Íslenskur læknir skrifaði út óhóflegt magn af ávana- og fíknilyfjum um níu ára skeið til sjúklings eftir að hann var látinn. Breytti hann meðal annars lyfjameðferð sjúklingsins, sem var kona, mikið á tímabilinu samkvæmt upplýsingum frá sambýlismanni …

Íslenskur læknir skrifaði út óhóflegt magn af ávana- og fíknilyfjum um níu ára skeið til sjúklings eftir að hann var látinn. Breytti hann meðal annars lyfjameðferð sjúklingsins, sem var kona, mikið á tímabilinu samkvæmt upplýsingum frá sambýlismanni hennar án þess að sannreyna hvort breytingarnar skiluðu árangri og að hún væri yfirhöfuð á lífi.

Fjórfaldaði læknirinn meðal annars skammt hennar af töflum yfir um sex ára tímabil, en skammtarnir og tíminn kölluðu á gott eftirlit með sjúklingi. Var magnið „langt umfram það magn sem eðlilegt mætti teljast. Jafnvel svo mikið að það gæti ógnað heilsu sjúklings.“

Að lokum gaf læknirinn út vottorð vegna umsóknar um örorkubætur þegar konan hafði verið látin í þrjú ár. Var vottorðið meðal annars notað til að svíkja út örorkubætur til fjölda ára eftir andlát konunnar.

Þetta er meðal þess sem lesa má úr úrskurði heilbrigðisráðuneytisins þegar það staðfesti ákvörðun embættis landlæknis um að svipta lækninn starfsleyfi sínu í fyrra.

Í úrskurðinum er málið rakið, en þar kemur meðal annars fram að embætti landlæknis hafi um nokkurra ára skeið haft afskipti af lækninum vegna lyfjaávísana hans, eða í samtals átta skipti árin 2012 til 2016.

Skoðun embættis landlæknis náði til ávísana til konunnar og sambýlismanns hennar og tveggja annarra. Kemur fram að læknirinn hafi ávísað þeim lyfjum sem virkuðu ekki saman og eftirliti hafi verið ábótavant.

Læknirinn sagði í kæru sinni og rökstuðningi að hann hefði látið blekkjast af þessum svikum og að honum hefði ekki verið kunnugt um að konan væri látin fyrr en í byrjun árs 2023 þegar lögreglan lét hann vita af því að lyfjunum væri ávísað til látinnar konu.

Hóf landlæknir í kjölfarið að skoða mál læknisins og upplýsti hann í ágúst að svipta ætti hann starfsleyfi og var það svo gert í september. Læknirinn sætti sig ekki við þetta og kærði ákvörðunina til ráðuneytisins sem nú hefur staðfest ákvörðun landlæknis. þorsteinn@mbl.is