Steingrímur Óli Fossberg Andrésson fæddist 1.7. 1988 í Neskaupstað og lést 19.9. 2024 á Eskifirði.
Foreldrar hans eru Andrés Kolbeinn Steingrímsson, f. 9.12. 1965 og Hulda Kristín Fossberg Óladóttir, f. 24.10. 1969, búsett á Eskifirði.
Systkini hans eru: Hjördís Bára Fossberg Andrésdóttir, f. 30.9. 1991 og Ægir Óli Andrésson, f. 15.1. 1987. Börn Hjördísar eru Tómas Steinn Fossberg Sindrason, f. 29.10. 2011 og Andrea Íris Fossberg Ástþórsdóttir, f. 5.2. 2016. Steini á tvær dætur með Sigrúnu Jóhannsdóttur, þær heita Anna Kristín Fossberg Steingrímsdóttir, f. 9.5. 2015 og Selma Líf Fossberg Steingrímsdóttir, f. 18.4. 2020.
Foreldrar Andrésar voru Steingrímur Kolbeinsson, f. 21.4. 1944, d. 5.7. 2006 og Hjördís Arnfinnsdóttir, f. 5.3. 1943, d. 2.6. 2014. Foreldrar Huldu voru Óli Fossberg Guðmundsson, f. 13.5. 1936, d. 18.9. 2010 og Bára Guðmundsdóttir, f. 3.9. 1936, d. 24.7. 2019.
Steingrímur ólst upp á Eskifirði og gekk í Grunnskóla Eskifjarðar, hann lærði smíðar við Verkmenntaskóla Austurlands og útskrifaðist 2008, hann lauk sveinsprófi í smíðum. Hann starfaði við smíðar og sjómennsku þangað til hann lést.
Jarðarför hans fer fram í Eskifjarðarkirkju í dag, 2. október 2024, kl. 14, henni verður streymt á facebook-síðu Eskifjarðarkirkju. Slóð á streymi: http://mbl.is/go/u8scy
Elsku besti Steini okkar, hér sitjum við að reyna að koma niður orðum um þig, það er svo ótrúlega óraunverulegt að þurfa að skrifa minningargrein um þig, allir sem þig þekktu vita hversu ótrúlega hress og skemmtilegur þú varst alltaf en við í innsta hring fengum að kynnast því aðeins hvernig þér leið í raun og veru. Það er gott að vita að þú sért búinn að fá hvíldina sem þú þráðir en samt svo erfitt fyrir okkur að þurfa að halda áfram án þín. Það er endalaust hægt að rifja upp sögur um þig og ævintýrin sem þú fórst með okkur í, við eigum eftir að sakna þess að fá þéttu faðmlögin frá þér, kitlið, símtölin og fíflaskapinn, þú hikaðir ekki við að hringja og drösla manni á lappir til að fara í kaffi til mömmu og pabba.
Þú varst svo ótrúlega góður pabbi og bróðir, þú vildir alltaf að öllum í kringum þig liði vel, þú hefðir gefið okkur allan heiminn ef þú gætir. Við munum gera allt sem við getum til að rifja upp minningar um þig við Önnu og Selmu, við munum reyna allt í okkar valdi til að þeim líði vel og aðstoða þær með allt sem þær þurfa. Við pössum öll upp á hvert annað og vitum að þú munt passa upp á okkur að ofan. Þangað til næst, elsku bróðir.
Hjördís Bára og Ægir Óli.
Elsku Steini.
Orð fá því ekki lýst hvað ég á eftir að sakna þín, þú skildir eftir stórt skarð í hjarta mínu sem enginn mun uppfylla. Ég gleymi aldrei þegar þú komst þegar ég og Daði bróðir minn vorum lítil og fórst með okkur út að gera ýmislegt skemmtilegt, eins og fjöruferðir með Esju hundinum þínum, við köstuðum priki og létum Esju sækja það. Þú varst minn uppáhaldsfrændi og hafðir alltaf tíma fyrir mig. Þú varst alltaf tilbúinn að tala við mig og hlusta á mig. Þú varst einstaklega stríðinn og hafði gaman af því að stríða mér. Þú kenndir mér að taka lífinu ekki of alvarlega og hafa gaman af því. Það er svo ótal margs að minnast, ég ætla að halda minningu þinni á loft, á svo ótal margar sögur að segja stelpunum þínum. Ég mun sakna þín að eilífu, sárin munu aldrei gróa en ég reyni að lifa með því að hafa misst þig. Mun alltaf elska þig.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Þín frænka,
Thelma Fossberg.
Elsku Steini frændi, minningarnar eru ótalmargar. Takk fyrir allar þær stundir sem þú nenntir að eyða með okkur litlu frændum þínum. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur þegar okkur vantaði einhvern til að tala við. Það er mestmegnis þér að þakka hversu spenntir við urðum alltaf yfir jólamatnum af því við vissum að við fengjum rjúpur frá þér. Það skipti ekki máli hvað var í gangi hjá okkur, það var ekki hægt annað en að labba frá þér með bros á vör. Færðir okkur öllum mikla gleði. Það eru ekki til nógu mörg orð til að lýsa því hversu geggjaður þú varst. Hvíldu í friði. Við vitum að þú passar upp á okkur ofan frá. Takk fyrir allt.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin, sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Stefán Bjarki og Daníel Þór.
Það var mér mikið áfall að fá þær fréttir að elsku Steini minn hefði kvatt þennan heim alltof ungur. Þú skilur eftir stórt skarð í stórfjölskyldu okkar sem enginn kemur til með að fylla. Það er svo sárt að hugsa til þess að þú komir ekki oftar í heimsókn til okkar; fá frá þér þitt fasta og þétta faðmlag og koss á kinn, þú varst einfaldlega bestur. Þú passaðir vel upp á þitt fólk og vildir alltaf að öllum liði vel, það birti upp þegar þú varst í návist okkar. Þú varst svo mikill grallari þegar þú varst lítill og varst alltaf að brasa eitthvað og hafðir alltaf nóg fyrir stafni. ég get aldrei fullþakkað þér hvað þú varst alltaf góður við Jóhann, Thelmu og Daða, þau litu svo upp til stóra frænda. Alltaf leyfðir þú Jóhanni að vera með þér þegar hann var lítill, og passaðir þú hann oft fyrir okkur, og þegar Jóhann var orðinn eldri þá smitaðir þú hann af skotveiði, þegar Jóhann kom austur núna í byrjun september til að fara með þér á gæs, ekki óraði mig fyrir því að þetta væri ykkar síðasta veiðiferð. Þú komst oft þegar Thelma og Daði voru lítil og bauðst þeim með þér út og fórst með þau á sleða, að veiða og í fjöruferðir, þau voru alltaf svo ánægð með Steina frænda sinn, hvað hann var alltaf góður við þau. Steini var svo mikill pabbi, enda var hann afar stoltur af stelpunum sínum Önnu Kristínu og Selmu Líf. Það var svo gaman að fylgjast með ykkur þegar þær voru hér fyrir austan hjá þér, þær voru svo glaðar að vera með þér, enda miklar pabbastelpur. Alltaf var nóg að gera hjá ykkur, þú varst duglegur að kíkja með þær í heimsókn til okkar, enda var alltaf stíf dagskrá hjá ykkur við að skapa minningar.
Þegar Óli afi þinn dó þá veittir þú Báru ömmu þinni mikinn stuðning og passaðir vel upp á hana, þú varst duglegur að heimsækja hana og sast hjá henni mörgum stundum við að spjalla við hana um heimsins mál og aðstoða hana við föndrið sitt. Ég veit að afi þinn og amma hafa tekið vel á móti þér og þið eruð sameinuð á ný og vakið yfir okkur. Ég skal passa vel upp á fólkið þitt sem á um svo sárt að binda. Hvíldu í friði elsku Steini minn.
Þú ert,
gullið mitt
sem stirnir á,
og skín svo skært.
Bjartasta birtan
sem lýsir fram veginn.
Silfrið
sem ekki fellur á
og aldrei þarf að fægja.
Hjartaþráðurinn
trausti
sem aldrei slitnar.
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Þín frænka,
Erla.
Elsku besti Steini okkar.
Ég er ekki að átta mig á því að við munum aldrei tala saman aftur. Ekki óraði mig fyrir því þegar þú hringdir í mig í hádeginu 19. september og spurðir hvernig ég hefði það eftir aðgerð að þetta yrði okkar síðasta samtal. Ég verð ævinlega þakklát fyrir tímann sem við áttum saman núna í september þegar þú tókst það að þér að taka húsið okkar í gegn að innan. Krakkarnir mínir elskuðu að vera í kringum þig og þú varst duglegur að siða þau aðeins til. Þú varst heimsins besti pabbi stelpnanna þinna, Önnu Kristínar og Selmu Lífar, og ljómaðir þú alltaf þegar þær voru hjá þér. Missir þeirra er mikill og munum við sjá til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa þétt við bakið á þeim. Svo varst þú mikill mömmustrákur og dýrkaðir hana Hjördísi Báru systur þína sem á hrikalega bágt núna. Þá voru Tómas Steinn og Andrea Íris heppin með frænda sinn en þau gátu alltaf leitað til þín og þú nenntir endalaust að brasa með þeim. Þú og amma þín Bára áttuð fallegt samband og sast þú oft með henni heima á Túngötu 2 að dunda við ýmislegt, t.d. að smíða og saga út. Það var yndislegur tími sem við áttum á 35 ára afmælisdaginn þinn en þá voruð þið stelpurnar að gista með okkur hjá Hörpu og Einari á Akureyri. Við gerðum okkur glaðan dag og grilluðum góðan mat, en það var einmitt þá sem þú plataðir Hörpu frænku þína til þess að segja þér að hún væri ólétt og hafðir þú gaman af Sóloni Gauta frænda þínum. Ég á eftir að segja honum margar sögur af okkar besta manni sem allir elskuðu. Í sumar þegar þú, Hjördís og krakkarnir komuð í afmæliskaffi til Harðar Breka lenti Hildur Bára frænka þín í að æla á herbergisgólfið sitt því hún náði ekki inn á baðherbergi. Við frænkur kúguðumst allar og gátum ekki með nokkru móti verkað upp æluna. Þú gerðir grín að okkur, baðst um hanska og reddaðir málunum á núll einni.
Það er svo óraunverulegt að hafa þig ekki lengur hjá okkur og að við þurfum að læra að lifa án þín. Ég lofa að passa upp á allt þitt besta fólk. Elsku Anna Kristín, Selma Líf, Hulda, Addi, Hjördís, Ægir, Tómas og Andrea, ég bið góðan guð að styrkja ykkur elskurnar.
Hvíldu í friði, elsku Steini minni, elska þig – þín frænka,
Alda Fossberg.
Elsku besti Steini frændi. Við söknum þín svo mikið, þú varst besti frændi sem hægt er að hugsa sér. Þú gerðir allt skemmtilegra og varst svo góður við okkur Andreu. Allar ferðirnar út á sveit og til Vöðlavíkur þegar þú kveiktir risaeld sem var á stærð við mig í dag. Þegar þú fórst með mig, Önnu Kristínu, Selmu Líf og Andreu upp í Oddskarð á gamla jeppanum þínum og dróst okkur á sleða sem var bundinn aftan í bílinn. Það var svo gaman þegar þú og stelpurnar þínar voruð með okkur mömmu, Andreu, ömmu og afa á Akureyri í sumar. Þú fórst með okkur Önnu Kristínu í gokart og vannst okkur, það munaði samt litlu. Það var gaman að fara með þér á tjaldstæðið á Hömrum í þrautabrautina í vatninu eða klifurveggina úr steinum og ég fór í keppni við Selmu á litla leikvellinum þar.
Elsku Steini frændi, við munum aldrei gleyma þér og það er mjög skrítið hér án þín. Ég mun alltaf sjá um að stelpurnar þínar hafi einhvern til að tala við þegar enginn annar er til staðar, ég mun passa þær með öllu mínu hjarta. Ég segi þeim frá öllum sögum af því sem við gerðum þó það hafi bara verið við tveir. Ég mun taka þinn stað að passa mömmu, ömmu og afa. Við munum alltaf elska þig, þú varst alltaf langbestur og enginn getur tekið þinn stað.
Ástarkveðjur,
Tómas Steinn og Andrea Íris.
Steini frændi var ómissandi hluti af lífi okkar systkinanna og minningarnar sem við deildum eru okkur mjög dýrmæt. Við fórum oft á rúntinn með honum þegar við vorum lítil, og hver ferð var full af gleði, hlátri og ævintýrum. Þú tókst okkur alltaf opnum örmum, og það var alltaf svo gott að vera í návist þinni.
Steini var ekki bara frændi; hann var vinur okkar og leiðtogi. Hann hafði einstakan hæfileika til að gera dagana okkar skemmtilega, hvort sem við vorum að kanna ný svæði eða bara njóta samverunnar. Hann sagði sögur, spjallaði við okkur og skapaði minningar sem munu alltaf lifa í hjörtum okkar. Elska þig Steini frændi þangað til næst.
Þinn frændi,
Daði Fossberg.
Elsku besti Steini frændi.
Mikið er erfitt að trúa því að þú sért farinn frá okkur. Við eigum ótal margar góðar minningar um þig, það var alltaf fjör þar sem þú varst.
Þú varst mjög duglegur að koma og bjóða okkur krökkunum með þér í jeppaferðir út á sveit, þar sem við brösuðum endalaust. Þegar eitthvað klikkaði varst þú fyrsti maðurinn sem hringt var í, hvort sem það þurfti að laga eitthvað, bjarga okkur í óveðri eða bara koma og peppa upp mannskapinn. Við vorum svo heppin að eyða miklum tíma með þér síðustu vikurnar þar sem þú siðaðir okkur til eins og þér einum var lagið. Við gætum endalaust rifjað upp minningarnar sem við eigum með þér og munum varðveita þær alla tíð. Sóloni Gauta litla frænda þínum verða sagðar margar skemmtilegar sögur af þér í framtíðinni, en þú brasaðist mikið með hann í þau skipti sem þið hittust.
Takk fyrir allt, elsku hjartans frændi okkar, besti pabbi, frændi, sonur, bróðir og vinur.
Elskum þig, þín frændsystkin,
Harpa Mjöll Fossberg, Hildur Bára Fossberg og Hörður Breki Fossberg.
Elsku Steini.
Stórt skarð er höggvið í fjölskylduna okkar við fráfall þitt. Ekki óraði mig fyrir því að viku eftir að þú sagðir mér þau tíðindi svo glaður, að þú værir búinn að segja stelpunum þínum að þú ætlaðir að leigja þér íbúð í Noregi til að geta verið nálægt þeim, yrðir þú allur. Þú varst kominn með pláss á frystitogara og ætlaðir að vera í Noregi þegar þú værir ekki á sjónum. Sagðir mér líka hvað Selma hefði verið ánægð með stóra ísskápinn, þú ljómaðir allur þegar þú talaðir um gullin þín. Þú varst svo mikill pabbi og það var unun að sjá hvað Anna Kristín og Selma Líf voru miklar pabbastelpur. Og þú mikill mömmustrákur. Það var svo gaman að fylgjast með ykkur mömmu þinni á Snapchat og Messenger þegar þið ferðuðust til Noregs í vor og komuð Önnu Kristínu og Selmu Líf á óvart, margt gert með þeim í þeirri ferð.
Svo varstu börnunum hennar Hjördísar Báru, Tómasi og Andreu, sem faðir, alltaf tilbúinn að hlusta á þau og gera eitthvað með þeim, eins og frændur þínir og frænkur fengu líka að njóta. Góður við frændsystkini þín sem dýrkuðu þig og dáðu, varst duglegur að koma og fá þau lánuð til að gera eitthvað með þeim hvort sem það var að fara að veiða, á vélsleða, fjórhjól eða bara rúntinn.
Þegar Óli afi þinn dó passaðir þú svo vel upp á Báru ömmu þína, varst mjög duglegur að heimsækja hana og brasa ýmislegt með henni, samband ykkar var einstakt. Nú er komið að kveðjustund, stund sem maður er aldrei tilbúinn í.
Elsku frændi, þú varst svo mikill töffari og húmoristi, aldrei lognmolla í kringum þig frá fyrsta degi. Fallegur að innan sem utan, máttir ekkert aumt sjá, varst góður við alla. Takk fyrir að vera þú. Ég mun aldrei hætta að sakna þín elsku frændi.
Elsku Anna Kristín, Selma Líf, Hulda, Addi, Hjördís Bára, Tómas og Andrea og Ægir, missir ykkar er mikill, minning um yndislegan dreng lifir.
Kveðja, þín frænka,
Þórey.
Það er með mikilli sorg í hjarta sem ég kveð þig, elsku Steini minn, við vorum svo góðir vinir alla tíð. Það var einstakt að vera með þér vegna þess að hvar sem þú komst varstu ávallt hrókur alls fagnaðar. Þegar þú gekkst inn í herbergið fór athyglin af öllu öðru og yfir á þig. Þú varst eins og reikistjarna með þitt eigið aðdráttarafl. Allir sem kynntust þér kunnu að meta hve hispurslaus þú varst, einlægur, glaður og ávallt skellihlæjandi með fyndna frasa á takteinunum. „Talaðu við mig undir þrjú augu“ sagðir þú oft eftir að hafa misst auga í slysi í æsku. Risavaxinn karakter, þú varst alltaf þú sjálfur. Þú fórst aldrei í manngreinarálit og varst óvenjulega vinamargur og naust mikillar virðingar í samfélaginu. Þá hafðir þú einstakt lag á börnum og varst algjör barnagæla.
Fyrst lágu leiðir okkar saman á leikskólanum Melbæ á Eskifirði og svo í Eskifjarðarskóla þar sem við vorum saman í bekk í tíu ár. Við æfðum fótbolta með Austra þar sem þú varst liðtækur markvörður eins og afi þinn heitinn, Óli Fossberg, sem þú varst svo stoltur af. Einstaka sinnum spilaðir þú sem útileikmaður og fórstu þá í sóknina og varst ófeiminn við að láta finna fyrir þér og spilaðir fast, sem var í stíl við þinn karakter. Þá æfðum við líka golf saman og nutum þess að spila á sumrin.
Vinátta okkar óx enn meira þegar við fórum í framhaldsskóla í Neskaupstað. Þá keyrðum við gjarnan saman yfir Oddskarðið á bílnum þínum í öllum veðrum til að mæta í skólann. Þetta var ótrúlega skemmtilegur tími og við létum mikið að okkur kveða í félagslífinu um helgar. Við leyfðum skólabókunum ekki að trufla okkur of mikið á þessum árum en þrátt fyrir það tókst okkur að ljúka námi, þú útskrifaðist sem húsasmiður og ég sem stúdent.
Að lokinni útskrift fórstu að vinna og starfaðir ýmist sem húsasmiður eða sjómaður. Sjómennskan togaði alltaf og átti vel við þig. Sjómennskan hafði þann kost að á milli vertíða gafst þér færi á að stunda veiðar af miklum móð. Þú varst svo mikill veiðimaður og nýttir hvert tækifæri sem gafst til að veiða rjúpu, gæs, hreindýr eða fisk. Þú hafðir dálæti á því að bjóða upp á afrakstur veiðinnar, villibráð og rautt með. Þú varst algjör nautnaseggur.
Mér er minnisstætt þegar þú plataðir mig með þér í helgarferð í höfuðborgina snemma árs 2014. Í þeirri ferð kynntumst við vinirnir vinkonum og úr urðu tvö parasambönd. Við fluttumst báðir búferlum í höfuðborgina í kjölfarið og líf okkar tóku nýjar stefnur. Vinir með vinkonum, þetta fannst okkur spennandi tímar og lífið lék við okkur. Eins og gengur og gerist slitnaði upp úr báðum parasamböndunum á endanum en þitt bar ríkulegan ávöxt. Þið eignuðust tvær yndislegar stelpur, þær Önnu Kristínu og Selmu Líf, sem þú elskaðir svo heitt. Þær sáu ekki sólina fyrir pabba sínum og þú ert þeim ólýsanlegur missir.
Elsku Steini minn. Ég er svo þakklátur fyrir okkar vináttu og mun varðveita minningarnar okkar svo lengi sem ég lifi. Þú varst dáður af öllum sem þekktu þig. Ef ást hefði getað bjargað þér hefðir þú lifað að eilífu.
Birkir Örn Hauksson.