Tekinn við Mark Rutte sést hér flytja ávarp í tilefni breytinganna.
Tekinn við Mark Rutte sést hér flytja ávarp í tilefni breytinganna. — AFP/John Thys
„Fyrsta mál á dagskrá er að tryggja áframhaldandi styrk Atlantshafsbandalagsins (NATO) og sjá til þess að varnir okkar séu bæði skilvirkar og áreiðanlegar,“ segir nýr framkvæmdastjóri NATO, Mark Rutte

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Fyrsta mál á dagskrá er að tryggja áframhaldandi styrk Atlantshafsbandalagsins (NATO) og sjá til þess að varnir okkar séu bæði skilvirkar og áreiðanlegar,“ segir nýr framkvæmdastjóri NATO, Mark Rutte. Hann hefur tekið við af Jens Stoltenberg sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra í áratug.

„Mitt annað áherslumál er aukinn stuðningur við Úkraínu og enn nánari tengsl. Það verður enginn varanlegur friður í Evrópu án þess að Úkraína sé bæði sterk og sjálfstæð,“ segir Rutte en þriðja áherslumál hans er aukin samvinna milli þeirra ríkja sem mynda NATO.

Við skiptin þakkaði Rutte forvera sínum fyrir vel unnin störf. Sagði hann Stoltenberg hafa leitt bandalagið af festu allan þennan tíma. „NATO er í dag stærra, NATO er sterkara og meira samstiga en nokkru sinni fyrr. Og það er að stórum hluta þér að þakka.“

Nýtt höfuð – sama stefna

Dmitrí Peskov talsmaður Rússlandsforseta segir Moskvuvaldið ekki eiga von á neinni stefnubreytingu hjá Atlantshafsbandalaginu. Rutte muni halda sömu áherslum og Stoltenberg setti.

„Við eigum von á því að Atlantshafsbandalagið haldi áfram fyrri stefnu. Eitt sinn var möguleiki á góðum samskiptum, eða það kom til tals á tímabili,“ segir Peskov og bætir við að nú virðist lítill áhugi vera á samskiptum við Rússland. Moskvuvaldið segist ekki eiga von á að það breytist með komu Ruttes.

Mark Rutte gegndi áður embætti forsætisráðherra Hollands.