Fréttaskýring
Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Hundruð einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu eiga ekki þak yfir höfuðið og sífellt verður erfiðara fyrir fólk sem farið hefur út af sporinu að finna húsnæði enda hefur leiguverð hækkað mjög með hækkunum á fasteignamarkaði og þyngri fjármagnskostnaði.
Það sem af er árinu hafa 348 einstaklingar nýtt sér neyðarskýli Reykjavíkurborgar. Stór hluti þess hóps eða 228 einstaklingar hafa þó nýtt neyðarskýlin í aðeins 30 daga eða skemur það sem af er ári.
Yngsti einstaklingurinn sem gist hefur neyðarskýli er ekki orðinn tvítugur og sá elsti er á áttræðisaldri. Langflestir eru þeir á fertugsaldri en einnig eru töluvert margir á þrítugs- og fimmtugsaldri.
Karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem nýtt hafa neyðarskýli en 271 karl hefur gist í neyðarskýli það sem af er ári. Á sama tíma hafa 77 konur nýtt sér neyðarskýli.
Af og til berast ábendingar um fólk sem virðist halda til utandyra, meðal annars í tjöldum. Nýleg mynd tekin innan bæjarmarka Hafnarfjarðarbæjar sýnir vistarverur fólks. Í kringum tjaldið má meðal annars sjá tómar áfengisumbúðir, lok af sprautunálum og kvenmannsnærföt.
Smáhýsi samþykkt
Skriflegt svar Hafnarfjarðarbæjar við fyrirspurn Morgunblaðsins segir heimilislausa falinn hóp en bærinn leitist stöðugt við að kortleggja hann til þess að mæta honum. Fólk geti sótt gistiskýli á bæði Lindargötu og Granda eða þjónustu í Konukoti enda sé Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Reykjavíkurborg um þau úrræði. Þá segir að bæjarfélagið sé einnig í samstarfi við Frú Ragnheiði vegna einstaklinga sem eiga við fjölþættan fíkni- og geðvanda að etja. „Samþykkt hefur verið að setja upp smáhýsi í Hafnarfirði. Stöðugt er verið að meta stöðuna og skoða leiðir til að styrkja þjónustuna svo mæta megi þörfum þessa hóps enn frekar,“ segir í svari bæjarins.
Ekki allir kjósa neyðarskýli
Soffía Hjördís Ólafsdóttir, deildarstjóri í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hjá Reykjavíkurborg, segir heimilislaust fólk halda mest til í bílakjöllurum og á opnum svæðum utan þjónustutíma neyðarskýla en af og til berist ábendingar um að fólk virðist halda til í tjöldum á víðavangi. Kaffistofu Samhjálpar segir Soffía vera góða til síns brúks en hún segir betri aðstöðu vanta fyrir heimilislaust fólk á daginn.
Soffía segir borgina leitast við að bjóða öllum þjónustu sem á þurfa að halda. VoR er færanlegt vettvangs- og ráðgjafarteymi á vegum borgarinnar sem aðstoðar heimilislaust fólk. Teymið fer inn á heimili fólks og víðar til að hitta notendur. Öllum sé kynnt sú þjónusta sem í boði er en ekki sé hægt að þröngva henni upp á fólk, „ef það vill ekki þiggja þjónustuna þá látum við þar við sitja,“ segir hún.
Vantar heildstæða stefnu
Aðstæður heimilislausra kvenna eru aðrar en karla og eru ungar heimilislausar konur sérstaklega falinn hópur – konurnar búa við mjög mikla berskjöldun. „Við erum að sjá konur koma seinna inn til okkar og kannski í mjög slæmu ástandi eftir að hafa dvalið hjá öðrum og með þunga áfallasögu að baki.“
Soffía segir tilfinnanlega vanta heildstæða stefnu stjórnvalda í málefnum heimilislausra og þar með talið talningar- og tölfræðihlutann þannig að hægt sé að grípa vandann betur og vita hvaða mengi er verið að vinna með. Í dag sé það alfarið á vegum sveitarfélaga að útfæra málaflokkinn.
Margt áunnist
Markmiðið sé að koma fólki frá ótryggari aðstæðum í öruggari aðstæður og mynda brú inn í önnur kerfi eins og félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Margt hafi áunnist og í dag séu 77 íbúar sem hafa reynslu af langvarandi heimilisleysi í húsnæði með stuðningi hjá Reykjavíkurborg.
„Við veitum stuðning frá VoR-teymi í „Housing first“ og smáhýsum og erum með sólarhringsbúsetuþjónustu fyrir konur annars vegar og karla hins vegar sem og tímabundið neyðarhúsnæði fyrir karlmenn. Þar að auki er Reykjavíkurborg einnig með tvo íbúðakjarna með sólarhringsþjónustu innan málaflokks fatlaðs fólks þar sem íbúar með langvarandi reynslu af heimilisleysi og fjölþættar þjónustuþarfir búa.“ Hún segir húsnæðishlutann hafa vaxið undanfarin ár og markmiðið sé að fólk fái húsnæði með viðeigandi stuðningi. „Við viljum stytta þann tíma sem fólk þarf að nýta sér neyðarþjónustu.“
Borgin er farin að huga að vetrinum en Soffía segir vetraráætlun í undirbúningi sem geri ráð fyrir að enginn þurfi að dvelja úti allan sólarhringinn. „Við vorum með samning við Samhjálp á síðasta ári um að Kaffistofan hefði opið lengur til að tryggja að fólk þyrfti aldrei að vera utandyra og við erum að leggja lokahönd á áframhaldandi samning.“