Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels segir Írani hafa gert stór mistök með því að ráðast gegn Ísrael í gær. Hann heitir hefndum gegn Íran og segir að ráðist verði á þá sem ráðast á Ísrael.
Íran skaut um 200 eldflaugum á Ísrael síðdegis í gær. Hæfðu eldflaugarnar einhver skotmörk innan landamæra Ísraels og leituðu íbúar skjóls meðan á árásinni stóð. Að minnsta kosti einn lést í árásinni. Var hann af palestínskum uppruna, staddur í Jeríkó.
Íranski byltingarvörðurinn hefur lýst árásinni á hendur sér og segir hana vera gerða til að hefna fyrir dráp tveggja leiðtoga, Ismails Haniyeh leiðtoga Hamas og Hassans Nasrallah leiðtoga Hisbollah.
Bandaríkjaher aðstoðaði Ísrael við loftvarnir með því að skjóta á eldflaugar úr tundurspilli hersins við Ísrael. Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, Jake Sullivan, segir loftárás Írans hafa verið máttvana og henni hrundið.
Bandaríkin heita stuðningi
Að sögn talsmanns Ísraelshers, sem fréttastofa AFP ræddi við, var ætlunarverk árásarinnar að hæfa borgaraleg skotmörk og drepa þúsundir borgara.
Íranski byltingarvörðurinn sagði aftur á móti að skotmörk árásarinnar hefðu verið þrjár herstöðvar nærri borginni Tel Avív.
Bæði Joe Biden Bandaríkjaforseti og Kamala Harris, varaforseti og frambjóðandi demókrata til forseta, hafa heitið Ísrael staðföstum stuðningi í kjölfar árásarinnar.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar á morgun til að ræða stöðu mála í átökunum og hvernig forðast beri stigmögnun.
Ísraelski herinn hefur í vikunni gert árásir á Beirút, höfuðborg Líbanons, og beint aðgerðum sínum gegn liðsmönnum Hisbollah-hryðjuverkasamtakanna þar í landi. Þegar blaðið fór í prentun hafði herinn gefið út tilkynningu þess efnis að hann varpaði nú sprengjum á skotmörk í Beirút. Eru skotmörkin sögð vera í úthverfum í suðurhluta borgarinnar.
Ísrael sendi í gær herlið inn fyrir landamæri Líbanons og hafa sveitir hersins þegar skipst á skotum við heimamenn. Umfang hernaðaraðgerðar Ísraelshers er óljóst á þessari stundu.