Haukur bendir á að fjármálaskilyrðavísirinn hafi hækkað sem gefi til kynna að að fjármálaleg skilyrði hafi batnað.
Haukur bendir á að fjármálaskilyrðavísirinn hafi hækkað sem gefi til kynna að að fjármálaleg skilyrði hafi batnað. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
” Skuldahlutföll hafa sjaldan verið lægri í sögulegu samhengi og skuldavöxtur verið hóflegur á undanförnum árum. Þannig að staðan er góð sem slík.

Haukur Camillus Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, segir að þó litlar vísbendingar séu fyrir hendi enn sem komið er þá gæti það orðið svo að vanskil aukist vegna efnahagsumhverfisins.

Seðlabankinn hefur gefið út að þrátt fyrir hátt vaxtastig séu enn lítil merki um vaxandi greiðsluerfiðleika á útlánum banka til heimila.

Haukur segir Seðlabankann fylgjast vel með stöðunni og sjái enn sem komið er engin sérstök hættumerki.

„Við erum alltaf að fylgjast með og vanskil gætu farið að aukast hjá heimilum og fyrirtækjum. Viðnámsþróttur heimila og fyrirtækja er þó mikill um þessar mundir.“

Haukur bætir við að ef skuldahlutföll séu skoðuð þá hafi þau sjaldan verið lægri í sögulegu samhengi.

Í ritinu Fjármálastöðugleiki kemur fram að vanskilahlutfall útlána til kerfislega mikilvægra banka, reiknað samkvæmt staðli Evrópska bankaeftirlitsins (EBA), hafi verið 1% í lok annars ársfjórðungs og hafi lítið sem ekkert hækkað á árinu.

„Við höfum mjög góðar upplýsingar um skuldir heimilanna í bankakerfinu. Raunvöxtur skulda heimila sveiflast í kringum núllið þannig að raunvöxturinn er lítill ef nokkur. Skuldahlutföll hafa sjaldan verið lægri í sögulegu samhengi og skuldavöxtur verið hóflegur á undanförnum árum. Þannig að staðan er góð sem slík,“ segir Haukur.

Hann bætir við að Seðlabankinn hafi ekki séð merki í gögnum sínum um aukna skuldsetningu heimilanna enn sem komið er, en bankinn sjái að lánstíminn sé að styttast og löngu lánin ekki jafn algeng og áður fyrr.

Horfið þið á rétt gögn er varða vanskilin?

„Ég tel að ekkert fari framhjá okkur sem skiptir verulegu máli. Við erum að horfa á vanskil í bankakerfinu og þar líta tölurnar ágætlega út. Við fylgjumst þó vel með öðrum gögnum einnig,“ segir Haukur.

Í ritinu Fjármálastöðugleiki segir að fjármálaleg skilyrði hafi batnað. Haukur segir að sú ályktun sé byggð á vísi sem Seðlabankinn hefur hannað. Vísirinn mælir aðgengi heimila og fyrirtækja að fjármagni og leggur mat á hvort aðstæður til fjármálalegrar milligöngu séu hagfelldar eða krefjandi.

Fjármálaleg skilyrði batnað

Haukur bendir á að þróun fjármálaskilyrðavísisins gefi til kynna að fjármálaleg skilyrði hafi batnað.

„Fjármálaleg skilyrði hafa batnað nokkuð á öllum mörkuðum sem vísirinn tekur til nema á lána- og gjaldeyrismarkaði,“ segir Haukur og bætir við að sá hluti vísisins sem lýtur að húsnæðismarkaði hafi hækkað nokkuð það sem af er ári og mældist jákvæður í júlí síðastliðnum.

Fjármálaleg skilyrði á lána- og gjaldeyrismarkaði hafa aðeins þrengst það sem af er ári. Í Fjármálastöðugleika kemur fram að fjármálaleg skilyrði á gjaldeyrismarkaði hafi sveiflast nokkuð á árinu, annars vegar vegna breytinga í langtímavaxtamun milli Íslands og Þýskalands og hins vegar vegna veikingar á gengi krónunnar á síðustu mánuðum. Fjármálaleg skilyrði á lánamarkaði hafa verið lítillega þröng allt árið enda hefur skuldavöxtur einkageirans, bæði heimila og fyrirtækja, verið hóflegur undanfarið.

Haukur segir að horfa verði á þennan mælikvarða með gagnrýnum augum.

„Fjármálaleg skilyrði á skuldabréfa- og peningamarkaði hafa verið rúm síðustu misseri samkvæmt vísinum. Ef við skoðum muninn á ávöxtunarkröfu tíu ára og tveggja ára ríkisbréfa þá sjáum við að vaxtaferillinn er niðurhallandi og það hækkar vísinn þótt vextir sé ekki lágir. Því verður að horfa á þennan mælikvarða með gagnrýnum augum,“ segir Haukur.

Lánþegaskilyrði sannað tilverurétt sinn

Haukur segir að lánþegaskilyrði Seðlabankans hafa sannað tilverurétt sinn í ljósi þess að skuldsetning sé ekki óhófleg hjá heimilum og fyrirtækjum.

„Lánþegaskilyrðin koma þó misjafnlega niður á fólki og við sjáum að íbúðaverð er hátt á flesta mælikvarða. Raunverð íbúðarhúsnæðis er aðeins yfir leitni og hefur það komið manni á óvart hversu miklar verðhækkanir voru í júlí og ágúst,“ segir Haukur og bætir við að það hafi verið mikill þróttur í markaðnum.

Ekki víst að vísirinn endurspegli þróun að fullu

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að mælikvarðinn sem Seðlabankinn vitni til, hinn svokallaði fjármálaskilyrðavísir, hafi vissulega hækkað nokkuð undanfarið. Það sé hins vegar hægt að setja spurningarmerki við hvort vísirinn endurspegli að fullu nýlega þróun. Til að mynda hafi húsnæðisþáttur vísisins hækkað að stórum hluta vegna hækkunar íbúðaverðs.

„Þótt það skapi aukið veðrými verður að sama skapi meiri áskorun að fjármagna ný íbúðakaup á sama tíma og vaxtabyrði allra lánaforma hefur aukist síðustu misserin. Þá hefur útlánavöxtur, sem hefur áhrif til hækkunar á þessum mælikvarða, verið nokkuð misjafn milli helstu atvinnugreina. Loks má setja spurningu við að niðurhallandi vaxtaferill á markaði eigi að hækka mat á fjármálaskilyrðum þótt þannig sé því háttað í útreikningi Seðlabankans,“ segir Jón Bjarki.

Staðan gæti breyst

Tómas Brynjólfsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að þótt greiðsluvandi heimilanna væri ekki mikill um þessar mundir gæti staðan breyst á hratt. Tómas vísaði í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og sagði að mikil verðbólga og háir vextir gætu reynst mörgum áskorun. Skrýtið væri ef slík staða reyndi ekki á heimilin.

Í Fjármálastöðugleika kemur fram að einstaklingum á vanskilaskrá Creditinfo hafi fjölgað lítillega að undanförnu, en þeim hafði fækkað verulega frá árinu 2018 allt fram til ársloka 2022. Þó kemur fram að fjöldi einstaklinga á vanskilaskrá sé enn lítill í sögulegum samanburði, ekki síst ef tekið er tillit til mannfjöldaþróunar síðustu ára.

Tómas sagði í því tilliti að aðeins væri um að ræða smávægilegar hækkanir en ekki miklar breytingar.

„Við höfum þó í huga að yfirleitt er það síðasta sem heimilin gera þegar þau lenda í fjárhagskröggum að hætta að greiða af húsnæðislánunum sínum. Við erum því með í skoðun hvort við séum að horfa á réttar tölur. Við fylgjumst vel með,“ sagði hann.

Bankakerfið ráði við stöðuna

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri benti á, á kynningarfundi vegna yfirlýsingar fjármálastöðugleikanefndar, að bankarnir væru með mikinn verðtryggingarójöfnuð, þ.e. eigi meira af verðtryggðum eignum en verðtryggðum skuldum, og að ef verðbólgan færi niður skapaði það áhættu fyrir þá.

„Ef við skoðum vaxtaferla verðtryggðra ríkisbréfa þá hafa skammtímavextir hækkað verulega og ferillinn orðið niðurhallandi. Við erum að sjá yfirvofandi verðbólguhjöðnun þannig að maður hefði álitið að bankarnir hefðu hugsað meira um það að láta svona ójöfnuð ekki koma upp. Staðan sem þeir hefðu átt að sjá fyrir að því marki. Það hefur verið brött hækkun á verðtryggðum vöxtum og greiðslubyrði heimilanna mun þyngjast,“ sagði Ásgeir á fundinum.

Hann sagði þó að hann hefði ekki áhyggjur af því að bankakerfið réði ekki við stöðuna.

Ásgeir sagði aukinheldur að það væru takmörkuð merki um greiðsluvanda. Það væri þó ekki þar með sagt að hann væri ekki til staðar.

„Við sjáum að skuldavöxtur er takmarkaður og allt bendir til þess að við munum sjá lendingu. Ekkert bendir til annars en að kerfið þoli álagið sem mun koma í vetur þegar verðbólgan er að fara niður og verður þrýst niður af hækkun raunvaxta,“ sagði Ásgeir.

Hækkandi fasteignaverð heyri sögunni til

Ásgeir sagði á fundinum að hækkandi fasteignaverð myndi heyra sögunni til og að umræðan um byggingargeirann hefði verið undarleg.

„Í fyrsta lagi er því haldið fram að það vanti húsnæði og það sé verið að lána út á fullu. Staðreyndin er sú að við sjáum ekki skort á eignum á sölu heldur frekar að það gangi hægar að selja fasteignir. Fasteignaverð er mjög hátt og hefur haldist uppi af mikilli hækkun launa og skorti á framboði. Þessi umræða um að fasteignaverð geti ekki annað en hækkað er ekki rétt,“ sagði Ásgeir og bætti við að þegar hægir á hagkerfinu muni hægja á fasteignamarkaðnum.

„Það mun reyna á hagkerfið núna. Við erum að ná verðbólgunni niður og raunvextir munu hækka. Við höfum reynt að undirbúa þetta með lánþegaskilyrðum og ýmsum viðmiðum.“

Ásgeir sagði Seðlabankann almennt á móti öllum aðgerðum á vegum hins opinbera sem auki eftirspurn í núverandi efnahagsumhverfi.

„Fjármálastöðugleikanefnd hefur skilning á því að jafna þurfi þær byrðar sem hátt vaxtastig kann að skapa. Við erum ekki þess umkomin að gagnrýna sérstakar aðgerðir stjórnvalda. Sumir hópar verða úti og við höfum skilning á því,“ sagði hann.

Mjúk lending ekki líkleg

Már Wolfgang Mixa, dósent við Háskóla Íslands, segir mjúka lendingu ekki líklega í kjölfar þess að vaxtastigi hafi verið haldið háu mjög lengi.

„Ég hef áhyggjur af því að þessi mjúka lending verði allhörð. Raunvaxtastigið er svakalega hátt um þessar mundir,“ segir Már og bendir á að samkvæmt vaxtatöflu Landsbankans hafi verðtryggðir breytilegir vextir aldrei verið jafnháir og í dag.

„Ef verðbólga lækkar þá breytir það ekki miklu fyrir íslensk heimili ef stýrivextirnir lækka ekki samhliða. Því ef verðbólga lækkar og stýrivextir haldast háir þá aukast einfaldlega raunvextir sem þýðir að vaxtaprósentan á verðtryggðu lánunum helst há og hækkar jafnvel eins og undanfarið. Á sama tíma lækka óverðtryggðu vextirnir ekki heldur,“ segir Már og bætir við að verið sé að binda þá við stýrivexti og það hafi því sáralítil áhrif á lántakendur.

Hann segir vaxtalækkanirnar á tíma kórónuveirufaraldursins skiljanlegar í ljósi stöðunnar sem uppi var þá og að miklar vaxtahækkanir undanfarin misseri hafi verið afleiðingar af því.

„Það er augljóst mál að Seðlabankinn ætlar að vinda ofan af þessum húsnæðisverðshækkunum. Það er yfirlýst stefna og kaldhæðni að gera slíkt þegar peningastefna Seðlabankans setti olíu á eldinn á hækkunum húsnæðisverðs með því að halda stýrivöxtum svona lengi lágum í kjölfar covid-faraldursins,“ segir Már

Már segir það vonlausan leik að reyna að spá fyrir um fasteignaverð en til lengri tíma ætti fasteignaverð að lækka.

„Leiguverð hefur oft verið fyrirboði um þróun húsnæðisverðs. Þrátt fyrir miklar hækkanir leiguverðs undanfarna mánuði hefur húsnæðisverð hækkað töluvert meira undanfarin ár. Út frá þessum tveimur breytum myndi maður halda að stór hluti húsnæðishækkana sé nú þegar yfirstaðinn. Mér finnst merkilegt að húsnæðisverð hafi ekki hækkað meira en það hefur gert eftir að 0,8% húsnæðis fóru af markaðnum eftir jarðhræringarnar í Grindavík. Ég varð hissa að húsnæðisverð hækkaði ekki meira í tengslum við þær hamfarir,“ segir Már.

Aukin sókn í verðtryggð lán áhyggjuefni

Í Fjármálastöðugleika kemur fram að þyngri greiðslubyrði óverðtryggðra íbúðalána hefur leitt til þess að ásókn heimila í verðtryggð íbúðalán hefur aukist. Að fjárhæð lána óbreyttri er greiðslubyrði verðtryggðra lána léttari en óverðtryggðra lána í upphafi lánstíma. Jafnframt segir að líkt og heimilin hafi fyrirtækin sótt í auknum mæli í verðtryggð lán.

„Hefur sú þróun átt sér stað frá miðju síðasta ári. Tæplega 42% af hreinum nýjum útlánum til fyrirtækja voru í formi verðtryggðra lána á fyrstu sjö mánuðum ársins og um 20% í formi óverðtryggðra lána. Er það töluverð breyting frá sama tímabili í fyrra þegar 21% af hreinum nýjum útlánum voru verðtryggð og 47% óverðtryggð,“ segir í Fjármálastöðugleika.

Aukin sókn heimila og hluta fyrirtækja í verðtryggð lán er þó tiltekið áhyggjuefni enda verður lækkun lánastabbans hægari alla jafna eftir því sem stærri hluti hans ber verðtryggðan höfuðstól. Þetta segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka í samtali við ViðskiptaMoggann.

„Skuldastaða heimila hefur góðu heilli lækkað áfram undanfarin misseri, t.a.m. í hlutfalli við landsframleiðslu og ráðstöfunartekjur heimila. Þá eru skuldir fyrirtækja enn tiltölulega hóflegar þótt þær hafi þokast upp sem hlutfall af landsframleiðslu,“ segir Jón Bjarki.