— AFP/Kawnat Haju
Hassan Nasrallah, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Hisbollah, var felldur í loftárás Ísraels á föstudaginn. Dauði Nasrallahs er gríðarlegt áfall, ekki aðeins fyrir samtökin sem hann leiddi í 30 ár heldur einnig fyrir helsta bakhjarl hans, klerkastjórnina í Íran

Hassan Nasrallah, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Hisbollah, var felldur í loftárás Ísraels á föstudaginn.

Dauði Nasrallahs er gríðarlegt áfall, ekki aðeins fyrir samtökin sem hann leiddi í 30 ár heldur einnig fyrir helsta bakhjarl hans, klerkastjórnina í Íran.

Mohammad Reza Aref, varaforseti Írans, segir að drápið á Nasrallah muni leiða til „tortímingar“ Ísraels en Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að drápið hafi verið réttlætisaðgerð.

„Hassan Nasrallah og hryðjuverkasamtökin sem hann leiddi, Hisbollah, báru ábyrgð á því að hundruð Bandaríkjamanna létu lífið í fjögurra áratuga hryðjuverkavargöld. Dauði hans í loftárás Ísraela er réttlætisaðgerð fyrir fjölda fórnarlamba hans, þar á meðal þúsundir Bandaríkjamanna, Ísraela og líbanskra borgara,“ sagði Biden í yfirlýsingu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir ljóst hvað Nasrallah hefur ástundað en hún hefur verulegar áhyggjur af stigmögnun. „Ég hef gríðarlegar áhyggjur af stigmögnun og það er ekki úr lausu lofti gripið,“ segir Þórdís í samtali við Morgunblaðið.

Hún er stödd á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og segir að í óformlegum samtölum spyrji menn sig: „Með hvaða hætti mun Íran bregðast við?“