Jón Páll Halldórsson fæddist 2. október 1929 í lítilli kjallaraíbúð í Tangagötu 10 á Ísafirði. Hann fluttist síðan í Brunngötu 10, en sleit barnsskónum hins vegar í Hrannargötu 10, þar sem foreldrar hans keyptu íbúð árið 1934. Varð sú gata og fjörukamburinn fyrir neðan Fjarðarstrætið helsta leiksvæði Jóns Páls og systkina hans. Fyrir tilstuðlan Halldórs Sigurgeirssonar, nágranna þeirra í Sólgötu 7, gengu öll systkinin í Knattspyrnufélagið Hörð þar sem Halldór var þjálfari um árabil. Í ársbyrjun 1942 gekk Jón Páll til liðs við skátana, en tvö skátafélög störfuðu þá á Ísafirði, Einherjar og Valkyrjan. Varð það upphaf ævilangs skátastarfs þar sem Jón Páll gegndi ýmsum trúnaðarstörfum og var m.a. félagsforingi Einherja í 18 ár eða frá 1959 til 1976.
Að lokinni skólagöngu á Ísafirði fór Jón Páll í Verzlunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi vorið 1948. Sneri hann þá aftur heim og gerðist skrifstofustjóri hjá Togarafélaginu Ísfirðingi, afgreiðslumaður hjá Flugfélagi Íslands og fréttaritari Morgunblaðsins á Ísafirði. Eftir lok Togarafélagsins 1961 stýrði hann ýmsum fyrirtækjum, m.a. Fiskvinnslunni sem verkaði saltfisk, Féveski sem verkaði skreið og Sandfelli sem var innflutningsverslun. Árið 1969 var Jón Páll ráðinn framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Norðurtanga hf. og gegndi hann því starfi til ársins 1996 eða í rúman aldarfjórðung. Mikil uppbygging var í atvinnulífinu á Ísafirði á þessum tíma og Hraðfrystihúsið Norðurtangi eitt öflugasta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki landsins.
Jón Páll kynntist Huldu eiginkonu sinni fyrst fimm ára gamall þegar hann dvaldi með móður sinni sumarlangt hjá vinafólki í Odda í Ögursveit. Hann hafði fótbrotnað stuttu áður og var settur í gifs sem ekki mátti stíga í. Þangað kom stundum í heimsókn ung stúlka frá Ögurnesi og rétti honum ítrekað hjálparhönd þar sem henni fannst hann svo umkomulaus að geta ekki leikið eins og hinir krakkarnir. Leiðir þeirra liggja svo ekki saman af alvöru fyrr en eftir heimkomuna úr Verzló og endar með brúðkaupi á sumardaginn fyrsta, 23.4. 1953. Þau hófu búskap í Grundargötu 6 og haustið 1958 fluttu þau í nýbyggt einbýlishús á Engjavegi 14, þar sem þau bjuggu alla tíð síðan. Engjavegurinn og sumarhúsið Trostan í Trostansfirði varð samverustaður þeirra þar til Hulda féll frá á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 2018.
Þökk sé dyggum stuðningi Huldu gat Jón Páll sinnt öllum þeim fjölmörgu viðbótarstörfum sem hann tók sér fyrir hendur eins og trúnaðarstörfum fyrir samtök og fyrirtæki sjávarútvegsmanna og hraðfrystihúsiðnaðarins. Átti hann m.a. sæti í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, var stjórnarformaður Icelandic Freezing Plants Ltd. í Grimsby, varafiskimálastjóri, í stjórn Sambands almennra lífeyrissjóða, formaður Verslunarmannafélags Ísafjarðar og formaður Vinnuveitendafélags Vestfjarða. Þá var Jón Páll vararæðismaður Svíþjóðar á Ísafirði og hlaut á sínum tíma riddarakross sænsku norðurstjörnunnar. Hann hefur einnig verið sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og heiðursmerkjum skátahreyfingarinnar.
Jón Páll tók þátt í bæjarmálum á Ísafirði og sinnti þar öðru fremur menningar- og menntamálum. Hann sat í nefnd sem undirbjó stofnun Menntaskólans á Ísafirði og síðan í bygginganefnd skólans. Þá átti hann lengi sæti í húsafriðunarnefnd Ísafjarðar og var formaður stjórnar Byggðasafns Vestfjarða frá 1968 til 1996. Á þeim vettvangi barðist hann ötullega fyrir friðun gömlu húsanna í Neðstakaupstað og að þar yrði aðsetur Byggðasafnsins til framtíðar. Jón Páll er heiðursfélagi Sögufélags Ísfirðinga þar sem hann hefur verið félagsmaður frá því að félagið var stofnað árið 1953. Hann var kosinn í stjórn árið 1960 og sat sem formaður 1979-2006 þegar hann ákvað að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Jón Páll hefur alla tíð borið hag Sögufélagsins fyrir brjósti og starfsemi þess verið honum hugleikin, ekki síst útgáfa ársritsins sem hefur komið út reglulega frá árinu 1956. Jón Páll átti sæti í Hrafnseyrarnefnd í rúman aldafjórðung.
Eftir að Jón Páll lét af starfi framkvæmdastjóra Norðurtangans hf. árið 1996 settist hann að fræðagrúski og ritstörfum sem hann stundaði af miklu kappi og hafði fyrr en varði skilað af sér fimm bókum sem Sögufélag Ísfirðinga gaf út. Fjalla þær mest um ísfirska atvinnusögu og leynist engum yfirgripsmikil þekking höfundar á viðfangsefninu. Vart þarf að geta þess að fjöldinn allur af greinum og ritgerðum liggur eftir Jón Pál um ýmis mál, allt eftir því hvað verið var að fást við hverju sinni.
Á síðastliðnu ári voru Jón Páll og Gunnlaugur Jónasson gerðir að heiðursfélögum hjá Rótarýhreyfingunni á Ísafirði. Þann 30. mars síðastliðinn útnefndi bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar Jón Pál Halldórsson heiðursborgara Ísafjarðarbæjar fyrir mikið og óeigingjarnt starf hans í þágu menningarmála, ekki síst framlag hans til varðveislu héraðssögu og menningarsögulegra verðmæta, sem talið er ómetanlegt. Þá er Jón Páll einnig talinn verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem vann hörðum höndum að uppbyggingu bæjarfélagsins á 20. öld og mótaði það samfélag sem Ísfirðingar byggja á í dag.
Fjölskylda
Eiginkona Jóns Páls var Hulda Pálmadóttir, f. 16.9. 1927 í Ögurnesi, húsfreyja og læknaritari, d. 30.10. 2018. Foreldrar Huldu voru hjónin Guðfinna Andrésdóttir húsfreyja, f. 7.5. 1894 á Blámýrum, d. 3.12. 1975 á Ísafirði, og Pálmi Gunnar Gíslason, útvegsbóndi í Ögurnesi og síðar verkamaður á Ísafirði, f. 2.6. 1902 á Bæjum á Snæfjallaströnd, d. 19.7. 1976 á Ísafirði.
Börn Huldu og Jóns Páls: 1) Halldór, f. 19.5. 1954, bæklunarlæknir og prófessor emeritus, kvæntur Maríu Guðnadóttur, búsett í Garðabæ. Börn: a) Ingibjörg María, f. 1976, gift Ómari Líndal Marteinssyni. Börn: María Björk, Mikael Bjarki, Mattías Bjarmi og Markús Berg. b) Hulda, f. 1978, gift Birki Má Kristinssyni. Börn: Eva Rakel, Tindur Elí og Elín María. c) Heiðdís, f. 1981, gift Guðmundi Víði Guðmundssyni. Börn: Ása Bryndís og Guðmundur Davíð. d) Helén, f. 1987, gift Gísla Erni Reynissyni Schramm, Barn: Max Manúel. e) Jón Páll, f. 1990, kvæntur Rebekku Logadóttur. Börn: Halldór og Ylfa Rakel. f) Davíð Guðni, f. 1993. 2) Guðfinna, f. 15.5. 1956, hjúkrunarfræðingur, gift Halldóri Jakobi Árnasyni, búsett í Kópavogi. Börn: a) Guðfinna, f. 1984, gift Sigurði Rúnari Ólafssyni. Börn: Hrafnhildur og Hilmir. b) Gunnar Páll, f. 1990. 3) Pálmi Kristinn, f. 7.1. 1960, vélfræðingur, kvæntur Jóhönnu Jóhannesdóttur, búsett á Ísafirði. Börn: a) Arnar, f. 1986, d. 2019, kvæntur Kristínu Ólafsdóttur. Börn: Ólafur Ernir og Einar Atli. b) Jón Guðni, f. 1990, kvæntur Kristínu Gretu Bjarnadóttur. Börn: Hólmfríður, Daníela og Ásthildur Arna. c) Hulda, f. 1998, í sambúð með Vilmundi Róberti Reimarssyni. Barn: Móeiður Anna.
Systkini Jóns Páls voru: Una, f. 12.8. 1931, d. 5.11. 2000, saumakona í Reykjavík; Guðmundur, f. 21.1. 1933, d. 30.6. 2022, sjómaður í Bolungarvík; Ólafur Bjarni, f. 12.12. 1933, d. 23.5. 1939 af slysförum; Ólafur Bjarni, f. 12.10. 1944, fv. framkvæmdastjóri, búsettur á Ísafirði.
Foreldrar Jóns Páls voru hjónin Halldór Jónsson, f. 28.4. 1890, d. 5.11. 1981, sjómaður og verkamaður, og Kristín Svanhildur Guðfinnsdóttir, f. 6.12.1907, d. 16.5. 1982, húsfreyja.