Skjálftavirkni í stjórnmálum er nokkur, sem m.a. má sjá af því að Arnar Þór Jónsson, lögmaður, fv. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og forsetaframbjóðandi, hefur stofnað Lýðræðisflokkinn. Hann vill að svo stöddu ekki nefna neina aðra aðstandendur, en sá Hulduher verður opinberaður þegar boðað verður til kosninga.
Flokksstofnunin á sér nokkurn aðdraganda, en í sumar rakti Týr í Viðskiptablaðinu hvað legið geti að baki slíku fyrirtæki: „Helstu ástæðurnar eru efnahagslegar og stýrast af því fráleita fyrirkomulagi sem Alþingi hefur sett um starf stjórnmálaflokka og fjármögnun þeirra.
Sósíalistaflokkurinn náði ekki manni á þing [en fékk] 4,1% atkvæða á landsvísu í kosningunum og þar með 130 m.kr. greiðslu frá ríkinu eða um 30 milljónir á ári, vegna reglna um ríkisstyrki við stjórnmálaflokka. Það er nokkuð góð arðsemi eiginfjár miðað við að kosningabaráttan kostaði innan við 5 m.kr.
En fjörið byrjar fyrst ef flokkar ná að koma frambjóðendum á þing. Píratar og Flokkur fólksins eru nánast alfarið reknir fyrir skattfé og fá flokkarnir hvor um sig um sjötíu milljónir króna á ári frá hinu opinbera. Þessir flokkar fengu um 8% hvor í síðustu þingkosningum. Ekki nóg með það þá borgar Alþingi allan starfsmannakostnað þingflokka. Auk þess geta flokkar sem komast á þing launað vinum og vandamönnum með því að skipa þá í stjórn ríkisfyrirtækja eins og Póstsins.“ Þar er ljóslega eftir nokkru að slægjast.