Mikilvægt er að fram fari heildarmat á skattalegum afleiðingum búferlaflutninganna

Lögfræði

Magnús Óskarsson

Lögmaður með málflutningsréttindi í New York-ríki og hæstaréttarlögmaður hjá Lögmáli ehf.

Margir Íslendingar kjósa að eyða elliárunum erlendis, en það getur haft áhrif á skattlagningu lífeyristekna þeirra, bæði hér á landi og í búsetulandi. Íslendingur sem hefur unnið alla starfsævina hér á landi getur átt rétt á töluverðum greiðslum frá íslenskum lífeyrissjóðum. Bæði getur það verið úr samtryggingarsjóði og séreignarsjóði. Flest lönd skattleggja tekjur þeirra sem þar búa, þ.e. hafa skattalega heimilisfesti í ríkinu. Það er m.a. meginregla hér á landi. En hér eru einnig skattlagðar greiðslur sem menn búsettir erlendis fá frá íslenskum aðilum, m.a. lífeyrisgreiðslur. Ef ekkert væri að gert gætu þessar reglur leitt til þess að Íslendingur sem er búsettur erlendis en þiggur lífeyrisgreiðslur frá íslenskum lífeyrissjóði sé skattlagður bæði hér á landi og þar sem hann býr.

Meðal annars vegna slíkra vandamála og mögulegrar tvísköttunar af öðru tagi hefur Ísland gert gagnkvæma tvísköttunarsamninga við ýmis ríki. Flestir þeirra eru með svipuð fyrirmæli um skattlagningu lífeyristekna milli ríkja þótt þau þurfi ekki endilega að vera eins. Flestir tvísköttunarsamningar Íslands byggjast á fyrirmynd OECD, en samningurinn við Bandaríkin byggist á sérstöku líkani Bandaríkjamanna, þótt líkt sé að miklu leyti.

Tvísköttunarsamningar gera yfirleitt greinarmun á uppruna lífeyristekna. Annars vegar er mælt fyrir um að eftirlaun og annað svipað endurgjald vegna fyrri starfa skuli einungis skattlagt þar sem viðkomandi býr, þ.e.a.s. þar sem hann hefur skattalega heimilisfesti. Almennt myndu lífeyrisgreiðslur og annað svipað endurgjald falla undir þetta. Meginrökin fyrir þessari reglu eru að einstaklingar þiggja einkum opinbera þjónustu þar sem þeir búa og því sé eðlilegt að þar greiði þeir skatta. Jafnframt eru líkur á að það ríki hafi meiri yfirsýn yfir skattamál viðkomandi og heildartekjur og eignir og því best til þess fallið að ákveða hver skattlagningin skuli vera. Almenn beiting þessarar meginreglu um skattlagningu í heimilisfestisríki minnkar líka líkur á því að fólk þurfi að greiða skatta eða telja fram til skatts í fleiri en einu ríki.

Hins vegar er gerð undantekning að því er varðar eftirlaun sem greidd eru af opinberum aðilum eða sjóðum á vegum opinberra aðila. Undir það falla til dæmis yfirleitt tekjur úr almannatryggingarkerfinu, þ.e. greiðsla til ellilífeyrisþega úr almannatryggingakerfinu yrði skattlögð á Íslandi jafnvel þótt hann væri búsettur erlendis. Ögn vandasamara getur verið að ráða fram úr því hvort t.d. greiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins skuli skattleggjast hér á landi eða þar sem viðkomandi hefur skattalega heimilisfesti. Ástæðan fyrir þessari undantekningu að því er varðar greiðslur frá hinu opinbera eða sjóðum á vegum opinberra aðila er að það er til samræmis við þá reglu að laun vegna starfa eða þjónustu við ríki skulu skattlögð af því ríki. Sama regla er að meginreglu látin gilda um eftirlaun eða lífeyri vegna slíkra starfa. Til einföldunar mætti segja að mönnum þyki t.d. óeðlilegt að erlent ríki leggi skatt á launagreiðslur eða lífeyri sem Íslendingur fær frá ríkissjóði Íslands.

Ef menn hyggjast flytja utan til að njóta lágra eða engra skatta af lífeyri er þó að ýmsu að hyggja. Mikilvægt er að fram fari heildarmat á skattalegum afleiðingum búferlaflutninganna. Þótt lífeyrisgreiðslur séu lítið eða ekkert skattlagðar og loftslagið sé gott segir það ekki alla söguna. Skoða þarf skattaleg áhrif fyrir hvern og einn. Ef viðkomandi á t.d. miklar eignir eða gerir ráð fyrir miklum fjármagnstekjum getur eignaskattur eða skattur á fjármagnstekjur í viðkomandi landi gjörbreytt útkomunni þótt lífeyrisgreiðslurnar séu lítið skattlagðar í nýju landi. Einnig er mikilvægt að um sé að ræða raunverulega búferlaflutninga en ekki aðeins skráningu á lögheimili erlendis til málamynda og í því sambandi að gætt sé að því að dvelja í viðkomandi landi lengur en 183 daga á hverju ári.