Verslun Eirbergs var ein fjölda verslana Kringlunnar sem urðu fyrir altjóni vegna brunans. Nú liggur fyrir að hún verður ekki opnuð aftur í húsinu.
Verslun Eirbergs var ein fjölda verslana Kringlunnar sem urðu fyrir altjóni vegna brunans. Nú liggur fyrir að hún verður ekki opnuð aftur í húsinu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sérverslunin Eirberg, sem rekin hefur verið á Stórhöfða í Reykjavík og í Kringlunni, hefur ákveðið að opna verslunina í Kringlunni ekki á ný eftir brunann sem varð í verslunarmiðstöðinni í júní síðastliðnum

Sérverslunin Eirberg, sem rekin hefur verið á Stórhöfða í Reykjavík og í Kringlunni, hefur ákveðið að opna verslunina í Kringlunni ekki á ný eftir brunann sem varð í verslunarmiðstöðinni í júní síðastliðnum.

Verslun Eirbergs var ein fjölda verslana Kringlunnar sem urðu fyrir altjóni vegna brunans.

„Árin okkar tíu í Kringlunni voru farsæl og góð en svo kemur þetta áfall sem reynist meira en maður hélt í byrjun,“ segir Kristinn Johnson framkvæmdastjóri Eirbergs í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segir aðspurður að allar innréttingar og innanstokksmunir hafi orðið fyrir vatnsskemmdum. „Við sáum strax að verslunin yrði ekki starfhæf í langan tíma.“

Kristinn segir að í kjölfarið hafi stjórnendur Eirbergs ákveðið að líta inn á við.

„Það er kannski dálítið íslensk hugsun að horfa á þetta sem tækifæri. Við héldum því ótrauð áfram og tókum ákvörðun um að fílefla verslunina á Stórhöfða. Við færðum fólkið sem var í Kringlunni þangað yfir og stórbættum þjónustustigið og upplifun viðskiptavina.“

Þessi ákvörðun borgaði sig, að sögn Kristins.

„Við höfðum vonast til að ná einhverjum af viðskiptavinunum í Kringlunni upp á Stórhöfða. Á endanum hafði þetta þau áhrif að veltan í fyrirtækinu jókst eftir lokunina.“

Kristinn þakkar árangurinn því hvað þjónustustigið hækkaði. „Með góðri þjónustu færðu ánægða viðskiptavini og það sýndi sig þarna. Nú höfum við meiri mannskap á Stórhöfða en áður og getum sinnt öllum vel.“

Einnig spilaði inn í að Eirberg fór í markaðsátak eftir brunann þar sem útskýrt var fyrir viðskiptavinum að fyrirtækið væri í sárum og lokað yrði í Kringlunni um óákveðinn tíma.

Annað sem hefur breyst er að afgreiðsluhraði og velta í vefverslun Eirbergs hefur vaxið með auknum fjölda starfsfólks.

Kristinn segir það hafa verið lán í óláni að nýverið voru gerðar skipulagsbreytingar á Stórhöfða. Skrifstofur hafi verið færðar til og verslunarrýmið þrefaldað.

„Það hjálpaði til og gaf okkur grunn til að taka á móti okkar föstu góðu kúnnum. Verslunin er núna 450 fermetrar og viðskiptavinir sjá miklu meira vöruúrval en áður. Viðbrögðin eru mjög jákvæð.“

Áætluð velta Eirbergs á þessu ári er 900 milljónir króna. Til samanburðar voru tekjur fyrirtækisins í fyrra um 860 milljónir.

Pétur Ívarsson verslunarstjóri Boss búðarinnar í Kringlunni segist sakna allra sem hætti í húsinu. Það sé samt sem áður þannig að verslanir hafi komið og farið reglulega þau 25 ár sem hann hafi verið við störf í verslunarmiðstöðinni.

„Þó að þetta sé í kjölfar brunans er ekkert nýtt að skipt sé um rekstraraðila í húsinu,“ segir Pétur.

Hann segir að það hafi hjálpað öllum verslunum Fata og skóa að fólk geri sér almennt ferð til að sækja þær verslanir og því hafi þessi minni umferð sem var í húsinu eftir brunann takmarkaðri áhrif á þær en aðrar. Verslanir Fata og skóa eru allar í Kringlunni, Herragarðurinn, Boss búðin, Hugo búðin, Englabörnin, Mathilda og Collections.

„Þetta er allt að verða betra og betra, heilt yfir er staðan í Kringlunni eins góð og hægt er miðað við aðstæður.“

Allar búðir Fata og skóa sluppu við tjón vegna brunans, nema sú nýjasta, Hugo búðin. Allar vörur þar inni skemmdust og búðin hefur einnig orðið fyrir áhrifum vegna lokana verslana í nágrenninu.

„Við hjá Boss fengum ekki leka úr loftinu eins og svo margar aðrar verslanir. Lagerinn okkar skemmdist að vísu allur en þetta kom á besta tíma rétt fyrir útsölur. Hugo Boss afgreiðir mjög vel og við opnuðum aftur fyrir einum og hálfum mánuði með troðfulla búð af haustvörum.“