Seðlabankinn kynnti í síðustu viku reglulega skýrslu sína um fjármálastöðugleika. Nokkur umræða varð eftir fundinn hvort bankinn væri að horfa á réttu rauntímagögnin þegar hann er að meta stöðu almennings í núverandi vaxtaumhverfi. Innheimtufyrirtækin telja ekki. Bankinn heldur því fram að ekkert sé að hjá almenningi eða í öllu falli að hann ráði vel við ástandið. Sama kemur fram í viðtali við Hauk C. Benediktsson í ViðskiptaMogganum í dag og hann ítrekar að bankinn fylgist vel með.
Seðlabankastjóri lýsti reyndar yfir áhyggjum sínum af því sem hann kallar „brattar hækkanir“ viðskiptabankanna á verðtryggðum vöxtum íbúðalána. Eru þessar bröttu hækkanir ekki afleiðing af stýrivöxtum Seðlabankans sjálfs? Það var ekki einungis seðlabankastjóri sem gagnrýndi viðskiptabankana því leiðtogar verkalýðshreyfinga og einstaka alþingismenn stigu einnig fram. Þeir ættu kannski frekar að líta sér nær og horfa á útgjöld ríkisins, samspil þess við vinnumarkaðinn og almenna óráðsíu í flestum fjármálum ríkisins. Það er nokkuð sem almenningur raunverulega líður fyrir og seðlabankastjóri hefur einnig hnýtt í.
ViðskiptaMogginn hefur fjallað um gögn Motus og fleiri aðila sem sjá um innheimtu. Þar eru skýr merki um aukningu á vanskilum einstaklinga. Seðlabankinn sér ekkert í sínum gögnum sem bendir til að vanskil séu að aukast hjá einstaklingum en útilokar ekkert næstu mánuði. Þetta er ítrekað í samtali við ViðskiptaMoggann í dag. Eru þá slík gögn innheimtufyrirtækjanna marklaus? Líklegast er bankinn að vísa til þess, meðal annars, að afborganir almennings af húsnæði séu í lagi. Fastir vextir þar hafa verið að renna sitt skeið. Það þýðir því hærri afborganir lánanna og almenningur leitar í auknum mæli í verðtryggð lán.
Seðlabankastjóri lét hafa eftir sér á umræddum fundi að hækkun á húsnæðisverði væri nú úr sögunni og verðbólguhjöðnun blasi við. Stefna bankans virðist því vera að virka. Arion banki kynnti á dögunum Hagspá næstu ára og þar kemur fram það sama og seðlabankastjóri boðar; lækkun fasteignaverðs að raunvirði.
Í dag ákveður peningastefnunefnd Seðlabankans vaxtastig bankans á fundi sínum. Markaðsaðilar telja ólíklegt að vextir verði lækkaðir og því frekar að lækkun hefjist á fundi bankans í nóvember. Vonandi fer bankinn sömu leið og sá bandaríski og lækkar vexti um 50 punkta, taki hraustleg skref. Mjúk lending er markmiðið en stefnir því miður í að verða allhörð, eins og Már Wolfgang Mixa boðar í ViðskiptaMogganum í dag.