Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Umsækjendur um alþjóðlega vernd munu fá gistirými í JL-húsinu við Hringbraut í Reykjavík, en nú er unnið að endurbótum á húsinu til þess að það geti nýst í þessu skyni. Hefur Vinnumálastofnun komist að samkomulagi við eiganda hússins um leigu á stærstum hluta þess, en Framkvæmdasýsla ríkisins annast frágangsmál.
JL-húsið er fimm hæðir og verður neðsta hæðin nýtt fyrir svokallaða virknimiðstöð líka þeirri sem Vinnumálastofnum rekur á Ásbrú. Búsetuúrræði fyrir hælisleitendur verða á hinum fjórum hæðunum.
Tilgangur virknimiðstöðvar er að halda hælisleitendum virkum með alls kyns námskeiðum á meðan umsóknir þeirra eru í vinnslu hjá Útlendingastofnun, að sögn Írisar Höllu Guðmundsdóttur, sviðstjóra fjölmenningarsviðs Vinnumálastofnunar. Þá verður þar veitt ýmis þjónusta við gestina, svo sem í heilbrigðismálum, en einnig verða veitt þjónustuviðtöl í byggingunni.
„Þarna geta dvalið á milli þrjú og fjögur hundruð manns,“ segir Íris Halla í samtali við Morgunblaðið.
Segir hún að ekki verði einn einsleitur hópur í húsinu, heldur blanda fólks, svo sem stakar konur, stakir karlar og fjölskyldur, mismunandi á hverri hæð hússins. Að norrænni fyrirmynd verður aðgangsstýring í húsinu þannig að fólk geti ekki valsað á milli rýma.
Spurningu um hvort Vinnumálastofnun hefði grennslast fyrir um hvernig íbúum í nágrenninu litist á þessi áform sagði hún að það hefði ekki verið gert. Það væri heldur ekki nýtt að umsækjendur um alþjóðlega vernd væru í húsinu, þótt það hafi ekki verið í þeim mæli sem nú standi til.
Íris Halla segir að með tilkomu fleiri búsetuúrræða í JL-húsinu muni slíkum úrræðum fyrir hælisleitendur ekki fjölga, þar sem verið sé að loka úrræðum á nokkrum stöðum þar sem einstaklingar sem sótt hafi um hælisvist hafi verið að yfirgefa landið eftir synjun þar um og skjólstæðingum þar með að fækka.