Klerkastjórnin kastar grímunni

Íransstjórn skaut í gær 180 langdrægum eldflaugum að Ísrael, en hver þeirra gæti borið kjarnorkusprengju, sem klerkaveldið hefur lagt svo mikið í sölurnar til að eignast, gagngert til þess að „stroka Ísrael út af landakortinu“.

Öflugar eldflaugavarnir Ísraelsmanna og bandamanna þeirra virðast hafa grandað flestum eldflauganna, en þegar þetta er ritað er aðeins vitað um einn mann sem féll í árásinni, Palestínumann á Vesturbakkanum.

Ísraelsmenn segjast munu svara árásinni, en að þeir sjálfir velji stað og stund til þess. Svarið muni sýna Írönum hernaðarmátt Ísraels, það verði bæði óvænt og nákvæmt.

Þessa stórfelldu en misheppnuðu eldflaugaárás Íransstjórnar ber að fordæma harðlega. Í henni felst stigmögnun átaka í þessum viðkvæma heimshluta, sem hæglega geta breiðst út.

Með henni hefur klerkastjórnin í Tehran hins vegar loks stigið út úr skuggunum og gefið sig fram sem skeytingarlausan ófriðarvald Mið-Austurlanda.

Það ætti engum að koma á óvart, sem fylgst hefur með þróun mála undanfarin ár og kann að lesa landakort. Harðstjórnin í Tehran hefur fylgt áætlun um „eldhringinn“ svonefnda, að kveikja ófriðarbál sem víðast um Mið-Austurlönd til þess að þjarma að Ísrael annars vegar og Sádi-Arabíu hins vegar. Þrátt fyrir efnahagsörðugleika í Íran hefur ógrynni fjár og vopna verið komið í hendur hryðjuverkaleppa í Sýrlandi, Jórdaníu, Palestínu, Írak og Jemen.

Það er í því ljósi, sem líta ber viðurstyggilega árás Hamas á Ísrael fyrir tæpu ári, þar sem engu var eirt, beinlínis til þess að kalla á þau svör Ísraels, sem nú blasa við í Gasa. Víghreiður Hisbolla í Líbanon og árásir Húta í Jemen eru af sama meiði.

Enginn getur lengur látið sem þær hryðjuverkaárásir hafi ekki verið að undirlagi Íransstjórnar, sem nú tekur þátt í hernaðinum með beinum hætti. Enginn getur heldur látið sem þær ógni ekki friði og öryggi í mun víðara samhengi.

Opinber umræða á Vesturlöndum og vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur hins vegar verið mjög á aðra lund. Þar hafa öll spjót staðið á Ísrael, sem hefur mátt þola harðar ákúrur fyrir að taka til varna eftir fólskulega árás, vilja uppræta hryðjuverkaöflin og frelsa fjölda gísla í Gasa.

Þrátt fyrir að yfirvofandi árás Hisbolla frá Líbanon væri öllum ljós – og líka hvaðan hnífnum var stýrt – beittu mörg Vesturlönd Ísrael miklum þrýstingi til þess að bera klæði á vopn sín og fallast á einhliða vopnahlé.

En hvers vegna hefðu Ísraelsmenn átt að fara að þeim ráðum? Og af hverju voru þau gefin? Hafa allir aðrir gleymt af hverju Hisbolla er með óvígan her í Líbanon?

Þegar síðast sló í brýnu í suðurhluta Líbanon árið 2006 lauk ófriðnum með vopnahléi, sem komið var á fyrir tilstilli og með tryggingu Sameinuðu þjóðanna. Ályktun 1701 frá öryggisráðinu mælti fyrir um að Ísraelsher drægi sig út úr Líbanon, friðargæsluliðar tækju sér þar stöðu, en hersveitir Hisbolla áttu að afvopnast og draga sig um 30 km frá suðurlandamærum Líbanons.

Við ekkert þessa var staðið nema brottflutning Ísraelshers. Hisbolla fór hvergi, en Sameinuðu þjóðirnar hafa ekkert gert til að framfylgja ályktun 1701 eða vopnahléinu.

Þvert á móti hefur hryðjuverkahreyfingin hreiðrað um sig og er eins og ríki í ríkinu í Líbanon, sem fyrir vikið er nánast þrotaríki.

Ísraelsmenn lærðu það hinn 7. október í fyrra að þeir geta ekki beðið af sér fyrirætlanir Íransstjórnar eða þolað stöku hryðjuverkaárásir. Þar er meira undir, tilveruréttur Ísraelsríkis og tilveruréttur gyðinga í landinu helga.

Undanfarið ár hefur verið Ísraelsmönnum erfitt; árásin var þjóðinni reiðarslag, tiltrú á varnir landsins veiktist mjög en lítið hefur miðað við endurheimt gíslanna á Gasa.

Síðastliðnar vikur hefur þeim hins vegar vaxið móður. Hamas má heita úr sögunni sem skipulegt hernaðarafl og Hisbolla höfuðlaus her í orðsins fyllstu merkingu. Hvað við tekur nú þegar harðstjórnin í Íran hefur kastað grímunni er önnur saga.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ávarpaði í fyrradag almenning í Íran, þar sem hann ítrekaði að milli Ísraelsmanna og Persa ríkti engin óvinátta. Þvert á móti ættu þær fornfrægu þjóðir í höggi við sameiginlegan óvin, harðstjórnina í Tehran, sem hann spáði að félli fyrr en varði. Þá yrði þess allur kostur, að ríki Mið-Austurlanda gætu loks lifað saman í friði og farsæld, líkt og víðast stæði vilji til.

Það kann að bera vott um bjartsýni, en hitt er rétt að það er klerkastjórnin sem kyndir ófriðareldana. Þá verður að slökkva.