Dómsmálaráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um breytingar á áfengislögum sem gerir ráð fyrir að heimilt verði að reka innlenda vefverslun með áfengi í smásölu að ákveðnum skilyrðum.
Segir í umfjöllun um frumvarpið, að markmið þess sé m.a. að jafna stöðu innlendra áfengisvefverslana við sambærilegar vefverslanir erlendis, sem íslenskum neytendum er nú þegar heimilt að versla við. Frumvarpinu sé ekki ætlað að stuðla að aukinni neyslu áfengis heldur að marka lagalegan ramma um það fyrirkomulag sem nú sé til staðar án heimildar.
Fjöldi innlendra vefverslana
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að í núverandi lögum séu ekki settar skorður á heimildir einstaklinga til þess að flytja inn áfengi að utan, t.d. í gegnum vefverslanir, og hafi því slík verslun viðgengist um áratugaskeið á Íslandi. Aftur á móti geri löggjöfin ekki ráð fyrir að heimilt sé að starfrækja sambærilegar innlendar vefverslanir vegna þess einkaleyfisfyrirkomulags sem er til staðar. Þrátt fyrir það sé rekinn fjöldi innlendra vefverslana, ýmist í eigu innlendra eða erlendra lögaðila. Verði ekkert aðhafst muni áfram ríkja óvissa um lögmæti innlendra vefverslana með áfengi sem hvorki megi telja viðunandi stöðu fyrir hið opinbera né hinn almenna borgara.
„Vart verða fundin dæmi í íslenskri löggjöf þar sem íslenskum neytendum er óheimilt að kaupa vöru af innlendri verslun sem heimilt er að versla af erlendri verslun og fá senda heim að dyrum. Af þessu má ráða að þær hömlur, sem nú virðast vera á innlendri vefverslun, þjóna ekki tilgangi sínum þar sem almenningur getur, þrátt fyrir hömlurnar, flutt inn áfengi frá erlendum vefverslunum að vild til einkaneyslu. Virðist því skorta málefnaleg rök fyrir þessum takmörkunum á atvinnufrelsi hér á landi,“ segir í frumvarpsdrögunum.
Fram kemur að handhafa leyfis til vefverslunar verði hvorki heimilt að hafa áfengi til sýnis á starfsstöð sinni né annars staðar þar sem áfengi verði afhent, til að koma í veg fyrir að hefðbundinn verslunarrekstur geti átt sér stað þar sem áfengi er stillt upp. Áfengisauglýsingar verði áfram óheimilar og bannað verði að afhenda áfengi á helgidögum og almennum frídögum.