Danmörk
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Jóhannes Karl Guðjónsson nýtur sín vel hjá AB í dönsku C-deildinni í knattspyrnu en hann tók við þjálfun liðsins í maí á þessu ári eftir að David Roupanah var sagt upp störfum og skrifaði undir þriggja ára samning í Kaupmannahöfn.
Jóhannes Karl, sem er 44 ára gamall, hafði verið aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins frá því í janúar árið 2022 en lét af störfum hjá KSÍ til þess að taka við danska félaginu.
Þjálfarinn hefur einnig stýrt HK og ÍA á þjálfaraferlinum en hann á að baki farsælan atvinnumannaferil með Racing Genk í Belgíu, MVV, Waalwijk og AZ Alkmaar í Hollandi, Real Betis á Spáni og loks Aston Villa, Wolves, Leicester, Burnley og Huddersfield á Englandi þar sem hann lauk atvinnumannaferlinum árið 2012.
Þá lék hann einnig með KA, ÍA, Fram, Fylki og HK á ferlinum en þjálfarastarfið í Danmörku er hans fyrsta utan landsteinanna.
Þekkti til danska boltans
„Þessir fyrstu mánuðir hérna úti hafa verið mjög áhugaverðir,“ sagði Jóhannes Karl í samtali við Morgunblaðið.
„Ég hafði auðvitað ekki þjálfað erlendis áður og þetta starf hérna í Danmörku hefur verið áhugavert fyrsta skref. Ég bý vel að því að hafa fylgst ágætlega vel með danska boltanum undanfarin ár. Ísak Bergmann sonur minn spilaði auðvitað hérna og svo fylgdist ég líka vel með mörgum af íslensku strákunum sem spila hérna á meðan ég var aðstoðarþjálfari landsliðsins. Ég þekkti því ágætlega til danska fótboltans en ekki endilega til C-deildarinnar.
Þetta var fyrst og fremst frábært tækifæri fyrir mig, að taka við AB. Það hefur alltaf verið markmið hjá mér að halda áfram að þróa mig sem þjálfara og ég vil að sjálfsögðu sjá hversu langt ég get farið í þessum þjálfaraheimi. Ég er mjög metnaðarfullur og það sýndi sig ágætlega á mínum leikmannaferli þar sem ég stóð mig vel þar sem ég spilaði. Ég er með nákvæmlega sama metnað sem þjálfari,“ sagði Jóhannes Karl en AB situr sem stendur í 8. sæti C-deildarinnar með 12 stig eftir níu umferðir.
Þriggja vikna undirbúningur
Jóhannes Karl tók við þjálfun liðsins þegar fimm leikjum var ólokið á síðustu leiktíð en liðið var þá í sjötta sæti deildarinnar og átti ekki möguleika á því að tryggja sér sæti í dönsku B-deildinni.
„Ég fékk smjörþefinn af starfinu síðasta vor þegar ég kláraði tímabilið með liðinu. Undirbúningstímabilið var stutt, einhverjar þrjár vikur, en það sem vantaði hjá liðinu á síðasta tímabili var stöðugleiki. Mitt markmið var því fyrst og fremst að efla varnarleikinn og reyna þannig að ná upp stöðugleikanum sem hefur vantað. Ég reyndi mitt besta á þessum þremur vikum sem við höfðum en ferlið er lengra en það og við erum ennþá að vinna í varnarleiknum. Við erum með ungt lið og miðvarðapar sem hefur ekki spilað lengi saman. Við erum líka með nýjan markvörð og það tekur alltaf smátíma fyrir menn að spila sig saman.
Ef þú ætlar þér að ná árangri í Danmörku þarf grunnurinn að vera góður. Það er mikil taktík í Danmörku og flestöll liðin hérna eru mjög sterk varnarlega. Það getur því reynst þrautin þyngri að brjóta niður varnarmúr liðanna ef þau ná forystu snemma leiks. Við fórum hægt af stað en unnum svo þrjá leiki í röð. Það hefur gengið illa að ná í sigra í síðustu leikjum og því augljóst að við erum ennþá að vinna í því að ná upp þessum stöðugleika. Við höfum hins vegar verið óheppnir líka og við misstum aðalframherjann okkar í meiðsli. Hann var einn af reynslumestu leikmönnum liðsins og við höfum saknað hans mikið. Það er þannig, í þessari deild, að þeir leikmenn sem koma inn af bekknum oft og tíðum búa ekki yfir sömu gæðum og þeir sem eru fastamenn í liðunum.“
Ætla upp um deild
AB er með háleit markmið fyrir yfirstandandi keppnistímabil.
„Markmiðið er að fara upp um deild, það er ekkert flóknara en það. Á sama tíma er líka eitt af markmiðum félagsins að ná upp stöðugleika þegar kemur að úrslitum. Félagið sjálft er í eigu Bandaríkjamanna en akademían, þar sem yngri kynslóðin æfir og spilar, er í eigu Dana. Rekstrarlega séð eru þessar tvær einingar aðskildar og það hefur verið þannig, undanfarin ár, að það hafa ekki nægilega margir leikmenn verið að koma upp í aðalliðið í gegnum unglingastarfið. Ég hef lagt mikið upp úr því að efla samstarfið við akademíuna og yfirmanninn þar. Leikmennirnir í akademíunni verða að vera meðvitaðir um það að ef þeir standa sig vel þá munu þeir fá tækifæri með aðalliðinu. Með því að efla samstarfið náum við meiri sjálfbærni í rekstrinum og þá getum við vonandi í framtíðinni byggt upp liðið okkar af uppöldum leikmönnum. Við gætum þá notað aðkeypta leikmenn sem uppfyllingarefni en þannig er það ekki í dag.
Ég skrifaði undir þriggja ára samning og er því ekki að tjalda til einnar nætur. Við þurfum að eiga erindi í B-deildina ef við ætlum okkar þangað og við viljum vera tilbúnir fyrir hana. Þess vegna er mjög mikilvægt að vinna í grunninum og ná upp stöðugleika varnarlega. Á sama tíma er þetta félag með allt til alls til þess að leika í B-deildinni. Æfingaaðstaðan hérna er fyrsta flokks og hér er keppnisvöllur sem myndi duga vel í efstu deild. Við erum á þokkalega góðum stað í dag en þetta er erfið deild og við sáum til dæmis lið eins og Esbjerg sem var í C-deildinni í þrjú ár. Þeir voru með fjármagn á milli handanna en samt tók þetta sinn tíma. Þegar þeir fóru svo upp eru þeir í toppbaráttu í B-deildinni núna og þannig sé ég þetta fyrir mér.“
Erfitt að kveðja KSÍ
Eins og áður sagði lét Jóhannes Karl af störfum sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins til þess að taka við AB.
„Það var mjög erfið ákvörðun að segja skilið við landsliðið. Umhverfið hjá KSÍ er frábært og ég var mjög heppinn að fá tækifæri til þess að vinna með jafn reynslumiklum þjálfurum og Arnari Þór Viðarssyni og Åge Hareide. Það er mjög mikið af hæfum þjálfurum innan veggja KSÍ sem var erfitt að kveðja, sem og starfsfólk sambandsins sem maður sá mikið eftir. Ég var hins vegar mjög spenntur fyrir þessu tækifæri sem mér bauðst hjá AB. Mig langaði að prófa að þjálfa á erlendri grundu og þetta tikkaði í mörg box hjá mér. AB er vissulega í C-deildinni en þetta er engu að síður hörkudeild eins og ég hef áður sagt.
Þarna fæ ég tækifæri til þess að koma liðinu upp um deild á mínum samningstíma og ég fæ líka tækifæri til þess að byggja eitthvað upp innan félagsins sem mér fannst mjög spennandi. Ég fann það líka að mig langaði til þess að vera úti á grasinu og æfingasvæðinu á hverjum degi en í landsliðsfótboltanum er þetta öðruvísi þar sem þú færð ekki jafn mikinn tíma með leikmönnunum. Fótbolti snýst auðvitað um leikina sem þú spilar og í þessum félagsliðabolta ertu að spila í hverri einustu viku, stundum oftar. Leikjunum fylgir undirbúningur og þú ert að alla daga vikunnar ef svo má segja. Ég vildi halda áfram að þróa mig sem félagsliðaþjálfara og þetta var rétt skref.“
Fjölskyldan sameinast
Þjálfarinn hefur komið sé vel fyrir í Kaupmannahöfn og líður vel í borginni.
„Fjölskyldan er tiltölulega nýkomin út til mín, það er að segja konan mín og yngsti strákurinn okkar. Hundurinn okkar Rambó fékk líka að fylgja með en þau fluttu öll til mín um miðjan ágúst. Daníel Ingi, næstyngsti sonur minn, leikur með unglingaliði Norsjælland og það tekur í kringum 20-30 mínútur að keyra á milli. Næstelsti strákurinn okkar, Jóel Þór, sótti um í læknisfræði hérna í Kaupmannahöfn og komst inn í sumar. Hans nám hefst næsta vor og svo er elsti strákurinn okkar, Ísak Bergmann, að spila með Düsseldorf í Þýskalandi. Við fjölskyldan erum því ansi nálægt hvert öðru og fáum tækifæri til þess að njóta okkar saman næstu misserin í Danmörku sem er frábært.
Þetta eru vissulega miklar breytingar sem fylgja þessu líka enda hef ég búið heima á Íslandi undanfarin tólf ár, alveg frá því að ég hætti í atvinnumennsku. Það tekur alltaf smátíma að aðlagast en þetta hefur gengið mjög vel. Við búum í útjaðri Kaupmannahafnar og það er stutt fyrir okkur að fara í miðbæinn til dæmis. Sjálfur er ég á fullu að læra dönskuna og reyna að koma mér inn í menninguna enda skiptir það miklu máli í starfinu. Við erum á góðum stað og ég er spenntur fyrir framtíðinni,“ bætti Jóhannes Karl við í samtali við Morgunblaðið.