Arsenal vann sterkan heimasigur á París SG, 2:0, í 2. umferð í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í gærkvöldi. Kai Havertz og Bukayo Saka gerðu mörk Arsenal á 20. og 35. mínútu.
Sigurinn var sá fyrsti hjá Arsenal í keppninni á tímabilinu eftir jafnteflið við Atalanta í fyrstu umferð.
Manchester City vann einnig sinn fyrsta sigur í keppninni á leiktíðinni er liðið vann sannfærandi útisigur á Slovan Bratislava frá Slóvakíu, 4:0. Ilkay Gündogan og Phil Foden komu City í 2:0 í fyrri hálfleik og þeir Erling Haaland og James McAtee bættu við í seinni hálfleik.
Dortmund vann þó stærsta sigurinn því þýska liðið valtaði yfir Skotlandsmeistara Celtic á heimavelli, 7:1. Karim Adeyemi skoraði þrennu fyrir Dortmund og Serhou Guirassy gerði tvö. Nánar á mbl.is/sport/fotbolti.