Hrönn Pálsdóttir fæddist í Reykjavík 4. apríl 1955. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. september 2024.

Foreldrar hennar voru Páll Helgason vélsmiður frá Patreksfirði, f. 26. maí 1928, d. 21. janúar 2001, og Jónína Jakobsdóttir húsfreyja frá Hnífsdal, f. 19. júní 1927, d. 23. desember 1995.

Hrönn ólst upp á Þinghólsbraut 54 í Kópavogi með foreldrum sínum og systkinum, þeim Guðbjörgu Helgu, f. 7. maí 1952, og Helga Arent, f. 7. mars 1961, d. 5. apríl 2015. Hann var ógiftur og barnlaus.

Maki Helgu er Guðlaugur Valgeirsson, f. 6. desember 1953, og eru þeirra börn Páll, Valgeir, Árni Arent og Kristín Lórey.

Eftirlifandi maki Hrannar er Egill Helgi Kristinsson, f. 15. febrúar 1954, en þau gengu í hjónaband árið 1974. Synir Hrannar og Egils eru Elvar Ingi, f. 29. október 1973, og Ingi Páll, f. 9. mars 1976, d. 24. janúar 1994.

Hrönn var Kópavogsbúi í húð og hár. Búskap sinn hófu þau Egill á Þinghólsbrautinni með syni sína tvo í húsi foreldra Hrannar en fluttu fljótlega í eigin íbúð í Ástúni í austurbæ Kópavogs þar sem þau bjuggu í 40 ár eða allt þar til þau fluttu í íbúð fyrir eldri borgara á Kópavogsbraut við Sunnuhlíð fyrir fjórum árum. Þar undu þau hag sínum mjög vel.

Helsta yndi Hrannar var að sækja tónleika og leikhús og voru þær ófáar ferðirnar sem hún fór með Elvari syni sínum á slíkar skemmtanir. Hún naut þess að ferðast, innanlands og utan, með manni sínum.

Hrönn var mjög félagslynd og hafði á sl. árum unun af félagsskap eldri borgara í Kópavogi, fyrst í Gjábakka og síðar í dagdvöl í Sunnuhlíð. Í Gjábakka urðu margir fallegir munir til í höndum Hrannar, sem hún gaf til ættingja og vina.

Hrönn glímdi við ættgengan vöðvarýrnunarsjúkdóm alla ævi sem hafði áhrif á hennar lífsgæði og möguleika til náms og starfa. Af mikilli seiglu og dugnaði í bland við mikla ákveðni og þrjósku náði hún að njóta þess sem lífið bauð þar til fyrir nokkrum mánuðum er hún var lögð inn á Landspítalann í Fossvogi 17. júní sl., þaðan sem hún átti ekki afturkvæmt í Kópavoginn.

Útför Hrannar verður gerð frá Kópavogskirkju í dag, 2. október 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku hjartans systir mín er dáin, komin til himna á góðan stað þar sem verður vel tekið á móti henni. Hún var alltaf elskuleg og góð. Á meðan heilsa leyfði og þegar hún keyrði, þá kom hún oft í heimsókn og fylgdist með barnabörnunum mínum þegar þau voru hjá mér. Hún rétti þeim stundum peningaseðil og þau voru ánægð og knúsuðu hana, svo gaf hún þeim líka jóladagatöl þegar þau voru lítil. Ég var oft með eitthvað með kaffinu, vöfflur og svoleiðis, hún kunni að meta þetta. Það var alltaf gott að koma heim til hennar og Egils, sitja hjá þeim og spjalla, það voru góðir andar heima hjá þeim, manni leið alltaf vel eftir að hafa verið hjá þeim, svo mikil ró yfir öllu.

Þegar Hrönn og Egill voru ung með tvo drengi keyptu þau íbúð í Ástúni 14 og bjuggu þar alveg þangað til Hrönn gat ekki farið tröppurnar, það voru 40 ár. Hún hélt alltaf að hún gæti meira en hún gat, þá voru einhver skipti að hún valt niður tröppurnar og niður á næsta pall. En hún gafst aldrei upp, hélt alltaf áfram þar til þetta var ekki hægt lengur. Eftir eitt skiptið fór hún á spítala og svo upp á Reykjalund, hún var brotin og meira. Eftir að hún kom heim þaðan keyptu þau íbúð að Kópavogsbraut 1B, þar þurfti hún ekki að fara neinar tröppur og gat labbað beint inn. Hún hafði aðeins búið þar í fjögur ár.

Elsku systir mín var mjög félagslynd og leið vel innan um fólk. Hún mætti alltaf í Gjábakka, félagsmiðstöð fyrir eldri borgara og borðaði þar í hádeginu og tók þátt í félagsstarfi. Hún var í postulínsmálun og svo saumaði hún út í myndir og púða. Svo kenndi ég henni að hekla barnateppi, hún gerði nokkur svoleiðis og gaf þau, hún gaf næstum allt sem hún gerði. Svo var hún komin á dagdeildina í Sunnuhlíð, þar var hún ánægð og leið vel. Hrönn var á spítala frá því í apríl, hún kom eitthvað heim, var kannski heima í einhverja daga eða bara yfir nótt, kannski yfir helgi, hún var mikið í sjúkrabílum fram og til baka. Eitt skiptið kom hún heim, kom sér heim sjálf, hún pantaði sér tíma í hárlitun og fór í hárlitun upp í Gjábakka, Egill fylgdi henni, þau voru alltaf svo góð hvort við annað. Ég kom svo til hennar þegar hún var komin heim, hún alsæl að vera heima, ég tók þá þessa mynd af henni sem er hér að ofan, þetta er síðasta myndin af henni heima, svo fór hún aftur á spítalann í sjúkrabíl, hún kom ekki heim aftur. Næstu mánuðir voru erfiðir, það var búið að vera mikil sorg í mér hvernig henni hefur hrakað, þetta hefur tekið mikið á mig að horfa á hana svona. Svo lést hún á sunnudagsmorgun 15. september um sjöleytið, ég, Egill maðurinn hennar og Svandís vinkona hennar fórum upp á spítala og kvöddum hana. Hrönn var með sjaldgæfan ættgengan vöðvarýrnunarsjúkdóm allt sitt líf.

Elsku Egill og Elvar, ég sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur, missir ykkar er mikill. Ég kveð þig núna með þessari bæn:

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson
frá Presthólum)

Þín systir,

Helga.

Kær vinkona mín hefur yfirgefið þessa jarðvist eftir hetjulega baráttu við ættgengan, illvígan sjúkdóm og haldið af stað yfir í sumarlandið þar sem Ingi Páll hennar, Helgi bróðir, foreldrar og amma Klásína hafa breitt út faðminn á móti henni.

Við Hrönn eigum okkur langa og góða sögu, sem spannar rúma hálfa öld og hófst með vinskap foreldra okkar sem voru nágrannar á Kársnesinu til áratuga. Við byrjuðum ungar að leika okkur saman og hugmyndaauðgi Hrannar við að finna upp á leikjum var mikil. Þar stendur skrifstofuleikurinn upp úr enn hann kallaði á ferðir með strætó inn í Reykjavík, í prentsmiðju Gutenberg í Þingholtsstræti eftir pappír, sem við fengum þar gefins í leikinn.

Hrönn kunni að njóta lífsins og hafði einstakt yndi af því að fara í leikhús, á tónleika og að ferðast utanlands sem innan og þá keyrði hún gjarnan vestur á Patró á sumrin og heimsótti ættingja í föðurætt. Þau Elvar Ingi, sonur Hrannar, voru einstaklega dugleg við að sækja alls kyns viðburði og hikuðu ekki við að fara aftur og aftur á þær sýningar sem þeim þóttu sérstaklega skemmtilegar og þar var ABBA-sýningin í sérstöku uppáhaldi. Þá sóttu þau Vinabæ í mörg ár, spiluðu bingó af list og komu oftar en ekki heim með góða vinninga.

Hrönn átti sínar bestu stundir í félagsskap við aðra og þegar árin færðust yfir naut hún samvista við Kópavogsbúa í félagsstarfinu í Gjábakka þar sem hún vann marga fallega gripi í postulínsmálun á meðan styrkurinn í höndunum var nægur og færði ættingjum og vinum. Ég er svo heppin að eiga nokkra slíka sem bera vandvirkni hennar og umhyggju gott vitni. Síðustu árin, þegar þau Egill fluttu sig aftur yfir í vesturbæinn úr Ástúninu eftir fjörutíu ára búsetu þar og bjuggu sér heimili á Kópavogsbraut við Sunnuhlíð, komst hún í góðan félagsskap í dagdvölinni í Sunnuhlíð og hlakkaði til þess á hverjum degi að hitta þar fólkið og gott starfslið, sem studdi vel við hana. Hrönn hélt áfram að sækja Sunnuhlíð og þótt líkamlegur þróttur hafi dvínað mjög síðastliðið ár lét hún það ekki aftra sér því þessi samvera gaf lífi hennar gildi.

Ég á eftir að sakna samverustunda með vinkonu minni en veit að hún var orðin þreytt og eflaust hvíldinni fegin að lokum, eftir svo hetjulega baráttu að jafnvel læknar og hjúkrunarfólk var gáttað á seiglunni í henni. Það góða fólk á þakkir skildar fyrir góða umönnun síðastliðna mánuði. En þar var Hrönn einmitt rétt lýst, því hún skyldi ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana.

Ég kveð þig, Hrönn mín, með innilegu þakklæti fyrir okkar góða vinskap með sálmi eftir pabba, sem þér þótti svo vænt um og baðst mig ávallt fyrir góðar kveðjur til hans.

Ég bið guð og allar góðar vættir að taka utan um Egil og Elvar Inga og styrkja þá og styðja í sorginni. Ég mun líta til með þeim fyrir þig.

Þín leið er greið um veg til himins heima

heilsaðu þeim er ljúft þér rétta hönd.

Minningar allar margfalt skulum geyma,

meta og virða öll þín tryggðabönd.

Nú ertu sofnuð, dýrðina þig dreymi,

drottinn þig geymi, góða nótt.

(Ingimundur Guðmundsson)

Þín vinkona,

Svandís.