Sviðsljós
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Meirihluti ungs fólks sem kaupir sína fyrstu íbúð virðist njóta fjárhagslegrar aðstoðar skyldmenna við kaupin. Gögn benda til þess að aðstoðin hafi orðið sífellt veglegri með árunum og er áætluð fjárhagsleg aðstoð við fyrstu kaupendur að meðaltali um það bil þrefalt hærri að nafnvirði í ár og í fyrra en fyrir rúmum áratug síðan.
Þessar upplýsingar koma fram á minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem sent hefur verið til fjárlaganefndar í tengslum við fjárlagavinnuna. Byggt er á tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og álagningarskrám í greiningu á fyrstu kaupendum.
„Fyrstu íbúðakaupum hefur fjölgað það sem af er þessu ári þrátt fyrir hátt vaxtastig. Vísbendingar eru um að meirihluti fyrstu kaupenda njóti einhvers konar aðstoðar við að fjármagna kaupin, t.d. frá skyldmennum, og að umfang aðstoðarinnar hafi vaxið undanfarin tvö ár. Ólíkt því sem ef til vill mætti álykta af umræðunni er hlutfall ungs fólks sem á fasteign nú með mesta móti miðað við undanfarin 15 ár. Hlutfall ungs fólks sem á fasteign hefur lítið breyst undanfarin tvö ár og mun líklega ekki breytast mikið í ár heldur. Hér er horft til íslenskra ríkisborgara, en hjá erlendum ríkisborgurum er staðan önnur, m.a. þar sem meirihluti þeirra hefur ekki búið á landinu nema í nokkur ár,“ segir þar.
Skv. tölum HMS fjölgaði fyrstu kaupum um helming á fyrri hluta þessa árs en bent er á að raunin sé samt sú að í hlutfalli af fjölda ungs fólks séu fyrstu kaup enn færri en á árunum 2015-2019. Ef eingöngu er litið á erlenda ríkisborgara, sem hefur fjölgað hratt, þá hefur hlutfall þeirra sem eiga fasteign lækkað.
„Um helmingur íslenskra ríkisborgara á aldrinum 25-29 ára átti fasteign um síðustu áramót. Fyrir áratug átti aðeins um þriðjungur íslenskra ríkisborgara á þessum aldri fasteign. Þannig hefur fjölgað mikið í hópi ungra fasteignaeigenda, sé litið til íslenskra ríkisborgara. Þessi fjölgun var örust á árunum 2019-2021 en hefur ekki gengið til baka að neinu ráði síðan þá,“ segir á minnisblaðinu.
70% þeirra tekjuhæstu og 30% tekjulægstu eiga fasteign
Í ljós kemur að mikill munur er á íbúðakaupum ungs fólks eftir tekjuhópum og hefur bilið á milli þeirra breikkað. Hlutfall ungra íbúðaeigenda sem eru í efri helmingi tekjudreifingarinnar hefur aukist hraðar en í neðri helmingnum „Um 70% íslenskra ríkisborgara í efsta tekjufimmtungi 25-29 ára eiga fasteign. Hjá neðsta tekjufimmtungnum er hlutfallið 30%,“ segir á minnisblaðinu.
Ætla megi út frá álagningarskrá að þær fjölskyldur íslenskra ríkisborgara sem eignuðust sína fyrstu fasteign í fyrra hafi að meðaltali átt sex til níu milljónir kr. í lausafjáreignir í aðdraganda kaupanna. „Útborgun við fyrstu íbúðakaup virðist þó, miðað við sömu upplýsingar, að meðaltali vera töluvert meiri en sem þessu nemur eða um 18 [m.kr.] í fyrra. Ekki er unnt að fullyrða hvers vegna þetta er en vera má að stór hluti fyrstu kaupenda njóti einhvers konar fjárhagsstuðnings frá foreldrum eða öðrum vandamönnum.“
Segir að fjárhagsstuðningur foreldra geti verið mismunandi, ýmist sem lán, kaup á hlut í íbúð með börnum, fyrirframgreiddur arfur eða gjöf og þessu fylgi álitamál um skattalega meðferð. Ef um lán er að ræða ætti að reikna vexti af því sem koma til skattlagningar ef þeir eru umfram frítekjumark vaxtatekna. Greiða ber 10% skatt af fyrirframgreiddum arfi og ef um gjöf er að ræða ætti hún að leiða til skattlagningar í launaskatthlutfalli (31,5%-46,3%). „Hins vegar eru fá dæmi um að ráðstöfun til barna hafi sætt skattlagningu sem gjöf og spilar þar inn í að strangar sönnunarkröfur hafa verið lagðar á skattyfirvöld að sýna fram á að um gjöf sé að ræða (en ekki lán).“