Hjördís Erna Þorgeirsdóttir fæddist 27. ágúst 1985 í Reykjavík. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 13. september 2024.
Foreldrar Hjördísar eru Þorgeir Einarsson rafmagnsverkfræðingur, f. 19.8. 1955, og Halla Kristín Þorsteinsdóttir ljósmóðir, f. 30.11. 1954.
Börn Hjördísar eru Hrafnkell Kamban Þorleifsson, f. 25.11. 2010, faðir Hrafnkels er Þorleifur Kamban Þrastarson, og Unnur Lóa Andradóttir, f. 18.11. 2014, faðir Unnar Lóu er Andri Freyr Viðarsson.
Hjördís var næstyngst fimm systkina. Systkini hennar eru: 1) Auður Kristín, f. 27.2. 1976, eiginmaður hennar er Jón Viðar Stefánsson, börn þeirra eru Halla Karen, f. 17.12. 1992, eiginmaður hennar er Snorri Helgason, börn þeirra eru Hrafn Viðar, f. 2015, Eiður Ernir, f. 2018, og Móey, f. 2022, Jökull f. 13.9. 2002, Stefán Frosti, f. 30.1. 2005, og Fanndís, f. 29.8. 2009. 2) Þórey Vilborg, f. 30.9. 1977, sambýlismaður hennar er Garðar Lárusson, börn Þóreyjar úr fyrra hjónabandi eru Katla, f. 7.9. 2007, og Andrea, f. 2011. 3) Þorsteinn Ari, f. 7.3. 1981, kona hans er Kristín Helga Einarsdóttir, börn þeirra eru Álfrún María, f. 30.7. 2009, og Einar Dagur, f. 18.9. 2013. 4) Valdís Helga, f. 8.4. 1988, maður hennar er Óli Valur Þrastarson, sonur þeirra er Flóki, f. 9.8. 2014.
Hjördís Erna ólst upp í Seljahverfinu í Reykjavík, gekk í Seljaskóla, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund og lagði stund á ensku í Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu.
Hjördís vann ýmis störf í gegnum tíðina. Til að mynda starfaði hún sem kennari við Borgarholtsskóla og sem blaðamaður á Fréttablaðinu.
Hjördís Erna verður jarðsungin frá Seljakirkju í dag, 2. október 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.
Útförinni verður streymt á eftirfarandi slóð:
https://mbl.is/go/qkhbt
Okkar elsku besta Hjördís Erna er farin. Að missa barn er sárasta lífsreynsla foreldra eins og þeir vita sem hafa það reynt.
Hjördís var fjórða barnið okkar og var sem barn alltaf í góðu skapi og fékk viðurnefnið Bestan.
Hjördís átti erfitt á haustin meðan sláturtíð stóð yfir, vesalings lömbin sem voru nánast nýfædd. Eitt sinn var hún í bíl með pabba í Skagafirði og dró niður gluggann og kallaði hátt og skýrt með hnefann á lofti til lambanna og kúnna: „Forðið ykkur, þið verðið drepin í haust.“ Hún hræddist þó tvær dýrategundir, köngulær og hrossaflugur, og þurfti smá aðstoð ef þær létu sjá sig.
Missirinn er þó mestur hjá börnum hennar tveim, þeim elsku Hrafnkeli og Unni Lóu sem voru sannkallaðir augasteinar móður sinnar. Þau fá alltaf pláss á okkar heimili og í hjörtum. Við munum gera allt til að hjálpa þeim.
Minningarnar um elsku Hjördísi eru margar og góðar. Hún var frábær ferðafélagi og það var regla hjá okkur að heimsækja New York einu sinni á ári. Í einni Ameríkuferðinni fórum við til Boulder í Colorado, þar áttum við leið í raftækjaverslun. Í henni var verið að sýna dýralífsmynd þar sem Hjördís sá ljón éta antilópu. Hún fór að hágráta og sór þess eið að hún skyldi aldrei aftur borða kjöt. Hún var 12 ára gömul og stóð við ákvörðunina til enda.
Hún elskaði að fara í Central Park og fylgjast með lífinu í garðinum. Þar var skyldustopp við Imagine, minnisvarða Johns Lennons. Árið 2007 fór Hjördís í þriggja mánaða ferð til Perú með góðum vinum. Það var mikið ævintýri og hún kom heim með sex tattú og lífsreynslu sem átti eftir að endast henni lengi.
Hún var nýflutt til okkar í húsið við Selvogsgrunn, eða eins og hún kallaði það „komin í skjól“ frá gráðugum leigusala. Við mæðgurnar áttum mörg trúnaðarsamtöl á þessum tíma. Við hlökkuðum svo mikið til að hafa þig í húsinu um ókomin ár.
Hjördís hafði ótrúlegt dálæti á Taylor Swift, hún var sko „Swiftie“. Það er huggun að hún fékk að upplifa tónleika með henni í Stokkhólmi 19. maí sl. Hún sagðist hafa þekkt öll lögin og tilfinningin var dásamleg.
Bítlarnir voru hennar músík líka og fyrir nokkrum árum fórum við saman að sjá Paul McCartney í Kaupmannahöfn. Aðrir tónlistarmenn eins og Bob Dylan, Cure, Joy Division, Smiths og Pixies voru í miklu uppáhaldi.
Síðustu mánuðina hafði hún miklar mætur á talandi páfagauknum Gizmo. Hún sendi okkur daglega instragram-upptökur af honum og þótti hann vera snillingur. Mikið væri nú gaman að fá svona sendingu núna. „Mamma, fáðu þér svona páfagauk, ég skal svo taka við honum,“ en svona gaukar ná oft yfir 100 ára aldri.
Hjördís hafði mikla réttlætiskennd og var Sanna Magdalena hennar manneskja. Tveim dögum fyrir andlátið sagði ég henni frá því að Sanna ætlaði að komast á þing og hún (við) sungum „Hó Sanna, hei Sanna, Sanna, Sanna hó“ og var það það síðasta sem við sungum saman. Hún ítrekaði svo að við yrðum að kjósa Sönnu.
Við kveðjum elsku Hjördísi Ernu með þeim orðum sem hún kvaddi okkur alltaf með: „Ég elska þig“ og við elskum þig svo sannarlega, nú, þá og um alla framtíð.
Mamma og pabbi.
Elsku Hjördís mín. Hvernig getur þetta verið raunveruleikinn? Ég vissi ekki að það væri hægt að vera svona örmagna af sorg, söknuði og eftirsjá. Af hverju kom ég ekki til í þín í kvöldmat nokkrum dögum áður en þú kvaddir, þú reyndir ítrekað að fá mig en ég var of upptekin. Upptekin í einhverju sem skiptir engu máli núna. Ég syrgi líka svo margt sem þú áttir fram undan. Að þú hafir ekki komist í Tene-ferðina okkar núna í október. Það skipti þig öllu máli að komast með börnin þín í frí og sú tilhugsun hélt þér gangandi. Við ætluðum aldeilis að njóta sama systurnar með börnin okkar.
Ég sakna þín svo sárt og óendanlega. Systir mín og sálufélagi, svo líkar en samt svo ólíkar. Þú varst svo sterkt krydd í lífið. Allt öðruvísi en allir og þannig varstu alltaf, alveg frá því þú fæddist. Svo fyndin og rugluð og skemmtileg. Fólk laðaðist að þér og það fór ekki fram hjá neinum þegar þú mættir. Svo óbeisluð og náttúruleg og afburðagreind. En líka flókin og stundum skildirðu sjálfa þig illa. Oft greiddum við saman úr flækjum sem voru ekki svo flóknar þegar við skoðuðum málin betur. Þú þurftir stundum bara smá aðstoð við að einfalda hlutina.
Ég er svo stolt af því að hafa átt þig sem systur og stolt af því að þú hafir sóst í að tengjast mér eins mikið og þú gerðir. Við vorum meira en systur. En á sama tíma er þessi staðreynd þeim mun sársaukafyllri. Að skrifa minningargrein um þig virkar svo aumt og marklaust.
Elsku hjartað mitt. Lífið verður aldrei eins án þín. Eflaust venst lífið að einhverju leyti með tímanum en tilveruna mun alltaf skorta litina sem þú bættir í hana. Ég mun varðveita og passa upp á minninguna þína svo lengi sem ég lifi. Ég lofa að vera til staðar fyrir Kela og Unni Lóu eins og þú baðst mig svo oft um í gegnum tíðina. Ég mun aldrei þreytast á að segja þeim frá þér og hversu stórkostleg manneskja þú varst. Á meðan ég lifi, þá lifir þú. Elska þig með öllu sem ég á.
Þín systir,
Auður.
Elsku fallega systir mín.
Síðustu dagar hafa verið svo óraunverulegir. Það er alveg óskiljanlegt að þú sért farin frá okkur. Elsku hjartans engillinn minn.
Þú komst í heiminn þegar ég var 8 ára og þvílíkt snilldarbarn sem þú varst. Alltaf svo kát, yndisleg og góð. Það breyttist ekkert með tímanum. Þú varst svo ótrúlega gáfuð og víðlesin og alltaf með svör við öllu mögulegu.
Ég er svo rík að hafa átt þig sem systur. Þú varst alltaf hrókur alls fagnaðar og það var auðvelt að sogast að þér og þínum litríka persónuleika enda áttir þú endalaust marga vini og kunningja sem syrgja þig einnig sárt núna.
Ef ég á að minnast einhvers frá liðnum árum þá verð ég að minnast frábæru Boston-ferðarinnar sem við fórum í systurnar, Halla Karen og Kristín, árið 2015. Þar fórstu gjörsamlega á kostum og við grétum úr hlátri yfir uppátækjunum þínum. Þú varst alltaf „life of the party“ og það var svo auðvelt að gleðjast með þér.
Þú varst svo góð mamma og elskaðir börnin þín svo heitt og mikill er missir elsku Unnar Lóu og Kela. Ég lofa því að vera alltaf til staðar fyrir þau bæði.
Ég mun aldrei geta hlustað á Bítlana eða Taylor Swift án þess að sjá þig ljóslifandi fyrir mér syngjandi með. Þú varst ótrúlegur viskubrunnur um tónlist og maður kom aldrei að tómum kofanum þar.
Elsku Hjördís. Ég á engin orð sem verðskulda þig. Ég elska þig svo heitt og minning þín mun lifa að eilífu í hjartanu mínu.
Við sjáumst vonandi aftur þegar minn tími kemur en þangað til þá mun ég gera mitt allra besta til að halda minningu þinni á loft.
Bless í bili elsku besta, þín systir,
Þórey Vilborg Þorgeirsdóttir.
„Without you I'm nothing.“
Við notuðum þessa setningu úr samnefndu lagi til að lýsa okkar tengingu alveg frá því við vorum unglingar. Það gæti ekki átt betur við en einmitt núna elsku hjartans Hjördís mín.
Hjartað er gjörsamlega í molum, ég trúi þessu ekki ennþá. Elsku fyndna, fallega og bráðgáfaða systir mín. Ég leit alltaf svo upp til þín þegar við vorum að alast upp og ég væri ekki einstaklingurinn sem ég er í dag án þín. Þú varst alltaf svo töff, skemmtileg og gullfalleg. Fólk laðaðist að þér og nærvera þín fór ekki fram hjá neinum. Þú varst skemmtilegasti rugludallur sem ég hef kynnst, hin fullkomna ruglkona. Það er ekki til nóg af lýsingarorðum til að lýsa óbeislaða náttúruaflinu sem þú varst. Þú varst svo einstök, orðheppin, grjóthörð en á sama tíma ótrúlega viðkvæm með stórt hjarta.
Það er vinsæl saga í fjölskyldunni þegar foreldrar okkar komu með mig heim af fæðingardeildinni, þá tókstu dúkku og bankaðir henni í höfuðið á mér og sagðir „skál“! Þessi saga er svo einkennandi fyrir brandarakonuna sem þú varst alla þína ævi.
Ég mun sakna þess svo mikið að glensa um allt og ekkert með þér. Þegar við grínuðumst saman með hluti þá var það alltaf alla leið og rúmlega það. Mér er sérlega minnisstætt hestateknó-grínlagið, Tölt Fiction, sem við enduðum á að taka upp í stúdíó með Gunnari vini okkar eftir að hafa verið að grínast með þetta við hann. Undir artistanafninu Díana Hross sem við gátum ekki sagt án þess að skella upp úr. Í hvert sinn sem við hlustuðum á það sprungum við úr hlátri og þetta er svo einkennandi fyrir okkar tengingu. Allt lífið var ennþá fram undan og við töluðum oft um hvernig við yrðum þegar við værum gamlar og hrukkóttar saman að hlusta á hestateknólagið og ennþá að vitna í Seinfeld.
Mér þykir svo vænt um allar minningarnar og gæti skrifað heila bók um okkar samband. Oft á tíðum vorum við algjört tvíeyki, alveg frá barnæsku, og fólk ruglaði okkur iðulega saman fram á fullorðinsár. Hjartað mitt mun aldrei jafna sig á því að þú sért farin frá okkur alltof snemma. Lífið verður aldrei eins og heimurinn breyttur án þín. Ég finn fyrir þér alls staðar og þú lifir áfram í gegnum okkur fjölskylduna og elsku börnin þín sem ég lofa að halda utan um fyrir þig.
Þú munt alltaf vera hjá mér og ég mun leggja mig fram við að halda minningunni um þig á lofti. Það er risastórt skarð í lífinu án þín og engin orð til sem ná utan um þetta. Takk fyrir allt elsku systir mín. Ég sakna þín svo sárt. Við sjáumst hinum megin þegar kemur að mínum tíma og ég veit að ömmur okkar og afar passa vel upp á þig fyrir okkur þangað til. Ég elska þig endalaust og að eilífu.
Þín litla systir,
Valdís.
Í dag fylgi ég mágkonu minni, Hjördísi Ernu Þorgeirsdóttur, síðasta spölinn. Það er mörgum áratugum of snemmt og ef lífið væri sanngjarnt hefði hún fylgt mér en ekki öfugt. Ég kynnist Hjördísi þegar við Auður förum að skoða hvort annað árið 1998 en þá er ég 22 ára en Hjördís 13 ára. Hjördís var öðruvísi en systkini hennar og foreldrar, hún var svo svakalega opin og öðruvísi, á meðan aðrir í þessari nýju fjölskyldu voru rólegri og héldu sig kannski meira til hlés. Við Hjördís vorum á margan hátt mjög ólík en mér fannst hún strax mjög skemmtileg og í rauninni breyttist hún lítið sem ekkert á því 26 ára ferðalagi sem við áttum saman. Margt sem við vorum að tala um fyrst þegar við kynntumst vorum við enn að tala um undir það síðasta og ef Instagram hefði verið til þegar við kynntumst hefði hún sent mér jafn skemmtileg og skrítin myndbönd þá og hún gerði mjög reglulega. Að Hjördís sé farin frá okkur er mikið áfall og verður erfitt að fylla hennar skarð því hún var lykilmaður um borð. Aðrir þurfa nú að taka við keflinu. Mest er þó áfallið fyrir elsku Kela og Unni Lóu sem kveðja móður sína i dag, foreldra Hjördísar, þau Þorgeir og Höllu, sem kveðja dóttur sína, og Auði mína, Þóreyju, Dodda og Valdísi sem kveðja systur sína. Sama á við um Höllu Karen okkar, en þær Hjördís litu alltaf á sig sem systur. Ég sendi þeim, fjölskyldunni allri og öllum þeim sem eiga um sárt að binda mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Ég mun minnast Hjördísar með hlýju og aldrei gleyma hennar einstaka persónuleika.
Jón Viðar Stefánsson.
Elsku hjartans Hjördís Erna hefur kvatt okkur í hinsta sinn. Það er ótrúlegt til þess að hugsa því hún var svo full af lífi og aldrei lognmolla í kringum hana.
Ég var 18 ára þegar Hjördís fæddist og fékk þann heiður að vera skírnarvottur hennar ásamt Sigrúnu systur. Ég var svo stolt af þeim titli og fá að fylgjast með þessum ótrúlega einstaklingi vaxa og dafna. Frá því hún gat talað þá þagnaði Hjördís ekki, nema þegar hún fékk snudduna sína, og þegar hún eltist gat ekkert stöðvað hana. Hjördís hafði miklar skoðanir og leyfði öllum að heyra en fyrst og fremst var hún mikil tilfinningavera og átti ást og faðmlag sem yljaði öllum sem þekktu hana.
Elsku Keli og Unnur Lóa, ykkar missir er ólýsanlega mikill og megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur.
Elsku Hoddi, Halla, Auður, Þórey, Doddi, Valdís og Halla Karen, það er stórt skarð höggvið í hópinn ykkar en megi minningin um einstaka dóttur og systur leiða ykkur í gegnum erfiða tíma.
Elsku besta Hjördís, takk fyrir að vera þú og þú munt ávallt skipa stóran sess í hjarta mínu. Ég vona að það sem segir í laginu sem þú söngst fyrir ömmu þína kvöldið áður en hún kvaddi „Someday we'll be together“ hafi ræst og þú sért umvafin hlýju og kærleik hvar sem þú ert.
Sigurlaug Vigdís
Einarsdóttir (Dísa frænka).
Elsku fallega Hjördís, með fallega ljósa hárið, skemmtilegustu nærveruna og litríka persónuleikann.
Þú varst svo einstök og ég var svo stolt að þú kynntir mig alltaf sem litlu systur þína.
Ég hef alltaf litið svo upp til þín, þú varst svo glöð, skemmtileg og uppátækjasöm.
Það er mér svo minnisstætt hvað þú nenntir endalaust að brasa með mér þegar við vorum krakkar, þú hjálpaðir mér að læra að hjóla og leyfðir mér að vera með þér og vinkonum þínum.
Þess á milli fékk ég að hanga inni í herberginu þínu og hlusta á þig lofsyngja Leonardo DiCaprio.
Þú bullaðir um furðulegustu hluti og ég fylgdist með þér af aðdáun, en ég skildi sjaldnast nokkuð af því sem þú talaðir um.
Þegar ég byrjaði í grunnskóla varstu fljót að fá mig með þér í ýmis verkefni, eins og að spyrja eftir þér í þeim tímum þar sem þú gleymdir heimanámi til þess að losna undan tímanum.
Þegar ég hugsa til þín þá ertu alltaf dansandi, syngjandi og hlæjandi. Það var aldrei dauð stund ef þú varst á svæðinu og þú alltaf miðpunktur athyglinnar.
Það er svo tómlegt og undarlegt að hugsa um framtíðina án þín.
Elsku hlýja og góða Hjördís sem áttir allan heiminn skilið – það er enginn eins og þú!
Ég sakna þín svo sárt, ég hugsa til þín alla daga. Ég þrái ekkert meira en að hitta þig aftur, knúsa þig og segja þér hvað ég elska þig mikið.
Þín „litla systir“,
Halla Karen.
Elsku heimsins besta Hjördís mín.
Fyrir 25 árum kynntumst við á tónleikum í Hljómskálagarðinum. Þú geislaðir af einstökum og fallegum karaktereinkennum, við urðum góðar vinkonur og höfum verið alla tíð síðan. Þau eru ótrúleg ævintýrin sem við höfum upplifað saman á þessum árum og minningarnar með þér eru dýrmætar. Vinátta okkar var falleg og sönn. Þú varst ein af þeim sem stóðu mér næst síðastliðin fimm ár og við vorum til staðar hvor fyrir aðra.
Samtöl okkar voru aldrei yfirborðskennd. Við ræddum allt milli himins og jarðar, plöntur, stjörnuspeki, talnaspeki, líf eftir dauðann og tilgang lífsins. Við töluðum um að flytja út á land saman, verða gamlar saman. Að eiga vinkonu eins og þig var ómetanlegt. Réttsýn, klár, góðhjörtuð, tilfinninganæm, skemmtileg, fyndin og glæsileg. Þú komst með áhugaverð og skemmtileg sjónarhorn á lífið og tilveruna og gafst henni tilgang.
Elsku vinkona, ég sakna þín svo sárt.
Hugur minn er hjá fjölskyldu þinni elsku Hjördís.
Þín vinkona,
Freydís.
Elsku Hjördís, mér finnst svo óraunverulegt að við séum að kveðja þig í dag. Það var svo mikið sem þú áttir eftir.
Við kynnumst fyrsta árið í menntaskóla. Þú varst í MS og ég í FB, en margir vina þinna voru með mér í FB og höfðu haft orð á því við okkur báðar að við yrðum að hittast. Eitt örlagaríkt kvöld hittumst við og þá varð ekki aftur snúið, við smullum saman.
Þú varst svo svöl, falleg og skemmtileg með geggjaðan tónlistarsmekk og endalaust af áhugaverðum pælingum.
Við eyddum óteljandi tímum heima hjá þér að hlusta á tónlist eins og Bítlana, Smashing Pumpkins, Pixies, Joy Division og Björk og töluðum um grænmetisfæði, dýravernd, raðmorðingja, kvikmyndir og stjörnuspeki. Þú hafðir svo breitt áhugasvið og gast sökkt þér niður í alls konar pælingar sem gaman var að kafa með þér í.
Þú átt heiðurinn að stórum hluta af mínu tónlistaruppeldi enda var tónlistaráhugi þinn „unmatched“ og ég er svo þakklát fyrir alla tónlistina sem við deildum saman og þú kynntir mér. Við fórum tvær saman á alls konar tónleika eins og Korn, Pixies og Kraftwerk og í tvær epískar Hróarskelduferðir árin 2005 og 2007. Það var svo gaman að vera með þér Hjördís og ég sakna þess að geta ekki talað við þig og lent í fleiri ævintýrum með þér. Ég man þegar ég fékk fyrsta bílinn minn, forláta Daihatsu Charade '87-módel, og þú stakkst upp á því að við myndum skreyta hann með tilvísunum í uppáhaldstónlistarfólkið okkar. Við vörðum sólríkum degi í innkeyrslunni hjá þér í Seljahverfinu að tússa á hann alls konar tilvitnanir í Lennon, Hendrix, Billy Corgan, Janis o.fl. Svo gerðum við kósí í bílnum, breiddum hlébarðaefni yfir aftursætið og bættum við púðum. Við skemmtum okkur konunglega og rúntuðum svo um allan bæinn í þessari glæsikerru.
Árin liðu og alltaf vorum við vinkonur, bestu vinkonur. Haustið sem þú eignaðist Kela þinn flutti ég út í nám. Ég man hvað þú varst stolt og hvað þú elskaðir litla strákinn þinn mikið. Þú sendir mér svo fallegar myndir af ykkur saman. Það var gaman að hitta ykkur þegar ég var á landinu. Þú varst svo góð mamma elsku Hjördís mín. Seinna flyt ég aftur út og er því ekki eins mikið í lífi þínu þegar þú eignast elsku Unni Lóu en ég veit hvað þú elskaðir hana mikið. Alltaf vorum við samt í sambandi. Við sendum hvor annarri skilaboð um allt milli himins og jarðar: hvað okkur þótti vænt hvorri um aðra, þú varst mikið í því að senda alls konar grín og svo auðvitað lögin hennar Taylor. Þú varst ein af fáum vinkonum mínum sem komu út að heimsækja mig og fyrir það er ég þakklát elsku Hjördís mín. Ég er þakklát fyrir þau skipti sem ég átti með þér eftir að ég flutti heim og hélt auðvitað að þau yrðu miklu, miklu fleiri. Ég vildi óska að þau yrðu fleiri.
Elsku Hjördís, orð fá því ekki lýst hversu einstök þú varst, full af andstæðum, svo sterk og svo viðkvæm á sama tíma. Svo öflug og svo góð, með sterka réttlætiskennd og með mikla ást að gefa þínum nánustu. Hugur minn er hjá börnum þínum og fjölskyldu.
Ég mun alltaf sakna þín dísin mín.
Ástarkveðja,
Lilja.
Hjördís vinkona mín var einstök. Hún kom eins og stormsveipur inn í líf mitt fyrstu vikuna í menntaskóla, ljóshærður og hávær uppreisnarseggur með John Lennon-húðflúr. Hjördís var öðruvísi en allir sem ég þekkti og var svo skemmtileg, greind og bráðfyndin. Hún hafði svo mikið aðdráttarafl. Nokkrum mánuðum eftir að við kynntumst missti ég systur mína skyndilega og við tók langt og erfitt sorgarferli, en Hjördís sýndi þá að hún var ekki einungis leiftrandi greind, heldur einnig með stórt hjarta og samhygð. Við Hjördís vorum óaðskiljanlegar í mörg ár, Fjördís og Svigrúm, svo ólíkar en samt svo líkar.
Tónlist var í raun kjarninn í sambandi okkar, enda þegar ég hlusta á tónlist sem minnir mig á hana, þá líður mér eins og við sitjum saman í herberginu hennar í Hæðarselinu. Við hlustuðum á tónlist, töluðum um tónlist, ræddum um texta og lærðum þá samhliða. Hjördís kynnti mig fyrir svo mörgum hljómsveitum og útskýrði merkinguna að baki textunum. Hjördís hafði yfirgripsmikla þekkingu á svo mörgu, en hún fékk ofuráhuga á ýmsu í gegnum tíðina og sökkti sér þá djúpt í þekkingaröflun. Þau sem þekktu hana vita hve fjölbreytt viðfangsefni hennar voru.
Hjördís hafði svo sterka réttlætiskennd og vildi öllum vel, en þegar við kynntumst 16 ára gamlar hafði hún þá þegar verið grænmetisæta í fjögur ár. Það er klárlega fyrir hennar tilstilli (og pressu) að ég stökk sjálf á grænmetisvagninn árið 2004 og hef verið þar síðan. Við höfum deilt girnilegum uppskriftum að réttum hvor með annarri og fyrir stuttu sendi hún mér uppskrift að japönsku spínatsalati sem við vorum sjúkar í þegar við dvöldum í Perú, en við vinkonurnar eyddum nokkrum mánuðum þar árið 2007. Við ferðuðumst um Andes-fjöllin, drukkum í okkur þekkingu um Inkana, borðuðum góðan mat og fengum okkur allt of mörg húðflúr.
Síðustu mánuðina í lífi Hjördísar vorum við í daglegum samskiptum og ræddum um allt og ekkert. Hlógum mikið og sendum hvor annarri alls kyns grín, en náðum líka að berskjalda okkur. Hjördís vildi vera til staðar fyrir mig og ég fyrir hana. Á þessu síðasta tímabili í hennar lífi gat ég endurgoldið stuðninginn sem hún veitti mér á unglingsárunum. Hún talaði mikið um börnin sín, ljósin sín tvö, en þau voru henni allt.
Hugur minn er hjá elsku Kela og Unni Lóu, systkinum Hjördísar og foreldrum hennar.
Hvíl í friði, elsku hjartans vinkona mín. Þú varst engum lík.
Sigrún Kristínar Valsdóttir.
Elsku hjartans Hjördís mín er farin og nú kann ég ekki alveg að vera til. Hún hefur svo lengi verið svo stór partur af lífi mínu. Alveg frá því að við vorum Bítlaelskandi síðunglingar og þar til nú, þegar við vorum orðnar tveggja barna mæður að nálgast fertugt.
Frá fyrstu kynnum vissi ég að ég vildi að hún yrði vinkona mín. Hún var svo geggjuð, ég hafði aldrei kynnst neinum eins og henni.
Hjördís var stór. Hún var stór persónuleiki með stórt hjarta. Hún var öðruvísi en annað fólk, fullkomlega einstök, algjör töffari. Svo orðheppin, svo rugluð, svo góð og hlý. Svo ógeðslega fyndin. Svo mikil Hjördís.
Hún elskaði fast og gerði allt fast einhvern veginn. Hún vissi allt um svo margt. Hún var grúskari, fékk hluti á heilann og sagði frá þeim af svo mikilli ástríðu að það var erfitt að hrífast ekki með. Á tímabili gerði hún ekki annað en að rappa texta Eminem í partíum, allt í einu kunni hún þá bara alla. Hún vissi allt um vítamín og krem, um hákarlaárásir, fjöldamorðingja og allt um Taylor Swift og Bítlana. Hún var upptekin af tölum og stjörnuspám. Hún elskaði vatn og í sundi reyndi hún á þolmörk líkamans með því að fara í gufu og heita og kalda til skiptis. Hún masteraði það eins og svo margt annað. Best fannst henni þó að fara í bað. Ég þekki engan sem elskaði bað eins mikið og Hjördís. Hafmeyjan og nautnaseggurinn. Elsku besta.
Hjördís var svo ótrúlega sjarmerandi, svo falleg, bráðgáfuð og fullkomlega á skjön, á sama tíma og hún var púslið sem passaði alls staðar inn. Það væri hægt að skrifa bækur um Hjördísi og gera um hana bíómyndir. Hún var og er þannig. „Larger than life. Icon.“
Hún var svo innilega einstök að ég var oft gáttuð á því hvernig hún hugsaði, hvernig hún skynjaði heiminn og hvernig hún gat fléttað saman venjuleg orð og búið til úr þeim listaverk. Hjördís var listaverk. Hörð en líka svo ótrúlega viðkvæm. Harmur heimsins hafði mikil áhrif á hana og hún átti oft erfitt með að horfast í augu við hann. Stundum reyndi ég að toga hana niður á jörðina en hún var bara ekki þannig.
Ég hef undanfarna daga legið yfir umræðuþráðum á netinu um eftirlífið, hlustað á hljóðbækur og lesið greinar og hver einasta frásögn færir mig nær fullvissunni um að Hjördís sé á einhverjum stórkostlegum stað, þar sem hún er frjáls og laus við allan sársauka. Ég held að hún af öllum kynni að meta þetta grúsk mitt, þar sem ég spæni mig í gegnum hvern Reddit-þráðinn af öðrum, gapandi yfir óendanleika alheimsins.
Lífið án Hjördísar er litlausara og daufara en andi hennar er altumlykjandi, í tónlistinni, börnunum hennar, fjölskyldu og vinum, í gríninu, golunni, laufunum, skýjunum og trjánum. Í öllu sem er. Í umbreytingarferli haustsins kveður hún okkur á sama tíma og hún lætur vita að hún verði alltaf með okkur.
Börnunum hennar, sem hún elskaði mest af öllu, sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Elsku Hjördís mín, takk fyrir allt. Ég elska þig alltaf. Þú verður alltaf mín og ég verð alltaf þín.
Þín vinkona,
Hildur Selma.
Daginn sem Hjördís kvaddi þessa jarðvist gekk ég út í ljósaskiptin eftir símtal sem skildi eftir skyndilegt, nístandi tóm í hjarta og Esjan var böðuð í svo fallegri haustbirtu, nánast eins og Hjördísi til heiðurs, að ég gat ekki annað en hugsað hvað lífið er í senn undurfagurt og óbærilega sársaukafullt.
Sömu mótsagnir einkenndu elsku bestu Hjördísi: Hún var ein gáfaðasta manneskja sem ég þekkti en efaðist kröftuglega um sig, að manni fannst af engri ástæðu. Hún var sjálfstæður hugsuður og áhrifagjörn. Ofurvarkár og áhættusækin. Stórfurðuleg og algjörlega ómótstæðileg í einum pakka sem gekk upp á sprenghlægilegan og kúl hátt! Hún skrifaði sumar af bestu greinum sem birtust í Fréttablaðinu en leit ekki beint á sig sem penna. Hún var „low-key style icon“ en virtist ekki hafa fyrir því. Hún vildi lífið en er nú horfin á brott. Fokk.
Minningabrotin raðast handahófskennt saman: Hjördís og Hildur Selma að slátra Frankly, Mr. Shankly í karókí á Gauknum. Þegar hún komst að því að ég fílaði lag með James Taylor þegar við vorum unglingar og bað elsku foreldra sína að kaupa fyrir mig Best of-plötuna hans. Hvað hún talaði alltaf fallega um börnin sín. Hvernig ég hætti aldrei að kalla hana „Hjössið“ í gríni og henni fannst það aldrei fyndið. Hvernig ég hélt í heimsku minni að Bítlarnir væru léleg hljómsveit þar til hún gaf mér Sgt. Peppers á geisladisk og neyddi mig til að hlusta þar til ég sá ljósið. Þegar hún og Valdís systir hennar kíktu upp í stúdíó til mín og flippuðu og orðagrínuðust af svo miklum móð að ný tónlistarstefna var fundin upp, hestateknó, og við tókum upp lagið „Tölt fiction“ undir nafninu Díana Hross! Þegar við gengum hættulegustu leiðina upp að Glym í fullkomnu kvíðakasti og týndumst svo á öruggu leiðinni niður eins og glórulausustu hipsterar allra tíma. Þegar Hjördís fór í herferð gegn flúorperum í Seljaskóla og setti stofnunina algjörlega á hliðina með daglegum mótmælum, og þar til gerðum mótmælaspjöldum og hnyttnum slagorðum.
Þvílíkur karakter! Hjördís var ekki fræg, hún var stjarna. Hún var eins og karakter í Kerouac-skáldsögu. Hún var fluggáfuð kvenhetja í franskri nýbylgjumynd. Hún var Factory girl (hér myndi Hjördís bresta í háværan söng: „She's a femme fatale …“). En Hjördís var líka einlægari en slíkar lýsingar gefa til kynna, hún elskaði fólkið í lífi sínu og lét það reglulega vita af því. Hún var næm og alvöru. Hún var stolt móðir. Og við sem syrgjum hana núna erum sammála um að húmor hennar og kærleikur sé ljóslifandi í huga okkar. Eins og hennar innsti kjarni muni ávallt lifa með okkur.
Ég er svo óendanlega þakklátur fyrir vináttuna okkar, allt sem hún kynnti mér, allt sem við gátum rætt frá öllum sjónarhornum. Það fyrsta sem hún sagði við mig var „hefurðu hlustað á band sem heitir the Pixies?“ (og svarið var nei) og það seinasta sem við sögðum hvort við annað var „lovjú“. Maður getur ekki beðið um betri vináttu.
Takk fyrir allt Hjördís. Það er óbærilega sárt að missa þig, en umfram allt forréttindi að hafa átt þig sem vin.
Gunnar Jónsson.
Ég man þegar fallegasta stelpan í bekknum gekk inn í fyrirlestrarsalinn á löngum grönnum leggjum með sítt ljóst hár. Hún var ekki bara með seiðandi augu og óaðfinnanlegan varalit. Hún var líka með ættarskömmina í plastpoka.
Þegar hún dró upp úr pokanum mjallahvítan uppstoppaðan heimiliskött og sagði okkur söguna af Fína féll ég kylliflöt fyrir henni.
Ég var vön því að vera skrýtnasta manneskjan í hópnum með áhugaverðustu sögurnar en Hjördís trompaði mig þúsundfalt. Við tengdumst líka strax og fljótlega vissi hún öll mín leyndarmál.
Það getur verið erfitt fyrir stórbrotnar og flóknar manneskjur eins og Hjördísi að fóta sig í okkar hversdagslega litla heimi en hún gat það og skildi mikið eftir sig.
Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér. Fallegi furðufugl. Flugeldasýning og náttúruundur. Hvíl í krafti elsku Hjördís. Eldurinn þinn logar áfram.
Harpa Kristbergsdóttir.
Elsku fallegi engillinn minn.
Þú stalst vinkonuhjarta mínu frá fyrstu stundu og eftir það varð ekki aftur snúið. Tíminn okkar var ekki langur en við pössuðum upp á að láta hann telja hvern einasta dag. Þú skilur eftir stórt skarð í hjarta mínu. Við hlógum, grétum, sungum og dönsuðum eins og enginn væri að horfa. Þú varst svo einstök og það var það sem ég elskaði mest við þig.
Þú varst ekki eins og neinn annar og stolt af því.
Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér, börnum, foreldrum, systkinum og vinum þínum.
Bros þitt, brandarar og gæska lifa nú í minningunni og hjartanu mínu. Ég held ótrauð áfram með æðruleysið og kjarkinn að vopni fyrir okkur báðar.
Takk fyrir að segja mér á hverjum degi að þú elskaðir mig.
Ég elska þig líka fallega besta Hjördís mín.
Þín vinkona,
Rut Magnúsdóttir.
Elsku Hjördís. Það er svo erfitt að finna nógu góð orð fyrir þig.
Þú varst svo mikið náttúruafl. „A force to be reckoned with“ er frasi sem ég er búin að nota mikið um þig síðustu daga. Eins og þú sagðir svo oft um Taylor Swift.
Það var svo mikill heiður að þekkja þig, elsku Hjördís. Þú hafðir svo óbeislaða orku og aðdráttarafl. Svo ótrúlega klár, fyndin, skemmtileg og svöl. Þvílíkur töffari. Svo ótrúlega góðhjörtuð og tilfinningarík. Algjör rugludallur, en samt svo skemmtilega mikill rugludallur og dásamleg. Svo falleg og einstök.
Ég er búin að hugsa mikið til fyrstu áranna þegar ég kom inn í líf ykkar systra. Ég bara gat varla trúað því að það væru til svona ótrúlega kúl systur. Valdís okkar var búin að grípa hjarta mitt og þú varst mjög fljót að eignast hjarta mitt líka. Ég var svo svakalega upp með mér þegar okkar vinátta byrjaði að blómstra, því þá var ég ekki lengur bara vinkona systur þinnar, heldur vinkona þín líka. Ég var svo heiðruð og montin innra með mér. Og ég þori alveg að fullyrða það að allt þitt fólk er montið og heiðrað að hafa fengið að fylgja þér í gegnum þetta líf elsku Hjördís.
Þín er og verður alltaf saknað svo sárt elsku vinkona. Við reynum eins og við getum að halda minningu þinni á lofti, en það verður aldrei hægt að fylla í skarðið sem þú skilur eftir. Þú varst svo falleg sál, falleg vinkona, falleg systir, dóttir og falleg mamma. Falleg að innan og utan.
Hvíldu í friði elsku engill.
Ingibjörg Baldursdóttir Ísberg.
Tími í Menntaskólanum við Sund. Kennarinn fjallar um þekktan einstakling í mannkynssögunni. Hjördís kallar yfir bekkinn með smá hæðnistón: „Já, þetta illmenni!“ Í hléinu fer Hjördís með texta eftir Morrissey eða Lennon og rýnir í þá með manni. Síðan var farið yfir í lífshlaup einhvers þekkts fjöldamorðingja. Ég man eftir að hafa hugsað við fyrstu kynni hvaða sérkennilega týpa þetta væri eiginlega en fannst hún samt svo fáránlega kúl. Hún var með róttækar skoðanir, sem voru fjarlægar þeirri heimsmynd sem maður hafði alist upp við. Skoðanir sem í dag eru eiginlega meginstraumurinn. Þegar maður lítur til baka var hún langt á undan sinni samtíð. Hún gerði menntaskólaárin svo sannarlega litrík og skemmtileg. Þar kenndi Hjördís mér margt, svo margt um tónlist og að kanna hið óhefðbundna.
Hjördís hafði svo margt til brunns að bera. Hún var risastór persónuleiki, einstök og fór sínar eigin leiðir. Eins og margir hafa lýst henni þá var hún „larger than life“. Hún var svakalegur töffari en samt blíð og góð. Var alltaf einlægur stuðningsmaður náungans – hélt alltaf með manni. Var fordómalaus, víðsýn og hafði gaman af því sérkennilega í mannlífinu og sá það jákvæða úr því. Það sýndi sig líka þannig að hún átti vini úr ólíkum áttum. Hún var orðheppin og hafði einstakt vald á íslensku og ensku. Hún hafði svo einlægan áhuga á söngtextum og þreyttist ekki á að kynna manni þá.
Stundum fannst manni Hjördís taka óréttlæti heimsins fullmikið inn á sig, en þannig var hún, með bullandi réttlætiskennd og ákafur dýravinur.
Hjördís skilur eftir sig skarð í lífi margra en þó allra mest í lífi barna sinna. Ég votta þeim og fjölskyldunni allri innilega samúð.
Lárus Gauti Georgsson.
Elsku Hjördís kom eins og ferskur andblær inn í enskudeildina. Hún byrjaði sem kennaranemi og smellpassaði strax inn í hópinn enda skemmtilega skrýtin skrúfa sem tók sjálfa sig ekki of hátíðlega eins og öll sem fyrir voru í deildinni. Það var greinilegt um leið og hún byrjaði að hún kunni sitt fag aftur á bak og áfram. Hún kom með sínar dásamlegu samsæriskenningar, sínar sterku skoðanir og sitt fallega fas inn í kennslustofuna og inn í samstarfið okkar og heillaði ekki bara samstarfsfólk heldur alla nemendur sína upp úr skónum. Hún var alltaf svo hlý og nærgætin og vildi krökkunum svo ótrúlega vel og það var ekki skrýtið að þau elskuðu hana öll.
Það er ömurlegt að hugsa til þess að fá ekki að sjá hennar bjarta bros, heyra hennar yndislega hlátur eða fá stórkostlegan fróðleik um veganisma, tónlist eða hvaðeina sem greip hug hennar hverju sinni. Skrýtnu brandararnir, nýjustu fréttir frá „The Onion“ og dásamlegu raddskilaboðin munu ylja okkur og fá okkur til að hugsa til elsku Hjördísar sem við munum alltaf sakna.
Við vottum fjölskyldu og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.
Enskudeild Borgarholtsskóla,
Ásta Laufey, Sólrún Inga, Íris Rut, Páll Jakob,
Guðmundur og Martyna.
Hvernig kem ég því í orð að manneskja sem var mér svo ofboðslega kær hafi orðið bráðkvödd heima hjá sér? Engin orð ná utan um þetta. Núna eru tvær vikur liðnar síðan og ég er loksins kominn aftur heim eftir að hafa verið erlendis í vinnuferð – því er þetta að dembast yfir mig núna af ógnarkrafti. Tómleikinn er verulegur. Ég fæ ekki lengur sendar alls konar pælingar og hugmyndir frá henni. Fæ ekki lengur óvæntar símhringingar á hinum ýmsu tímum dagsins, fæ heldur ekki löng talskilaboð í bland við alls konar grín sem hún átti til að senda mér í bunkum. Svo var það helvítis talandi páfagaukurinn sem hún var alltaf að senda mér. Ég skildi þann húmor aldrei almennilega – en mikið væri ég til í að fá frá henni einn svoleiðis núna.
Hjördís hafði svo margt til brunns að bera. Afburðaklár, kreatíf og fyndin. Falleg og sjarmerandi. Möguleikarnir hennar voru endalausir – þó svo að hún hafi ekki alltaf komið auga á það sjálf.
Vinátta okkar kom til á furðulegan hátt. Einn daginn byrjuðum við bara að spjalla saman, eiginlega bara upp úr þurru. Undangengin tvö ár þá spjölluðum við nokkurn veginn alla daga. Við höfðum bæði gengið í gegnum sambandsslit á svipuðum tíma og sóttum því styrk hvort til annars og svo þróaðist það bara þaðan. Okkar í milli ríkti mikið traust og úr varð raunveruleg vinátta sem er alls ekki sjálfsagður eða sjálfgefinn hlutur þegar fólk er ekki lengur á táningsárum. Hún kom með birtu og hlýju inn í líf mitt á tíma þar sem flest var dimmt og kalt. Ég mun alltaf vera henni þakklátur fyrir það. Vonandi náði ég að einhverju leyti að gera slíkt hið sama fyrir hana.
Það að hún hafi fallið frá núna er svo sárt, því þótt það hafi ýmislegt verið búið að ganga á þá leið mér raunverulega eins og nýr kafli væri hafinn hjá henni. Hún var nýflutt og var búin að koma sér virkilega vel fyrir. Hún var farin að horfa fram á við og setja sér spennandi markmið. Ég ætlaði að bakka hana eins mikið upp og ég mögulega gæti því ég var sannfærður um að hún væri á leiðinni í hárrétta átt.
Það er svo margt sem ég get sagt og langar að segja en ég læt staðar numið hér. Eftir sitja börnin hennar tvö, Hrafnkell og Unnur Lóa, sem nú syrgja móður sína og hugur minn er fyrst og fremst með þeim.
Elsku Hjördís mín. Ég mun aldrei gleyma þér. Þú munt alltaf eiga þinn stað í hjarta mínu. Sjáumst hinum megin þegar þar að kemur.
Snorri Barón Jónsson.
Hjördís var vinkona mín. Hún var án efa ein áhugaverðasta manneskja sem ég kynnst yfir ævina. Okkar tenging var fyrst og fremst í gegnum tónlist, allt frá því að ég kynntist henni á menntaskólaárunum fram til ferðar okkar (og Guðrúnar konu minnar) til Stokkhólms að sjá Taylor Swift í maí síðastliðnum. Ég veit hversu mikið Taylor Swift skipti Hjördísi máli síðasta áratuginn og sérstaklega síðustu árin í gegnum ýmsa erfiðleika sem hún var að kljást við. Menningin, í öllu sínu veldi, græðir og þetta skildi Hjördís mjög vel.
Hjördís var mér alltaf mjög kær og það sem ég syrgi mest er hversu auðvelt mér þótti að tengja við hennar upplifun og heimssýn og skipti þar engu hvort við værum fullkomlega sammála eða ekki. Það var alltaf raunveruleg tenging milli okkar og tel ég að þetta hafi ekki bara átt við í mínu tilfelli; Hjördís átti einfaldlega mjög auðvelt með að tengjast fólki. Hún var opin, skilningsrík og hafði nánast „pitch-perfect“ skilning á kaldhæðni og hinu fáránlega í mannlegri tilvist. Þessu var auðvelt að laðast að og gaf samtölum okkar ákveðna ró og dýpt sem næst því miður oft ekki. Hjördís var falleg sál og ég sakna hennar, og alls þess sem hún var og stóð fyrir, rosalega mikið.
Ég hef hugsað sérstaklega mikið til barnanna hennar tveggja sem hún elskaði svo og vil votta þeim mína innilegustu samúð. Til fjölskyldu Hjördísar og vina, sem vita hversu sárt er að missa þessa einstöku konu: ég samhryggist.
Friðrik Sigurbjörn Friðriksson.
Ég er ein af mörgum sem voru svo heppnir að fá að kalla Hjördísi vinkonu sína. Við urðum vinkonur á öðru ári í menntaskóla og urðum fljótt algjörar samlokur. Við sátum saman í tímum, rúntuðum um bæinn langt fram á kvöld og sendum hvor annarri SMS þangað til við sofnuðum. Síðustu skilaboðin sem ég fékk flest kvöld voru eitthvert textabrot úr Pink Floyd-laginu Wish You Were Here.
Að hafa þekkt Hjördísi eru bæði forréttindi og lífsins gæfa. Þegar ég hugsa um menntaskólaárin er Hjördís alltaf þar. Fyndin atvik úr tímum, pulsubrauð með tómat og steiktum úr sjoppunni og allir morgnarnir sem Hjördís fékk pabba sinn til að keyra úr Breiðholtinu inn í Kópavog til að sækja mig svo ég myndi örugglega mæta á réttum tíma. Fyrir það er ég óendanlega þakklát, bæði henni og Þorgeiri.
Vinátta okkar var kraftmikil og brann hratt. Með tímanum leiddi lífið okkur hvora í sína áttina. Kærleikurinn var þó alltaf til staðar. Við fylgdumst hvor með annarri úr fjarska og föðmuðumst innilega þegar við hittumst á förnum vegi. Ég hélt þó alltaf að við myndum finna hvor aftur á einhverjum tímapunkti. Mögulega gamlar og gráar. „We're just two lost souls swimming in a fishbowl, year after year.“ Ég hélt að við myndum synda aftur saman.
Hjördís var penninn og listakonan, tónlistin í lífinu mínu. Það er erfitt að koma því í orð hversu gjörsamlega stórkostleg hún var. Hún bjó yfir einhverjum lífskrafti sem var sterkri og stærri en allra. Hún var svo klár og fyndin og með svo gott hjarta. Hún breiddi verndarvæng yfir þá sem hún elskaði.
Síðustu daga hefur hugur minn verið með þeim sem stóðu henni næst, foreldrum hennar, börnunum, systkinum og vinum. Ég votta þeim mína dýpstu samúð á þessum erfiða og ósanngjarna tíma.
Sigurlaug Lísa
Sigurðardóttir (Sissa).