Hið ljúfa líf
Stefán Einar Stefánsson
ses@mbl.is
Pabbi kynnti fyrir mér málverkið af kartöfluætunum, sem Van Gogh málaði árið 1885. Það var ekki gert til þess að minna mig á að fólk hefði soltið á öldum áður. Miklu frekar nýtti hann þetta merka málverk til að kynna mig fyrir séra Birni Halldórssyni (1724-1794) í Sauðlauksdal og merkri sögu hans. Hann varð fyrstur Íslendinga til þess að setja niður kartöflur, og það í þessum dal sem hann er kenndur við. Pabbi hafði ríka ástæðu til að kynna mig fyrir kappanum; bæði vegna sögulegs áhuga og þeirrar staðreyndar að við átum talsvert af kartöflum. Ekki dró það úr að við bjuggum á Patreksfirði, beint gegnt Sauðlauksdal, sem liggur við fjörðinn sunnanverðan.
Þrátt fyrir uppfræðslu pabba, sem ég hef búið að bæði í listsögulegu tilliti og öðru, þá hef ég aldrei verið sérstakur áhugamaður um kartöflur. Raunar hef ég sporðrennt þessum sætu appelsínugulu á þeim forsendum að þær væru hollar, en ekki eru þær góðar. Áferðin, trénuð eins og hún er, afar óspennandi. Má ég þá heldur biðja um nýjan aspas til að svala þeim fýsnum!
Þó verð ég að viðurkenna að kartöflur eru ekki bara kartöflur. Íslendingar halda að rauðar slíkar og gullauga séu upphaf og endir kartöfluheimsins. En það er ekki rétt. Danir hafa fyrir löngu sannað það. Og þegar ég sæki gömlu herraþjóðina heim leyfi ég mér að minna mig á þá staðreynd. Kartöflur geta nefnilega verið annað og meira.
Nýverið átti ég leið til kóngsins Kaupmannahafnar (nú þegar Margrét hefur loksins látið af skyldustörfum sínum er þetta á ný orðið réttnefni). Verkefnið var að hlýða á frumsýningu Don Carlo í Kaupmannahafnaróperunni (meira um það síðar).
En á slíku ferðalagi þarf að matast, og það gerði ég. Ákvað ég, tvö hádegi í röð, að vísitera magnaða smurbrauðsstaði. Jakob yngri, vinur minn á Jómfrúnni, hefur fyrir löngu sigað mér á þessa staði. Hann veit sem er að þegar ég er staddur erlendis, þá borða ég ekki hjá honum. Því má ota mér út í alls kyns aðra vitleysu, og jafnvel til þeirra sem stunda sömu iðju og hann, daginn út og daginn inn.
Reykingin breytir öllu
Fyrri daginn sótti ég heim Aamanns 1921 við Niels Hemmingsens Gade 19-21. Hef ég raunar fjallað um heimsóknir á þann góða stað áður á þessum vettvangi (14. febrúar síðastliðinn). Þar komst ég í kartöflur – og þær eru engu líkar. Og af hverju er það? Jú, það er vegna þess að þær eru reyktar. Það breytir öllu, ofan á rúgbrauð, í bland við engiferrót og majónes. Ekki veit ég hvað Björn heitinn í Sauðlauksdal hefði gert ef hann hefði sporðrennt þessum með mér. En ég leyfi mér að trúa því að mikið og fölskvalaust bros hefði komið yfir andlit hans. Jafnvel hefðum við leyft okkur að tala um albínóa-krækiberin sem hann fann í dalnum góða þarna um árið. En um það náttúrufyrirbæri má víst ekki hafa hátt.
Og kannski var komið nóg af kartöflum í þessari ferð. En í síðbúnum hádegisverði datt ég inn á Schønnemann við Hauser Plads 16. Þar komst ég vissulega ekki hjá því að fá mér stórkostlegt hakkabuff sem þar er boðið upp á. En meðfram því, vegna ósegjanlegrar svengdar, gat ég smakkað enn á ný á reyktum kartöflum. Ekki voru þær síðri en á Aamanns. Og þær staðfestu líka að fyrrnefndi staðurinn var ekki undantekning. Kartöflur eru góðar. Bara hreint út sagt afar góðar.
Enginn tekur þjóninum Kim fram. Hann hefur um langan aldur starfað á Schønnemann. Hann lyfti upplifuninni af staðnum á annan stall. Maður er heppinn ef hann er á vakt. Hann bauð mér upp á íslenskan snafs. Sagði hann raunar svo vondan að engum hefði dottið í hug að kaupa hann í tvö ár. Þá var ágætt að láta Íslendinga eyða sönnunargögnum.
Djöfullinn er ekki danskur. En hann kann að elda kartöflur. Það gerir heiminn örlítið betri fyrir vikið.