„Umhverfi á Reykjanesskaga er stórbrotið; land þar sem við sjáum yfirborð Atlantshafshryggjarins og skil jarðfleka sem aðskilja heimsálfur. Þá er líka einstakt að vera í umhverfi þar sem eldgos eru tíð og land í stöðugri mótun,“ segir Daníel Einarsson, verkefnastjóri hjá Reykjanes Geopark.
Flutt verða nærri 200 erindi á alþjóðlegri ráðstefnu tengslanets jarðvanga í Evrópu sem hefst í Reykjanesbæ í dag. Um 400 manns frá 30 löndum í Evrópu mæta til ráðstefnunnar, en henni fylgir að farið verður á staði nærri Grindavík þar sem ummerki eldgosa síðustu missera sjást vel. Um gosin og jarðfræðina verður fjallað af vísindamönnum í fyrirlestrum. Þá segir frá samfélagslegum áhrifum náttúruhamfara á samfélag í fyrirlestri Fannars Jónassonar bæjarstjóra í Grindavík.
Á ráðstefnunni fá fulltrúar Reykjanesjarðvangs viðurkenningarskjal frá Alþjóðajarðfræðisambandinu, en Reykjanesið og Vatnajökull komust nýlega inn á lista þess yfir 100 merkar jarðminjar á jörðinni. Markmið með útgáfu jarðminjalistans er að vekja athygli á mikilvægi jarðminja til fræðslu og þekkingar. Um þau efni verður fjallað á ráðstefnunni, þá meðal annars í samhengi við ferðaþjónustu.
Um tíu ár eru síðan UNESCO viðurkenndi Reykjanes sem Global Geopark. Þýðing þess hugtaks er jarðvangur; það er svæði þar sem minjum og landslagi, jarðfræðilega mikilvægu á heimsvísu, er stýrt eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun.