Magnús Harðarson
Magnús Harðarson
Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar segir að hann telji alrangt að íslenski hlutabréfamarkaðurinn sé of lítill til að þjóna sínu hlutverki vel. Það sýni sig í nýlegum tvískráningum, markaðurinn sé að fá öflug félög á markaðinn sem hafa kosið…

Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar segir að hann telji alrangt að íslenski hlutabréfamarkaðurinn sé of lítill til að þjóna sínu hlutverki vel. Það sýni sig í nýlegum tvískráningum, markaðurinn sé að fá öflug félög á markaðinn sem hafa kosið að koma hingað þó að þau hafi fyrir verið skráð á stóra erlenda markaði.

„Ég tel það sanna að við séum ekki of lítil. Félög sjá kosti þess að skrá sig á þennan markað og það eru að mínu mati mikil vaxtartækifæri hér. Þó að við viljum alltaf gera betur þá hefur viðskiptamagnið verið ásættanlegt, þetta er þriðja veltumesta árið á hlutabréfamarkaði sl. 16 ár,“ segir Magnús en bætir við að hann hafi heyrt því fleygt að stærstu skráðu félögin séu of stór fyrir íslenska markaðinn.

„Í því sambandi vil ég benda á að stærð hlutabréfamarkaðarins í hlutfalli af landsframleiðslu er um það bil helmingur af því sem best gerist á Norðurlöndunum,“ segir Magnús og rökstyður að það bendi til þess að íslenskt hagkerfi ætti að geta stutt við fleiri og stærri félög á markaði en nú er raunin.

Magnús segir að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hafi gífurleg vaxtartækifæri og að við gætum ef til vill á næstu 5-10 árum tvöfaldað stærð íslenska markaðarins, ef vel er haldið á spilunum.

„Við setjum okkur metnaðarfull markmið. Það er mikilvægt að Kauphöllin, stjórnvöld og markaðsaðilar leggist á eitt til að efla markaðinn, fyrst og fremst að fjölga bæði almennum og erlendum fjárfestum. Það eru mikil tækifæri til vaxtar,“ segir Magnús.

Hann segir að fjölbreytni félaga á aðalmarkaði hafi aukist undanfarin ár og að öll þau félög sem séu skráð á aðalmarkaði í dag eigi heima þar.

„Ef við tökum Alvotech sem dæmi þá er það félag sem á klárlega heima á aðalmarkaði. Það er tvískráð bæði hér og á Nasdaq í Bandaríkjunum. En við þurfum fleiri stór félög á íslenska markaðinn og enn fjölbreyttari félög með ólíka starfsemi,“ segir Magnús.

Hann segir að nauðsynlegt sé að fá stærri félög á markaðinn til að færast upp í flokk nýmarkaðsríkja hjá alþjóðlega vísitölufyrirtækinu MSCI.

Skilyrði fyrir hækkun er að þrjú stór félög séu að markaðsvirði meira en 2 milljarðar dollara. Eins og staðan er í dag eru einungis tvö félög sem uppfylla þau skilyrði; Alvotech og Marel. Ef verður af samruna Marels og JBT myndi það hafa það í för með sér að JBT Marel myndi teljast bandarískt félag í bókum MSCI.

„Til þess að markaðurinn yrði færður upp um flokk þyrfti annaðhvort stóra nýskráningu eða skráð félög að stækka, t.d. með samruna,“ segir Magnús.