Á mánudag var til moldar borinn Benedikt Sveinsson, sem beitti sér ötullega og af heilindum hvar sem hann kom. Blessuð sé minning hans. Séra Hjálmar Jónsson rifjaði upp af því tilefni ljóð sem hann orti í tilefni af sextugsafmæli Benedikts, en þar voru m.a

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Á mánudag var til moldar borinn Benedikt Sveinsson, sem beitti sér ötullega og af heilindum hvar sem hann kom. Blessuð sé minning hans. Séra Hjálmar Jónsson rifjaði upp af því tilefni ljóð sem hann orti í tilefni af sextugsafmæli Benedikts, en þar voru m.a. þessi erindi:

Ættaður bæði úr bæ og sveit,

af blessun er fullvel nærður

og svo er hann eins og veislan veit

vandlega ættbókarfærður.

Allvel Drottinn í hann bar

af erfðagenum fræknum

kosti úr ættum Engeyjar

og upp úr Víkingslæknum.

Ekki þarf ég þráð að spinna

úr þessu lopabandinu.

Hann er vinur vina sinna

og velflestra í landinu.

Á leiðarenda einatt kemst,

allt vel honum gengur.

Benedikt er fyrst og fremst

feikna góður drengur.

Hjörleifur Hjartarson fagnaði sextíu og sex ára afmæli konu sinnar Írisar Ólafar Sigurjónsdóttur við Svartahafið og orti til hennar vísu í morgunsárið:

Á þjóðvegi 66

er sumsstaðar vesen og pex.

En ástin er kex

sem endist og vex

á þjóðvegi 66.

Annars er það helst tíðinda, að kerlingin á Skólavörðuholtinu sendir karlinum á Laugavegi kveðjur eftir barlóminn í honum á mánudag:

Hörmung er að heyra í þér,

hættu að trega og gráta,

muna skaltu að ég er

árans flökkuskjáta.

Þegar heimsins þraut og pín

þrengja snöru illa,

kerling vill þér kvæðin sín

kveða, erta og dilla.

Eiríkur Einarsson frá Hæli, útibússtjóri á Selfossi og síðar þingmaður, orti á sínum tíma:

Þeir sem eiga á þingi sess

og þurfa að éta.

Verða að beygjast eins og S

en ekki Z.