60 ára Margrét María er fædd og uppalin í Kópavogi en hefur auk þess búið víða um land eða á Húsavík, Seyðisfirði, Ísafirði, Blönduósi og Akureyri. Nú síðast á Eskifirði. Þá hefur hún búið erlendis; í Kaupmannahöfn og Ohio í Bandaríkjunum.
Margrét María lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi og kandídatsprófi í lögræði frá Háskóla Íslands, kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri og þá er hún með MBA-gráðu frá Háskólanum í Highlands and Islands í Skotlandi.
„Ég hef tileinkað starfsferil minn mannréttindum með einum eða öðrum hætti en ég var framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, umboðsmaður barna, forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Síðustu árin hef ég starfað sem lögreglustjórinn á Austurlandi.
Ég hef mjög gaman af því að ferðast um landið með manninum mínum á húsbílnum okkar. Þá hefur verið toppurinn að fara í nokkurra daga gönguferðir á hálendinu. Á veturna förum við gjarnan í ferð til heitari landa til að stytta veturinn. En lögreglustjórastarfið hefur verið krefjandi og erilsamt og hefur það átt hug minn allan síðustu árin.“
Fjölskylda Eiginmaður Margrétar Maríu er Halldór Jóhannsson kennari, f. 1964 og ólst upp á Seltjarnarnesi. Margrét María á tvo syni, þeir eru: 1) Egill Vignisson, f. 1991, kona hans er Sólrún Traustadóttir, f. 1995. Þau eiga eitt barn, Heiðar Vilja, f. 2021, og annað er væntanlegt; 2) Snorri Vignisson, f. 1997, kona hans er Katla Kristín Guðmundsdóttir, f. 1997. Foreldrar Margrétar Maríu eru Sigurður Helgason, f. 1931, d. 1998, sýslumaður á Seyðisfirði, og Gyða Stefánsdóttir, f. 1932, d. 2019, sérkennari.