Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Ríkisvaldið verður að standa við fyrirheit um öruggar og greiðar samgöngur á Austurlandi, það er í samræmi við svæðisskipulag landshlutans og fjármögnun þeirra úrbóta sem brýnt er að hefjast handa við. Þetta segir í ályktun haustþings Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem haldið var á Hallormsstað í síðustu viku. Í umfjöllun þar var jafnframt settur þungi í kröfur um að Alþingi afgreiddi nýja samgönguáætlun hið fyrsta og að hafin yrði vinna við næstu jarðgöng á Austurlandi.
Svæði sem vaxi á eigin forsendum
„Eingöngu með hringtengingu samgangna verður fjölkjarnasamfélagið Austurland að einu atvinnu- og þjónustusvæði sem getur vaxið áfram á eigin forsendum og verðleikum,“ segir í ályktun SSA.
Berglind Harpa Svavarsdóttir formaður SSA sagði í ávarpi sínu á haustþingi það vera áhyggjuefni að samþykkt samgönguáætlun lægi ekki fyrir. Ástæða þess virtist vera að eitt verkefni í vegagerð, það er bygging brúar yfir Hornafjarðarfljót, hefði farið marga milljarða króna fram úr áætlun sem stoppað hefði aðrar framkvæmdir um allt land. Þetta væri áhyggjuefni.
„Landsbyggðin er gjöful og þar liggja tækifærin. Tæknin sýnir okkur að með auðveldum og hagkvæmum hætti er hægt að bæta aðgang allra landsmanna að alhliða þjónustu, námi á öllum stigum og atvinnu með hagkvæmum og einföldum hætti í gegnum netið. Það er mikilvæg og hagkvæm vegferð sem verður að gefa enn frekar í og jafna þannig aðgang óháð búsetu,“ sagði Berglind Harpa. Hún minnti í yfirgripsmikilli ræðu sinni einnig á mikil lífsgæði í hinum dreifðu byggðum ef aðgengi að rafmagni, ljósleiðaratengingu og öflugar samgöngur væru tryggðar.
Efla þarf geðheilbrigðisþjónustu
Í ályktun SSA var einnig vikið að því að efla þyrfti geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi. „Mikil áföll hafa dunið á Austurlandi undanfarið. Íbúar hafa upplifað endurtekin áföll og mikla sorg með stuttum millibilum. Samfélagið er slegið, sorgmætt, stendur saman og syrgir eftir þá atburði sem hafa gerst í okkar litla samfélagi,“ sagði Berglind Harpa.