Óskar Bergsson
Guðmundur Hilmarsson
„Að sjálfsögðu finnum við til ábyrgðar um okkar ráðgjöf í svo viðamiklu máli,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður stýrihóps og verkefnisstjóri um náttúrufarsrannsóknir fyrir hugsanlegan flugvöll í Hvassahrauni. Hann var spurður að því hvort óhætt væri að gera varaflugvöll fyrir Keflavík og miðstöð innanlandsflugs í jaðri eldsumbrota og hraunrennslis á Reykjanesskaga. Skýrsla stýrihópsins var kynnt fjölmiðlum í gær.
„Miðað við þau gögn og niðurstöðu sem við höfum þá er ekkert sem segir að ekki sé skynsamlegt að halda áfram að skoða þetta svæði og það væri rangt að útiloka það. Það hefur verið rætt að veðurskilyrði þarna séu erfið, en þær mælingar sem nú liggja fyrir segja að svo sé ekki. Vissulega fóru þessi eldsumbrot af stað eftir að við hófum þessa vinnu en það var ákveðið að ljúka henni vegna þess að megnið af kostnaðinum var komið með uppsetningu á tækjabúnaði.“
Hann segir hópinn átta sig á ábyrgðinni, en að ákvörðun liggi ekki fyrir og að eftir sér að skoða áhættumat fyrir fjárfestingar á þessu svæði. „En það er ekkert í kortunum sem segir að það sé skynsamlegt að ýta þessu út af borðinu,“ segir Eyjólfur Árni.
25 ferkílómetrar undir flugvöll
Í tillögu stýrihópsins er gert ráð fyrir að afmarka land sem er 5 þúsund metrar á lengd og 5 þúsund metrar á breidd, alls 25 ferkílómetrar.
„Við gerum ráð fyrir því að þetta svæði verði afmarkað í skipulagi, fyrst og fremst í Vogum sem mun hafa áhrif í Hafnarfirði. Það er seinni tíma mál að staðsetja brautirnar en það þarf að taka þetta svæði frá. Hluti af svæðinu er í eigu sveitarfélaga og hluti í einkaeigu.“
Hann segir að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum og nú þurfi þau að taka málið til sín.
Spurður hvort ekki hefði verið ábyrgara og öruggara að hætta við flugvöll í Hvassahrauni og byggja nýjan flugvöll í Ölfusi, segir Eyjólfur Árni að það hefði ekki verið ábyrgt.
„Það er búið að skoða staðsetningu flugvalla mjög víða. Við þurfum að hafa góðan varaflugvöll en það er varla hægt að verja að fara í fjárfestingu bara fyrir hann. Það er ekki kostur að flytja innanlandsflugvöll í Ölfus. Þessi lína á milli höfðuborgarsvæðisins og alþjóðaflugvallarins er sá kostur sem er ákjósanlegastur og í fyrsta sæti. Ég vil þó ekki útiloka aðra kosti en Hvassahraun er alltaf fyrsti kostur,“ segir Eyjólfur Árni.
Skýrslan talar sínu máli
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir að hvað flugskilyrði varði þá komi skýrslan honum ekki mikið á óvart. Ýmislegt hafi bent til þess í fyrri greiningum að þetta væri ákjósanlegt flugvallarstæði.
„Það sem ég hafði meiri áhyggjur af er náttúruváin á svæðinu eftir að eldgosið í Geldingadölum hófst og síðan viðvarandi eldsumbrot suður með sjó, hvort það hefði neikvæð áhrif á þessa staðsetningu sérstaklega. Nú hafa jarðvísindamenn frá Veðurstofunni farið yfir gögnin sem liggja fyrir fyrir þetta svæði. Skýrslan talar fyrir sig sjálf, þar sem taldar eru hverfandi líkur á að hraunrennsli hafi áhrif á þessa staðsetningu.“
Einar segist vera ánægður með að þessum hluta starfsins sé lokið en svo sé það önnur og sjálfstæð ákvörðun hvort flugvöllur verði byggður þarna.
„Þetta gefur okkur tækifæri til að halda áfram með verkefnið og áhættumeta fjárfestinguna og gera viðskiptaáætlun og halda áfram að vinna með málið eins og tillögurnar í skýrslunni hvetja til,“ segir Einar.
Hann segir að flugvöllurinn í Vatnsmýri fari ekkert fyrr en kominn er annar flugvöllur sem sé jafngóður eða betri.
„Næsta skref er að taka samtal við ráðherra um hvaða vinnu sé skynsamlegt að setja af stað og ef ákvörðun verður tekin um það strax í dag þá erum við að tala um 10-15 ár að lágmarki,“ segir borgarstjóri.
Skoða áhrif þess að Reykjavíkurflugvöllur víki
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra segir að niðurstaða skýrslunnar hafa komið sér þægilega á óvart.
„Það er að segja, hversu afgerandi niðurstaða skýrslunnar er að þetta sé raunverulegur og góður valkostur. Það gefur tilefni til að við höldum þessari leið opinni,“ sagði Svandís við mbl.is í gær.
Hún segir næstu skref vera fyrir ráðuneytið að taka skýrsluna til frekari skoðunar. Síðan verði rætt við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega Reykjavíkurborg. Í skýrslunni voru meðal annars skoðuð áhrif af því að flytja innanlands-, kennslu- og einkaflug frá Reykjavíkurflugvelli á nýjan völl í Hvassahrauni.
Náttúruvá
Taka þarf tillit
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telur að með áformum í Hvassahrauni sé ekki verið að bæta stöðuna gagnvart náttúruvánni, heldur sé verið að gera stöðuna enn verri, því í Hvassahrauni séu miklu meiri líkur á að hraun flæði yfir það stæði en þar sem flugvellirnir eru nú þegar. Hann segir kjánaskap að tala um að ekki þurfi að taka tillit til eldsumbrota. „En þetta er alltaf spurning um hvað er ásættanlegt, það verða menn að meta hverju sinni, en miðað við staðsetningu er veruleg hætta.“