Rósa Björk Þorbjarnardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1931. Hún lést 13. september 2024.

Foreldrar Rósu voru Guðríður Þórólfsdóttir húsfreyja og Þorbjörn Guðlaugur Bjarnason pípulagningameistari.

Systur Rósu eru Sólrún, f. 18. maí 1928, d. 12. september 2006, og Ragnhildur Þ., f. 17. júlí 1935.

Eiginmaður Rósu var Árni Pálsson, f. 9. júní 1927, d. 16. september 2016, fv. sóknarprestur í Miklaholtsprestakalli á Snæfellsnesi, Kársnesprestakalli í Kópavogi og á Borg á Mýrum.

Börn Rósu og Árna eru: 1) Þorbjörn Hlynur, f. 10. mars 1954, guðfræðingur, fv. prófastur á Borg á Mýrum, kona hans er Anna Guðmundsdóttir kennari og bókasafnsfræðingur og eru synir þeirra Árni Páll, f. 1982, og Guðmundur Björn, f. 1986. 2) Þórólfur, f. 24. mars 1957, verkfræðingur, fv. forstjóri og fv. borgarstjóri í Reykjavík, kona hans er Margrét Baldursdóttir tölvunarfræðingur og fv. viðburðastjóri og eru börn þeirra Baldur, f. 1985, og Rósa Björk, f. 1988. 3) Anna Katrín, f. 2. mars 1963, spænskukennari, ráðgjafi hjá Advania í Reykjavík og er dóttir hennar Kristín Manúelsdóttir, f. 1989. Stjúpbörn hennar Valgeir Valsson, f. 1978, og Vala María Valsdóttir, f. 1989. 4) Árni Páll, f. 23. maí 1966, lögfræðingur, varaforseti Eftirlitsstofnunar EFTA, fv. alþingismaður og ráðherra og eru börn hans Bylgja, f. 1984, og Friðrik Björn, f. 1993, og stjúpsonur Eyjólfur Steinar Kristjánsson, f. 1990. Langömmubörn Rósu eru níu.

Rósa ólst upp í Reykjavík, í Vesturbænum, við Skólavörðuholtið, í Norðurmýrinni og í Hlíðunum.

Rósa var öll barnaskólaárin í Austurbæjarskólanum, fór síðan í Ingimarsskóla við Lindargötu, stundaði nám við MR og lauk stúdentsprófi þaðan 1950, lauk síðan kennaranámi og BA-prófum í ensku og dönsku við HÍ.

Rósa hóf kennslu við sérdeild gagnfræðastigs í Miðbæjarskólanum árið 1951 og kenndi þar í tíu ár. Auk þess sinnti hún stundakennslu víða.

Rósa og fjölskylda hennar fluttu 1961 í Söðulsholt í Eyjahreppi þar sem eiginmaður hennar var sóknarprestur í rúman áratug. Þar ráku þau farskóla fyrir sveitina, kenndu við Laugargerðisskóla eftir að hann var byggður og stunduðu allan tímann búskap í Söðulsholti með kindur, hesta, hænsni, hund og kött. Þau fluttu í Kópavog 1972 þar sem Árni var sóknarprestur í Kársnesprestakalli 1971-91. Á þeim árum kenndi Rósa við Æfingadeild Kennaraskólans og var síðan endurmenntunarstjóri KHÍ 1979-89. Þau fluttu síðan að Borg á Mýrum 1990 þar sem Árni var sóknarprestur til 1995 en þá sinnti Rósa háskólanámi í guðfræði og heimspeki við HÍ. Þau fluttu síðan aftur í Kópavoginn þar sem þau bjuggu allt þar til Árni lést. Síðustu sjö árin hélt Rósa Björk heimili á Snorrabrautinni í Reykjavík.

Rósa var formaður Kvenfélagasambands Snæfellsness, formaður Prestkvennafélags Íslands og sat sem fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norrænu ráðherranefndarinnar um skólamál.

Rósa samdi, ásamt öðrum kennsluefni, m.a. Málrækt sem enn er kennd í grunnskólum.

Útför Rósu fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 30. september 2024, klukkan 15.

Ó, undur lífs er á um skeið

að auðnast þeim sem dauðans beið

- að finna gróa gras við il

og gleði' í hjarta vera til.

Hve björt og óvænt skuggaskil.

Tengdamóðir mín, Rósa Björk Þorbjarnardóttir, hafði mikið dálæti á sálmi Þorsteins Valdimarssonar, Ó undur lífs, og fór gjarnan með hann á stórum stundum í lífi fjölskyldunnar. Í sálminum lýsir skáldið fegurð sköpunarverksins, undri lífsins, gleði sinni og þakklæti fyrir að fá að vera þar þátttakandi um stund. Slík afstaða til lífsins var í anda Rósu; hún var yfirleitt glöð og ævinlega þakklát skapara sínum og lausnara.

Á fallegu haustkvöldi fékk hún hægt andlát; líkaminn þrotinn að kröftum en hugurinn enn sístarfandi og frjór. Margar bækur á náttborðinu og þær ekki af léttara taginu.

Rósa gerði hvern dag að hátíð fyrir vini og samferðamenn; hún átti sannarlega „gleði í hjarta vera til“ – og sú gleði var bráðsmitandi! Rósa hlaut ríkulegar vöggugjafir; hún var góðum gáfum gædd, listfeng, líka svo falleg og hleypidómalaus. „Amma er örugglega víðsýnasta manneskja í heimi,“ sagði sonarsonur hennar, þá á unglingsaldri. Þessi orð segja mikið um Rósu og innihaldsrík samtölin við barnabörnin. Þegar þau völdu sér nám og starfsvettvang sýndi hún fjölbreyttum hæfileikum þeirra og viðfangsefnum einlægan áhuga, las allar ritgerðir af kostgæfni, spurði um það sem hún vildi skilja eða kynna sér betur, gaf góð ráð, uppörvaði og þakkaði fyrir allan fróðleikinn og skemmtunina!

Rósa lagði reyndar, í öllu sínu lífi og starfi, áherslu á að hrósa og uppörva, þakka það sem vel var gert og hvetja þá sem á vegi hennar urðu til góðra verka. Hún kom auga á kosti hverrar manneskju og stuðlaði að jákvæðu hugarfari með fordæmi sínu; neikvæðni, nöldur og niðurrif voru hreinlega ekki til í huga hennar.

Ég svara, Drottinn, þökk sé þér!

Af þínu ljósi skugginn er

vor veröld öll, vort verk, vor þrá

að vinna þér til lofs sem má

þá stund er fögur hverfur hjá.

Fögur stund er horfin hjá og orðin hluti af eilífðinni; eftir lifa dýrmætar minningar.

Ég kveð elskulega tengdamóður með djúpri virðingu og þakklæti. Blessuð sé minning Rósu Bjarkar.

Anna Guðmundsdóttir.

Eitt það besta sem lífið hefur boðið mér upp á er að hafa átt ömmu Rósu að. Hún var mér mikil fyrirmynd og ég er stolt af að fá að bera nafnið hennar.

Amma var kennari og það var ekki bara starf heldur má segja að það hafi verið hluti af persónuleika hennar. Hún kenndi mér allt frá því að smyrja kæfubrauðsneið til heimspekilegra vangaveltna um lífið. Kennslan kom náttúrulega og áreynslulaust, full af hlýju. Það dýrmætasta sem amma miðlaði til mín voru hennar góðu gildi og sýn á lífið sem einkenndust af gleði og þakklæti. Hún dvaldi ekki við það sem miður fór heldur gladdist yfir öllu því sem hún fékk að njóta. Það er sjaldgæfur eiginleiki að vera jafn leiftrandi gáfuð og amma var en laus við hroka og yfirlæti. Amma var nefnilega vel gefin og glæsileg svo af bar en hún tók samt sjálfa sig ekki of hátíðlega og var mikill húmoristi. Henni fannst til dæmis gaman að tileinka sér orðaforða unga fólksins og lék sér að því að koma okkur barnabörnunum á óvart með hispurslausum athugasemdum.

Amma Rósa hafði einstakt lag á að láta fólki líða vel, skildi mann svo vel og sagði réttu hlutina. Hún sá það góða í öllum og dæmdi ekki. Hún var dugleg að láta fólkið sitt vita hvað henni þætti vænt um okkur, bæði með orðum og gjörðum. Hjá henni áttum við alltaf athvarf og ég man eftir að hafa hugsað þegar ég fékk bílprófið 17 ára að eitt það besta við það væri að hafa frelsið til að geta alltaf skroppið á Kópavogsbrautina til ömmu Rósu og afa Árna, sem voru einstakt teymi og áttu fallegt samband.

Nú get ég ekki lengur kíkt til ömmu Rósu til að ræða öll heimsins stóru og litlu mál. En hennar hugarfar og sýn á lífið munu fylgja mér. Ég ætla að reyna að hugsa sem oftast „hvað hefði amma Rósa gert?“ og ef mér tekst að átta mig á því þá fer allt vel.

Rósa Björk Þórólfsdóttir.

Fyrir rúmum áratug stóð ungur maður á tímamótum, einn og einmana í útlöndum eftir erfið sambandsslit. Amma Rósa slær á þráðinn, spyr um heimsmálin og Kierkegaard eins og hún gerði gjarnan en minntist ekki orði á þessi undangengnu áföll. Hún greindi þó líklega að sonarsyni hennar liði ekki vel og hann væri ekki í góðu jafnvægi. Segir hún þá undir lok samtalsins – og nokkuð ákveðið – að stundum telji hún sig eiga rétt á einhverju og eiga eitthvað skilið. En hennar niðurstaða hafi þó ævinlega verið sú að í þessu lífi ætti hún ekkert sjálf – annað en sjálfa sig.

Þegar þarna var komið sögu hafði ég lengi drukkið úr viskubrunni ömmu minnar, en þessi tiltekna árétting hafði djúpstæð áhrif. Því þetta sagði kona sem sannarlega hafði átt gott líf: farsælt hjónaband, heilbrigða afkomendur og svo framvegis, en vissi um leið að engu láni bæri taka sem sjálfsögðum hlut. Og að sú blessun sem henni hefði hlotnast um dagana breytti því ekki að það væri undir henni einni komið hvernig hún mætti heiminum og hverju því sem hann tæki upp á.

Við eigum það til að gera þá kröfu til heimsins að hann taki mið af okkar eigin væntingum, og að veruleikinn sýni þá sjálfsögðu kurteisi að haga örlögunum samkvæmt okkar áætlunum. En þannig virkar þetta víst ekki og hlutirnir fara einmitt oft ekki eins og við vonumst eftir. Og þetta vissi amma. Mæta skyldi heldur hverjum degi sem þeirri gjöf sem hann er, og vera minnug þess að hver stund sem er umlukt reiði og áhyggjum kemur ekki aftur og er illa nýtt.

„Maður á ekkert skilið,“ sagði hún stundum í sama dúr, þegar við gengum um æskuslóðir hennar í Norðurmýrinni, en með bros á vor. Allt er þegið, allt er gjöf.

Skáldið í Davíðssálmi 90 kemst nálægt að fanga þá visku og það æðruleysi sem einkenndi tilvistarspeki ömmu Rósu þegar hann segir: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Kannski lærði hann þessi orð frá henni.

Amma hringdi aftur út til meginlandsins tveimur dögum áður en hún lést, en í þetta sinn sögðum við ekki mikið. Hún var búin að segja mér allt sem hún þurfti að segja. En ég fann fyrir nærveru hennar, og ég veit að hún mun fylgja mér svo lengi sem ég lifi.

Við áttum djúpstætt vitsmunalegt vináttusamband sem var grundvallað í miklum kærleika.

Guð blessi minningu ömmu minnar Rósu Bjarkar Þorbjarnardóttur og afa míns Árna Pálssonar.

Guðmundur Björn
Þorbjörnsson.

Nú er komið að kveðjustund einstakrar konu, hennar Rósu Bjarkar Þorbjarnardóttur sem var gift honum Árna móðurbróður mínum. Rósa var glæsileg kona sem bjó einnig yfir sérstökum eiginleikum. Hún var afburðagreind og gáfuð. Átti létt með að hjálpa öðrum og miðla gáfum sínum til annarra.

Árið 2010 fluttist ég í kjallarann til þeirra hjóna og varð það mín mesta gæfa. Ég bjó hjá þeim í sjö ár.

Ég kynntist þeim hjónum á nýjan hátt og skapaði dvöl mín þar algera endurnýjun á sál og líkama. Ég fór í Heilsumeistaraskólann til þess að bæta líkamann en skólinn minn með Rósu endurnýjaði algerlega sál mína og viðhorf til lífsins þannig að til baka fer ég ekki aftur og með algerlega nýja sýn.

Auk áhuga síns á lífinu smitaði Rósa svo sterkt frá sér hlýju að maður komst engan veginn undan því.

Ég er afskaplega þakklát fyrir allar hennar náðargjafir sem hún miðlaði til mín. Þegar ég var 15 ára kenndi hún mér öndunartækni og jógahugleiðslu sem ég hef ástundað síðan þá. Það varð dýrmætara fyrir mig en allt annað á þeim tíma.

Oft hefur mér orðið hugsað til þeirra hjóna varðandi samband þeirra á þeim tíma sem ég bjó þar. Þau sýndu hvort öðru svo mikla virðingu og væntumþykju sem var svo áþreifanleg. Þau höfðu breytt viðhorfum sínum hvort til annars á þennan stórkostlega hátt.

Rósa naut sérhvers dags. Hugsaði vel um næringu þeirra og borðaði hafragraut með alls kyns kornum og viðbótum sama hvaða dagur var; mánudagur eða aðfangadagur. Sérhver dagur var sérstakur og hún gerði þá flesta fallega með einhverjum uppákomum. Árni þakkaði henni gönguþjálfunina sína og var farinn að fara einn og sér í hana hálfsjónlaus frekar en að sleppa henni. Rósa fylgdist vel með öllu, var mikið fyrir menningu og listir og las mikið fyrir sinn ektamann.

Það er í raun og veru ómögulegt að gera Rósu skil á stuttan hátt en ég læt þetta nægja. Ég votta henni mína mestu virðingu og þakklæti.

Hjartans kveðjur,

Rakel Ólöf Bergsdóttir.

„Þakka þér fyrir komuna, mér þótti alltaf svo vænt um þig,“ kallaði hún á eftir mér þegar ég fór frá henni í síðasta sinn. Hún stóð í dyrunum og veifaði; hárið hennar dökka orðið hvítt og hún orðin eilítið lotin.

Og það var sannarlega gagnkvæmt, mér þótti ekki síður vænt um hana. Hún var bjargvætturinn minn þegar ég kom ung að árum, tiltölulega nýskriðin úr Kennaraskólanum að taka við kennslu í heimavistarskóla á Snæfellsnesi ásamt manni mínum. Á móti okkur tók þá þessi tígulega kona, með dökka hárið sitt og dökku augun. Það geislaði af henni suðræn fegurð og vinarþel. Hún hafði komið með manni sínum sr. Árna Pálssyni vestur er hann tók við prestsembætti og bjuggu þau í Söðulsholti. Hún kenndi við skólann, en áður hafði hún kennt börnunum í hreppnum heima í Söðulsholti. Rósa varð mér sem móðir, kennsluráðgjafi og ekki síst vinkona frá fyrstu stundu. Alltaf róleg, yfirveguð, málefnaleg og sanngjörn. Hún talaði við börnum á lágum nótum en af ákveðni sem engum datt í hug að rísa gegn. Þannig fyrirmynd var hún líka okkur ungu kennurunum við skólann sem hún uppörvaði og leiðbeindi á sinn hógværa glaðlega hátt.

Þrátt fyrir nær tuttugu ára aldursmun myndaðist góð og náin vinátta með okkur sem hélst alla tíð. Einnig mynduðust vinatengsl foreldra minna og þeirra hjóna og milli barna okkar. Þessi tengsl mynduðust ekki síst vegna mannkosta Rósu – hún var tímalaus og fordómalaus gagnvart aldri og laðaði fólk að sér sama á hvaða aldri það var. Það var gott að koma í Söðulsholt á meðan þau bjuggu þar og læra af henni hvernig hún umgengst börnin sín og ól þau upp. Ekki síður var gott að koma í Kópavoginn allan þann tíma sem þau bjuggu þar. Samræðurnar voru aldrei lágkúrulegar – málin voru rædd af þekkingu, skilningi og fordómaleysi. Það var eins og Rósa lyfti öllu á æðra plan. Hún var svo ekta og svo sönn. Hún hafði djúpan skilning og þekkingu á flestum málum og sá spaugilegu hliðarnar á tilverunni. Hún var ekki kona sem rexaði eða fjargviðraðist yfir hlutunum. Hún var æðrulaus og tók á hlutum á yfirvegaðan hátt. Ég fór alltaf ríkari af hennar fundi. Hvar sem Rósa kom veitti fólk henni athygli, ekki vegna þess að hún sjálf tæki sér rúm í tilverunni, hún var hógvær manneskja, hækkaði aldrei róminn né tók orðið af fólki, talaði lágt og skýrt með sinni djúpu altrödd en persónuleiki hennar og fegurð voru svo sterk að allir veittu henni athygli.

Þegar hún var orðin ein og flutt á Snorrabrautina var ekki síðra að koma til hennar. Hún sagði mér frá öllum afkomendum sínum, hvar þau væru stödd í lífinu, með stolti og kærleika, með myndir af þeim allt um kring – já hún lét sig varða hvar afkomendur hennar voru á vegi staddir. Og hún spurði af sama áhuga um allt mitt fólk og lét sig það líka varða. Hún var glöð að vera komin í sitt gamla uppvaxtarhverfi þar sem hún gat gengið daglega í sund og spásserað á kaffihús og listasöfn. Rósa var menningarsinnuð heimskona fram í fingurgóma. „Þetta er nú að verða komið nóg,“ sagði hún og hló við þegar ég heimsótti hana í síðasta sinn á Droplaugarstaði.

Já mér þótti alltaf svo vænt um þig elsku Rósa, þakka þér fyrir samfylgdina gegnum lífið.

Öllu fólkinu hennar votta ég mína dýpstu samúð.

Hólmfríður Árnadóttir.

Ég var nýráðin bókavörður við Kennaraháskóla Íslands og sat alvarleg í bragði hjá dr. Brodda Jóhannessyni á rektorsskrifstofunni og freistaði þess að fá meira fé til starfseminnar. Slík samtöl braut Broddi gjarnan upp með því að benda á eitthvað út um gluggann, fegurð himinsins eða fugl á flugi. En í þetta sinn gekk beinvaxin og þokkafull kona eftir stéttinni og Broddi segir umsvifalaust: „Þessari konu þarft þú að kynnast“. Í orðum hans lá greinileg aðdáun á konunni en um leið líklega lúmsk ábending til mín um meiri háttvísi. Þarna sá ég Rósu Björk í fyrsta sinn. Hún var þá kennari við Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskólans, en nokkrum árum síðar gerðist hún endurmenntunarstjóri við Kennaraháskólann. Þá kynntumst við vel og hún varð mér strax dýrmæt fyrirmynd.

Fyrir utan tígulegan líkamsvöxt var eftirtektarvert í fari Rósu hvað hún var einlæg og fumlaus í allri framkomu og tali. Hún var vitur kona og sýndi öllu og öllum áhuga, tók virkan þátt í faglegri umræðu hvort heldur var við fáa eða fleiri og virti alla sína viðmælendur. Á fundum var hún ófeimin að biðja um orðið, hlustaði grannt á skoðanir annarra og færði rök fyrir sínum eigin, spurði ef eitthvað var óljóst og lagði alltaf gott til mála. Það var hlustað á Rósu, rödd mannúðar og víðsýni, og hún lagði því mikið af mörkum í samstarfi og félagslífi í Kennaraháskólanum. Þar varð framlag hennar ekki síst okkur yngri konum mikil hvatning.

En Rósa spilaði ekki bara á faglegu nóturnar, við vissum öll að hún var gift presti, átti fjögur börn og hafði kennt börnum vestur á Snæfellsnesi. Nú voru þau flutt í Kópavoginn en í aðdraganda prestskosninganna hafði sr. Árni sagt við tengdaföður minn: „Ég er nú bara venjulegur sveitaprestur en konan mín, það yrði fengur í henni fyrir bæjarfélagið“! Það var auðvelt að kynnast Rósu sem heilsteyptri nútímakonu en ekki bara sem endurmenntunarstjóra. Hún var lífsreynd en síung í anda og með sinni ríkulegu frásagnargáfu og háttvísu gamansemi auðgaði hún hversdaginn. Ég tala ekki um þær gleðistundir sem bauðst að njóta í félagi við þau hjón saman. Samband þeirra var falleg fyrirmynd og þeim hafði lærst að semja um hlutina þannig að á hvorugt hallaði. Kæmi fyrir að annað þeirra hefði haft orðið fulllengi að mati hins, lagði það lófann hlýlega á handarbak makans til að fá að komast að.

Það var gæfa að kynnast Rósu og njóta visku hennar og velvildar. Fyrir það þakka ég af heilum hug. Fólkinu hennar sendum við Bjarni innilegar samúðarkveðjur.

Kristín Indriðadóttir.

„Elsku hjartans Rúna mín!“ Þannig hófst bréf sem Rósa skrifaði þegar henni bárust tíðindin af því að móðir mín hefði eignast fjölfatlaðan dreng. Hún stappaði í mömmu stálinu og gerðist svo „frek“ að beiðast nafns, sagði að þá kæmu Rósar og Bjarki til greina, sem hnýta mætti aftan við fallegt nafn, og bætti við: „Ég hef nefnilega alltaf þá trú að gott sé að skíra fólk í höfuðið á lánsfólki og ég er svo mikil gæfumanneskja Rúna mín að ég vildi að eitthvað af mínu láni mætti fylgja honum.“

Sum vináttubönd eru þannig ofin að þau styrkjast bara og þéttast þegar á reynir. Þannig var vináttu móður minnar, Kristrúnar Eymundsdóttur, og Rósu Bjarkar Þorbjarnardóttur háttað. Rósa var gift séra Árna Pálssyni, en mamma og hann voru systrabörn. Rósa og séra Árni voru afar samrýnd hjón og ljósgjafar í lífi fjölmargra sem þeim kynntust.

Séra Árni var einstæður og rómaður sagnamaður. Þegar ég byrjaði að fóta mig í viðtölum snemma á blaðamannsferlinum átti ég samtöl við hann, sem ég mun einhvern tíma gera góð skil.

Ég gerði mér því oft ferð til þeirra hjóna og kynntist Rósu æ betur. Hún var vönduð í máli, hugsun og allri framkomu. Gestgjafi góður og greiðvikin með eindæmum, en gerði manni líka ljóst að á þessu heimili hjálpuðust allir að þegar kæmi að húsverkum. Hún var kennari og uppalandi og svo var hún mikill heimspekingur, ekki síst þegar talið barst að siðfræði, trúmálum og mannlegu eðli.

Í huga mínum er ljómi yfir minningu Rósu. Hún var sannkallaður verndarengill. Þegar móðir mín skildi við eftir langvinn veikindi sat Rósa hjá henni, strauk á henni höndina og talaði fallega til hennar. Það var helg kyrrð yfir þeirri stund. Svo er það eftirminnilegt að hún nánast strauk af sjúkrahúsinu til að fylgja Þóri Bjarka til grafar sem hún hafði af gæsku lánað nafn sitt.

Ég hafði ekki hugmynd um tilurð nafnsins á bróður mínum fyrr en ég las bréfið eftir andlát móður minnar. En það gekk eftir að Þórir Bjarki varð lánsamur, bæði langlífur miðað við sína fötlun og svo bjó hann alla tíð við gott atlæti og umönnun.

Blessuð sé minning elsku Rósu. Samúðarkveðjur frá okkur fjölskyldunni og sérstakar samúðarkveðjur frá Halldóri Blöndal föður mínum.

Pétur Blöndal.

Góð vinkona og samstarfsmaður til margra ára, Rósa Björk Þorbjarnardóttir, er látin. Hún var sérkennari og ung fór hún að kenna börnum sem bjuggu við slæmar aðstæður í Reykjavík. Það var ekki létt verk en lærdómsríkt. Við hjón kynntumst Rósu þegar ég hóf störf í Æfingaskóla Kennaraháskólans. Þar hafði verið sett á stofn svokallað lesver sem ætlað var að efla læsi barna og nám þeirra sem þess þurftu með. Þar fór reyndar fram mjög markvisst starf fyrir börn og unglinga. Forstöðumaður lesversins var Þóra Kristinsdóttir, sem látin er fyrir skömmu. Lesverið varð vinsælt og skilaði góðum árangri af ýmsu tagi. Milli mín og kennaranna var góður vinskapur, enda sjálfsagt að kennarar fylgdust með starfinu og leiddu það út í bekki. Samstarf okkar þriggja varð æ meira eftir því sem tíminn leið. Við sömdum ýmislegt sem kom nemendum til góða í lestri og ritun en stærst þessara verka var samning þriggja kennslubóka handa miðstigi grunnskóla, Málrækt. Þetta var mikil vinna sem fór m.a. fram á heimilum okkar. Það var gott að vera hjá Rósu. Við sátum í stofunni en séra Árni, maður Rósu, vann á neðri hæðinni. Hann gætti þess að við tækjum hlé af og til og kom þá upp og sagði okkur að komið væri að kaffi.

Eftir allmörg góð ár í Æfingaskólanum gerðist Rósa framkvæmdastjóri endurmenntunar Kennaraháskólans. Það var blómlegt starf sem fram fór bæði í Reykjavík og úti um land. Á þeim vettvangi störfuðum við Rósa einnig saman.

Rósa bauð okkur hjónum til veislu á níræðisafmæli sínu. Það var skemmtilegur fagnaður þar sem félagar rifjuðu upp góðar minningar. Nokkru seinna hringdi hún í mig og bað mig að finna sig, sem ég vitaskuld gerði. Erindið var að gefa mér litla bók með endurminningum hennar. Þetta var falleg gjöf. Við sáumst í hinsta sinn við jarðarför samstarfskonu okkar og vinar, Þóru Kristinsdóttur. Sú stund var dýrmæt.

Við hjón færum börnum og afkomendum Rósu samúðarkveðjur og þökkum fyrir að hafa kynnst þessari góðu konu.

Guðmundur B.
Kristmundsson og
Sigríður Bjarnadóttir.