Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Sveitir Ísraelshers (IDF) eru nú í aðgerðum innan landamæra Líbanons og hafa þegar skipst á skotum við heimamenn. Ísraelskar sérsveitir eru einnig við störf í Líbanon. Þetta staðfestir yfirstjórn IDF við fréttaveitu AFP, en landhernaðurinn, sem sagður er bundinn við suðurhluta landsins, kemur í kjölfar umfangsmikilla loft- og eldflaugaárása á skotmörk tengd Hisbollah-samtökunum. Vígasveitinni er lýst sem höfuðlausum her eftir víg æðsta leiðtoga Hisbollah, Hassans Nasrallahs, síðastliðinn föstudag.
Umfang landhernaðarins var á fyrstu stigum nokkuð óljóst. Talsmenn Hisbollah neituðu því í fyrstu að „óvinveittar ísraelskar sveitir“ hefðu farið yfir landamærin. Sögðu samtökin ekkert benda til þess. Skömmu síðar hófu að berast myndbandsupptökur sem sýna sérsveitir Ísraels ráðast inn í og eyðileggja neðanjarðargöng Hisbollah. Eins má á þessum upptökum sjá sérsveitir leggja hald á vopnabúr. Líklegt er talið að IDF muni ráðast gegn vandlega völdum skotmörkum en Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels hefur þegar boðað stuttan en kraftmikinn landhernað.
Viðvaranir berast Ísrael
Sameinuðu þjóðirnar hvetja Ísraelsmenn til að fara ekki út í „útbreiddan landhernað“ í Líbanon. Slíkt muni einungis valda hörmungum.
„Nú þegar átök milli Ísraels og Hisbollah virðast vera að sjóða yfir stefnir ekki í neitt nema hörmungar fyrir hinn almenna borgara. Við höfum miklar áhyggjur af því að útbreiddur landhernaður Ísraels í Líbanon muni einungis auka þjáningar,“ hefur AFP eftir talsmanni mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.
Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hefur einnig tjáð sig um aðgerðirnar. Segist hann styðja hernað gegn vígasamtökunum við landamærin.
Utanríkisráðuneyti Rússlands fordæmir harðlega hernaðaraðgerðir innan Líbanons. Hvetur Moskvuvaldið Ísraelsstjórn til að draga til baka herliðið án tafar.
„Rússland fordæmir harðlega árásir á Líbanon og hvetur stjórnvöld í Ísrael til að hætta árásum án tafar, draga herlið IDF frá Líbanon og leita að friðsamlegri lausn á vanda Mið-Austurlanda,“ segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu rússneska. „Við lýsum yfir stuðningi við forystu og almenning í hinu vinalega ríki Líbanon sem sannarlega stendur nú frammi fyrir vopnaðri árás.“
Hertar aðgerðir heima fyrir
Stjórn IDF segir að gripið verði til aukins öryggis og takmarkana á fjöldasamkomum um allt Ísrael, þ. á m. í borgunum Jerúsalem og Tel Avív.
Lagt verður til að 300 megi að hámarki koma saman innanhúss og einungis 30 á samkomum utandyra. Núverandi öryggisástand býður vart upp á fjölmennari hópa, segir í tilkynningu frá IDF.