Listamaðurinn „Það er algjörlega búið að negla það niður að stofnanir virka ekki fyrir mig.“
Listamaðurinn „Það er algjörlega búið að negla það niður að stofnanir virka ekki fyrir mig.“ — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Afglöp er yfirskrift myndlistarsýningar Jökuls Helga Sigurðssonar í Gallery Kontor Hverfisgötu. Á sýningunni eru stórar myndir af karakterum. „Ég byrja að mála verk mín með bleki, færi mig svo yfir í akrýl blandaðan með vatni og næ þannig að mynda fyrstu lögin af bakgrunni

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Afglöp er yfirskrift myndlistarsýningar Jökuls Helga Sigurðssonar í Gallery Kontor Hverfisgötu. Á sýningunni eru stórar myndir af karakterum.

„Ég byrja að mála verk mín með bleki, færi mig svo yfir í akrýl blandaðan með vatni og næ þannig að mynda fyrstu lögin af bakgrunni. Ég set síðan málningarlögin hvert ofan á annað. Síðan bæti ég við karakterunum og svipbrigðum þeirra. Þegar ég er búinn að fara tíu til tuttugu sinnum ofan í upprunalegu myndina fer ég fyrst að sjá lokaútkomuna og byrja að róa til lands. Um leið er ég búinn að sópa upphafspunktinum út af borðinu,“ segir Jökull Helgi. „Ég hætti ekki með málverkið fyrr en ég er sjálfur orðinn sáttur og ég verð ekki sáttur fyrr en ég er kominn með það sem ég þekki úr minni persónulegu reynslu.

Fólk segist sjá vini sína í myndunum og fer um leið að tengjast verkinu. Það er frábært því þá er það áhorfandinn sem býr til sína eigin sögu út frá sinni eigin upplifun á lífinu.“

Í samtali við Jökul Helga um myndlist opinberast mikil aðdáun hans á listamönnum endurreisnarinnar. „Ég er alltaf að dásama endurreisnarmálverkin og portrett þess tíma. Karakterar mínir eru persónur í mannkynssögunni. Hver og ein persóna í þessum málverkum er samsett af tugum mismunandi persóna.

Í myndlist minni leita ég í mannkynssöguna, en um leið er ég að fjalla um tíðarandann og fréttir dagsins. Þetta er hringiða en á sama tíma er ég ekki með pólitískan boðskap. Ég forðast að fara of mikið út í pólitík eða sögu af því ég vil ekki predika.“

Ekki hrifinn af stofnunum

Hann lærði í Myndlistarskólanum í Reykjavík og fór síðan í Listaháskólann í Reykjavík en útskrifaðist ekki. „Margvíslegar ástæður urðu til þess að ég útskrifaðist ekki. Listaháskólinn er góður skóli og þar eru fínir kennarar en maður er ekki í myndlist fyrir neinn annan en sjálfan sig.

Það er algjörlega búið að negla það niður að stofnanir virka ekki fyrir mig. Ég er mjög frjáls og í uppreisn. Guðmundur Oddur (Goddur) var einn af þeim fyrstu sem sögðu mér að það væri allt í lagi að vera í uppreisn og að ég ætti að halda því áfram.

Ég hef alltaf efast um að það sé einhver ein leið í lífinu, því það er alls konar og svo margslungið. Leiðirnar eru margar, þótt maður kannski endi síðan í þessu klassíska formi. Sjálfur er ég til dæmis orðinn fjölskyldumaður, með konu og barn.“

Þakkar foreldrunum

Sigurður Árni Sigurðsson, sem er í hópi þekktustu núlifandi myndlistarmanna þjóðarinnar, er faðir hans. Leitar Jökull Helgi ráða hjá honum varðandi málverkið eða er hann í uppreisn gegn hans aðferðum?

„Hann er með sín vísindi á bak við sig og mentora frá Frakklandi, sem eru ígrundaðir í bæði konsept- og flúxusstefnunni og alls konar módernískum pælingum. Að sjálfsögðu er ég í rosalegri uppreisn gagnvart þessu.

Ég leita ekki ráða hjá honum en spyr samt stundum: Hvað finnst þér um þetta? Hann er allaf gagnrýninn, sem mér finnst mjög gott.“

Móðir Jökuls Helga er Katrín Ólína Pétursdóttir hönnuður. „Ég passa mig á því að leita ekki of mikið til hans og móður minnar þegar kemur að minni listsköpun. Ég þakka foreldrum mínum einna mest fyrir að hafa ekki reynt að hafa áhrif á að ég helgaði mig lífi myndlistarmannsins. Þau hefðu gjarnan viljað að ég yrði læknir eða lögfræðingur, eitthvað allt annað en listamaður.“

Sýning Jökuls Helga í Gallery Kontor stendur til 13. október.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir