Bruno Fernandes fyrirliði Manchester United sleppur veið leikbann, þrátt fyrir að hann hafi fengið rautt spjald í leik liðsins við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á sunnudag. United áfrýjaði rauða spjaldinu og sú áfrýjun bar árangur og aganefnd ensku úrvalsdeildarinnar viðurkenndi mistök. Fernandes verður því til taks er United mætir Aston Villa, Brentford og West Ham í næstu þremur leikjum liðsins í deildinni.
Jürgen Klopp var í gær sæmdur heiðursorðu Þýskalands fyrir störf sín í þágu þýska ríkisins. Hann var sæmdur heiðursorðunni af Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseta í Bellevue-höllinni í Berlínarborg í tilefni af degi þýskrar einingar. Klopp, sem hætti sem knattspyrnustjóri Liverpool í vor, er afar vinsæll í heimalandinu og þykir hafa verið Þýskalandi til sóma á erlendri grundu.
Knattspyrnumaðurinn ungi Þorri Stefán Þorbjörnsson er genginn alfarið í raðir Fram en hann var á mála hjá Lyngby í Danmörku. Þorri, sem er aðeins 18 ára gamall, hefur leikið á láni frá danska liðinu á þessu tímabili með Fram en hann skrifar nú undir þriggja ára samning í Úlfarsárdal.
Enski knattspyrnumaðurinn Jack Stephens, miðvörður Southampton, hefur verið úrskurðaður í alls fimm leikja bann og er gert að greiða 50.000 pund, níu milljónir íslenskra króna, í sekt. Stephens fékk beint rautt spjald í 0:3-tapi Southampton fyrir Manchester United eftir ljótt brot á Alejandro Garnacho í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði og fór þá sjálfkrafa í þriggja leikja bann sem hann er búinn að taka út. Enska knattspyrnusambandið bætti hins vegar við tveimur leikjum til viðbótar og sektaði Stephens í gær vegna hegðunar hans eftir að varnarmaðurinn fékk spjaldið.
Daninn Tarik Ibrahimagic, leikmaður karlaliðs Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, verður í banni gegn Stjörnunni í næsta leik liðsins í Bestu deildinni. Tarik, sem skoraði jöfnunar- og sigurmark Víkings gegn Val síðasta sunnudagskvöld, fær bannið vegna sjö gulra spjalda og missir af heimleik liðsins gegn Garðbæingum. Varnarmaðurinn Sigurður Gunnar Jónsson verður ekki með Stjörnunni vegna fjögurra gulra spjalda. Báðir voru þeir úrskurðaðir í bann á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ. Valsmennirnir Lúkas Logi Heimisson og Orri Sigurður Ómarsson verða ekki með Val gegn Breiðabliki vegna uppsafnaðra spjalda.
Í neðri hlutanum verður KR-ingurinn Finnur Tómas Pálmason í banni gegn KA fyrir norðan en KA-maðurinn Dagur Ingi Valsson verður ekki með heldur vegna rauðs spjalds í síðasta leik. Ragnar Bragi Sveinsson fyrirliði Fylkis er kominn með sjö gul spjöld og verður í banni gegn HK í Kórnum. Atli Hrafn Andrason verður ekki með HK-ingum en hann tekur út seinni leikinn af tveggja leikja banni sínu.