðir. Eftir að slíkt gerðist fór umferðin hingað að Urriðafossi að vaxa; þetta hefur gerst á síðasta áratugnum eða svo,“ segir Haraldur sem á þessum slóðum hefur komið upp ferðaþjónustu með gistiaðstöðu.

Stórbrotið umhverfi

„Umhverfið á þessum stað er stórbrotið þar sem Urriðafoss fellur fram í gljúfri og við háa hamraveggi. Þarna er allt gróið og fallegt eins og nú sést. Á veturna er þarna líka stórbrotið umhverfi, þegar áin er í klakaböndum svo þarna verður mikil íshrönn,“ segir Hulda Kristjánsdóttir sveitarstjóri Flóahrepps.

Umhverfi Urriðafoss í Þjórsá er tilkomumikið. Sem kunnugt er áformar Landsvirkjun að reisa virkjun við fossinn, með fallgöngum austan ár. Virkjunin yrði 125 MW að afli en því fylgir að gert væri inntakslón með stíflu í Þjórsá nokkuð fyrir ofan foss.